Nú þegar forseti Íslands hefur í annað sinn vísað Icesave samningnum til þjóðarinnar og almenn óvissa ríkir um þetta fyrirferðarmikla mál er vert að velta því fyrir sér hvort rétt sé að halda áfram að fara samningaleiðina eða hvort eðlilegra sé hreinlega að fara með málið fyrir dómstóla.
Frá sjónarhóli Evrópuréttar hefði væntanlega verið eðlilegast að fara með málið fyrir dómstóla í upphafi. Ástæðan er einföld; þá hefði því verið slegið föstu í eitt skipti fyrir öll, með fordæmisgefandi hætti, hvort að tilskipun Evrópusambandsins sem mælir fyrir um skyldu ríkja til þess að koma á fót tryggingarsjóði fyrir innistæðueigendur feli í sér ríkisábyrgð á innistæðureikningum. Í því óvissuástandi sem ríkir í fjármálaheimum um alla Evrópu hefði verið vænlegt að fá úr þessu skorið í eitt skipti fyrir öll þannig að aðildarríki og íbúar ríkja Evrópusambandsins (ESB) og Evrópska Efnahagssvæðisins (EES) hefðu getað treyst á skýringu þessarar tilskipunar. Samningaleiðin, sem er pólitísk leið, er á hinn bóginn ekki endilega fordæmisgefandi fyrir önnur tilfelli af þessu tagi sem kunna að koma upp.
Eftir tveggja ára samningaviðræður er auðvitað erfitt að snúa baki við þeim tíma og þeim fjármunum sem fjárfest hafa verið í ferlið. Ennfremur vaknar sú spurning fyrir hvaða dómstóli eigi að reka mál milli Evrópusambandsríkja annars vegar og EFTA ríkis hins vegar.
Evrópudómstóllinn hefur, í einföldu máli, lögsögu í málum sem varða Evrópurétt í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Við gerð EES samningsins voru uppi hugmyndir um „EES dómstól”, en hann átti að hafa lögsögu í málum sem snertu Evrópurétt í aðildarríkjum EES. Aðildarríki ESB eru sjálfkrafa aðildarríki EES og þannig hefði sá dómstóll haft lögsögu bæði yfir ESB ríkjum og EES ríkjum. Í áliti Evrópudómstólsins nr. 1/1991 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að það samræmdist ekki reglum Evrópusambandsins að hafa EES dómstól því þá hefði ESB dómstóllinn ekki lengur síðasta orðið í málum er snertu aðildarríki ESB eins og gert er ráð fyrir í stofnsáttmála Sambandsins. Þetta kann að skjóta skökku við þegar litið er til þess að reglur Evrópusambandsins eru orðrétt teknar upp í EES rétti á þeim sviðum sem það á við. Evrópudómstóllinn tók hins vegar fram að þrátt fyrir að orðalagið væri hið sama, yrði niðurstaða dómstóla ekki endilega sú sama við túlkun reglna fyrir aðildarríki ESB og aðildarríki EES sem ekki eru í ESB. Ástæðan er sú að tilgangur og forsendur samninganna eru ólíkir. Niðurstaðan var því að stofna sérstakan EFTA dómstól, sem ESB dómstóllinn lagði blessun sína á í áliti nr. 1/1992, sem hefði lögsögu yfir þeim ríkjum sem væru aðilar að EES en ekki ESB. Evrópudómstóllinn hefði þannig síðasta orðið í málum er snertu aðildarríki ESB.
Eftir 17 ára dómaframkvæmd EFTA dómstólsins er nokkuð ljóst að þessi munur á lögskýringu sem Evrópudómstóllinn hafði áhyggjur af, hefur í framkvæmd ekki átt við rök að styðjast. EFTA dómstóllinn og ESB dómstóllinn hafa skýrt reglur sem upprunar eru hjá Evrópusambandinu með áberandi líkum hætti og hefur þessi dómaframkvæmd meðal annars orðið til þess að EES réttur er mun líkari ESB rétti í orði en á borði.
En aftur að áliti Evrópudómstólsins nr. 1/1991. Þetta varð sem fyrr segir til þess að tveir „hliðstæðir” dómstólar, annar fyrir Evrópusambandið en hinn fyrir EFTA ríkin eru starfandi og ákveðin gjá hefur myndast þeirra á milli. Gjáin snýr ekki að lögunum sjálfum, heldur að lögsögu dómstólanna. ESB dómstóllinn hefur lögsögu yfir aðildarríkjum ESB, og EFTA dómstóllinn yfir aðildarríkjum EFTA og þar með aðildarríkjum EES sem ekki eru jafnframt aðilar að ESB. Um þessar mundir reynir svo sannarlega á þessa gjá, því hvað gerist þegar aðildarríki ESB stendur í deilum við aðildarríki EES um túlkun tilskipunar eins og í Icesave málinu? Evrópudómstóllinn hefur sjálfkrafa lögsögu yfir Bretlandi og Hollandi, en ekki yfir Íslandi.EFTA dómstóllinn hefur sjálfkrafa lögsögu yfir Íslandi en ekki yfir Bretlandi og Hollandi. Engin dómstóll hefur sjálfkrafa lögsögu yfir öllum aðildarríkjum deilunnar og þannig hefur sú staða komið upp að ríkin innleiða löggjöf frá Evrópusambandinu, en engin dómstóll hefur sjálfkrafa lögsögu til þess að dæma í ágreiningi sem skapast um þessa tilteknu löggjöf.
