„Og svo skall náttmyrkrið á, veðurhæðin og frostharkan lömdust um á heiðinni svo menn sýndust standa í iðukófi hver í sínum sporum, frosthella lagðist á bert andlit og kreppti skegg að hörundi og leitaðist við að loka augum og nösum. Menn brutust um í sköflum og stáu fastir og ekki sást faðmslengd, nóttin spennti hópinn helfjötrum.“ (Fátækt fólk, bls. 32-33, höf. Tryggvi Emilsson).
Svona er göngu um tuttugu karlmanna yfir Holtavörðuheiði lýst í fyrsta bindi æviminninga Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk. Bókin kom fyrst út árið 1976 og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs en í fyrra var hún endurútgefin í bókaflokknum Íslensk klassík sem Forlagið gefur út.
Tryggvi Emilsson fæddist árið 1902, sonur hjónanna Emils Petersens og Þuríðar Gísladóttur. Móðir hans lést þegar hann var aðeins 6 ára gamall og í kjölfarið var fjölskyldan leyst upp og systkinum Tryggva, sem og honum sjálfum, komið fyrir hér og þar um landið. Þannig háði Tryggvi erfiða lífsbaráttu strax frá unga aldri, líkt og foreldrar hans og ömmur og afar, langömmur og langafar, en Fátækt fólk er saga uppvaxtarára Tryggva sem stendur okkur nærri, mun nær en flestir gera sér ef til vill grein fyrir.
Það er ágætt að hafa það í huga að hin íslenska millistétt nútímans er komin af fólki eins og Tryggva. Fátæku fólki sem fór fótgangandi yfir heiðar og fjöll til þess að færa björg í bú, sama hvernig viðraði, sama hvort það var hávetur eða sólríkt sumar. Fátæku fólki sem beitt var misrétti og harðræði en lifði þó af og hélt ótrautt áfram. Það gafst ekki upp.
Það er öllum mikilvægt að þekkja rætur sínar. Að vita hvaðan maður kemur og úr hvaða umhverfi. Æviminningar Tryggva Emilssonar eru holl og góð áminning um rætur minnar kynslóðar, kynslóðanna sem komu á undan og kynslóðanna sem koma á eftir. Slíkar rætur er gott að setja í samhengi við íslenskt samfélag í dag og þá erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð og einstaklingar. Mikilvægast er að gefast ekki upp.
Heimildir: Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson, útg. Forlagið, 2010, og formáli að sömu bók eftir Þorleif Hauksson
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021