„Það verður engin miskunn“ sagði Gaddafi við þjóð sína í síðustu viku í ræðu þar sem hann kom þeim skilaboðum áleiðis að málaliðasveitir hans myndu marséra til Benghazi til að ganga frá þeim sem mótmæltu valdstjórn hans. Leitað yrði á hverju einasta heimili svæðisins og þeir sem ekki hlytu skipunum hans myndu hljóta vísan dauðdaga. Þeir sem hafa lifað undir harðstjórn hans taka slíkar hótanir alvarlega, af fenginni reynslu.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna brást við þessum yfirvofandi hörmungum og samþykkti að setja á flugbann yfir Líbíu og lýsti því yfir að fyrirsjáanlegum fjöldamorðum Gaddafi á þjóð sinni yrði ekki leyft að koma til framkvæmda án þess að alþjóðasamfélagið myndi koma þegnunum til varnar. Frakkland, Bretland, Bandaríkin og Ítalía hafa þegar hafið aðgerðir til að eyðileggja loftvarnarkerfi Líbíu sem er nauðsynlegt til að geta framfylgt banninu. Eins hefur fjöldi þjóða líkt og Noregur, Danmörk, Katar og mörg fleiri heitið stuðningi við því að framfylgja banninu. Utanríkisráðherra Íslands hefur einnig réttilega lýst yfir stuðningi við þessar aðgerðir.
Gaddafi hefur í rúma fjóra áratugi stjórnað landinu, eftir að hafa framkvæmt valdarán. Afrekaskrá Gaddafi er of löng til að taka fram í pistli sem þessum, en hann hefur sem dæmi sent hersveit til þess að berjast með góðvini sínum Idi Amin, sem sögusagnir herma að hafi jafnvel verið mannæta. Eins voru Lockerbie hryðjuverkin framkvæmd að hans frumkvæði og er ekki langt síðan að hann fékk einn hryðjuverkamanninn lausan í skiptum fyrir samning við BP.
Í þeirri frelsisbylgju sem nú ríður yfir arabaríkin, reis stór hluti líbísku þjóðarinnar til þess að mótmæla harðstjórn Gaddafi. Íbúar Túnis og Egyptalands sýndu fordæmi þess að hægt væri að koma frá harðstjórum með friðsamlegum aðferðum, ekki þurfti til blóðugt valdarán. Sú þrá að geta mótað eigin framtíð er hverjum manni eðlislæg. Gaddafi hafði þó séð hvernig fór fyrir starfsbræðrum hans í Túnis og Egyptalandi þar sem frelsisbylgjan fékk að viðhalda sér og hóf því að herja á þá sem tóku þátt í mótmælunum. Fjöldi málaliða hefur flætt inn í landið til að aðstoða hersveitir hans í að myrða og pynta þá þegna sem dirfðust að vilja frelsi undan honum.
Með þeim aðgerðum sem alþjóðasamfélagið hefur tekist á hendur er ekki einungis verið að vernda þegna Líbíu frá hefnaraðgerðum sturlaðs einræðisherra, heldur er þetta einnig skýr skilaboð til annarra harðstjóra að þeir geti ekki reitt sig á afskiptaleysi umheimins þegar þeim dettur í hug að fremja glæpi gegn þjóð sinni. Að það sé ekki vænleg leið til að tryggja stöðu sína í hásætinu að drepa óvini sína, heldur geti þvert á móti geti orðið þess valdandi að þeim verði steypt af stóli með valdi alþjóðsamfélagsins. Slík skilaboð hafa sjaldan verið jafn mikilvæg og núna, þegar mikill órói er í öðrum löndum eins og Jemen.
Ljóst er að Gaddafi á fá svör við flugbanninu og þeim aðgerðum sem því fylgir. Spurningin er hvort þær aðgerðir sem gripið hefur verið til muni duga til þess að hemja einræðisherrann og koma honum frá völdum. Alþjóðasamfélagið hefur tekið stöðu með varnarlausa þegnum landsins gegn Gaddafi, og allar aðgerðir snúa að því að tryggja öryggi þeirra eins vel og hægt er úr lofti. Hins vegar er margt óljóst í stöðunni og er ekki allsendis víst hvaða kröfur þurfi að verða uppfylltar til að aðgerðunum ljúki.
Þeirri afstöðu sem hér verið tekin er ekki hægt að bakka út úr. Það verður að teljast mjög óhugnaleg framtíðarsýn ef sú staða kæmi upp að íhlutuninni myndi ljúka án þess að valdstjórn Gaddafi sé komið frá . Þar með yrðu örlög þeirra sem áður áttu stöðu með alþjóðasamfélaginu í höndum Gaddafi á ný. Því miður þarf ekki að leita langt aftur í tímann til að finna slík dæmi. Eins verður að vera mögulegt að aðhafast hratt ef flugbannið er ekki nægjanlegt til þess að stöðva sveitir Gaddafi á jörðu niðri. Mörgum spurningum er ósvarað og bíða margar erfiðar ákvarðanir í þessum efnum. Vonandi tekst alþjóðasamfélaginu að takast á við þau verkefni og samstaðan með hinum kúgaða hópi bresti ekki.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021