Nokkrir kostir eru þó í stöðunni.
Þar sem Bretar og Hollendingar leystu út Icesave reikningana, gætu þeir mögulega gengið í kröfur innistæðueigendanna og stefnt íslenska ríkinu fyrir héraðsdómi Reykjavíkur til þess að greiða skuldina sem þeir telja íslenska ríkið hafa ábyrgst á grundvelli evróputilskipunar. Íslenskir dómstólar hafa heimild til þess að leita ráðgefandi álits frá EFTA (sem þrátt fyrir að bera nafnið „ráðgefandi” hefur verið talið bindandi nema sérstök rök mæli fyrir hinu gagnstæða) til skýringar á evrópskri löggjöf sem ekki liggur í augum uppi hvernig beri að skýra. Vafalaust myndi héraðsdómur fara fram á ráðgefandi álit frá EFTA dómstólnum. EFTA dómstóllinn myndi þá túlka tilskipunina og málið myndi síðan vera leyst fyrir íslenskum dómstólum á grundvelli þessa álits. EFTA hefði þannig lokaorðið við túlkun evróputilskipunar í málum sem snerta tvö aðildarríki ESB og eitt aðildarríki EFTA.
Annar kostur í stöðunni er að leysa málið fyrir EFTA dómstólnum. Þrátt fyrir að það standi ekkert í samningnum um EFTA dómstólinn að heimilt sé að reka mál fyrir dómstólnum með þessum hætti, er heldur ekkert sem bannar það og talið hefur verið að EFTA gæti tekið fyrir mál milli tveggja aðildarríkja ESB og einu EFTA ríki. Þannig myndu Bretar og Hollendingar raunverulega semja sig undir lögsögu EFTA.
Þessar tvær leiðir eru vissulega færar, en stóra spurningin er hvort Bretar og Hollendingar myndu velja dómstólaleið fyrir íslenskum dómstólum og EFTA dómstólnum, en ekki Evrópudómstólnum sem þegar á botninn er hvolft á að hafa lokaorðið um túlkun evrópuréttar fyrir aðildarríki ESB. Önnur spurning sem vaknar er hvort Evrópudómstóllinn myndi hreinlega sætta sig við þessa leið og þá er vert að hafa í huga álit Evrópudómstólsins nr. 1/1991 þar sem hann frábiður sér að annar dómstóll hafi lokaorðið um túlkun evrópuréttar.
EES samningurinn gerir ráð fyrir því í 3. málsgrein 111. greinar að EES ríki geti farið með mál fyrir Evrópudómstólinn ef þau snerta löggjöf sem er samhljóma í EES rétti og ESB rétti og það hafi ekki að tekist að leysa úr deilunni innan þriggja mánaða fyrir sameiginlegu EES nefndinni. Þannig er gert ráð fyrir því í EES samningnum að EFTA ríki geti farið með mál fyrir Evrópudómstólinn og hann hafi þannig lögsögu yfir þeim. Evrópudómstóllinn hefur hins vegar að minnsta kosti tvisvar sinnum vísað frá ágreiningsmálum sem snertu EES samninginn. Bæði málin, Andersen (Svíþjóð) og Rechberger (Austurríki), snéru að ágreiningi sem átti sér stað áður en Svíþjóð og Austurríki gengu í ESB, en á þeim tíma voru þau EFTA ríki. Erfitt er að fullyrða um hvort Evrópudómstóllinn myndi vísa máli frá sem snéri að Ísalndi, sem ekki er aðili að ESB, með sama hætti og hann vísaði frá málum sem snertu Svíþjóð og Austurríki áður en þau gerðust aðilar að ESB. Aðalspurningin hlýtur hins vegar að vera sú hvort Ísland muni sætta sig við að láta Evrópudómstólinn, sem það er ekki aðili að, úrskurða í máli sem Ísland stendur í gegn aðildarríkjum Evrópusambandsins, og þar með dómstólsins..
Til greina kemur jafnframt að setja upp alþjóðlegan gerðardóm og sú hugmynd hefur jafnvel verið nefnd að fara með málið fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag. Aftur hlýtur sú spurning að vakna hvort Evrópudómstóllinn (og jafnvel EFTA dómstóllinn) myndi sætta sig við að annar dómstóll úrskurðaði með bindandi hætti um evrópulöggjöf. Eins má velta því fyrir sér hvort ríkjunum þætti þetta vænlegur kostur þegar tveir dómstólar sem eru sérhæfðir í túlkun á evrópulöggjöf eru starfandi nú þegar.
Ljóst er að margar leiðir eru færar ef ákveðið verður að fara dómstólaleiðina, hins vegar er það undir ríkjunum komið fyrir hvaða dómstóli þau vilja leysa úr þessum ágreiningi. Vilja Bretar og Hollendingar reka mál fyrir íslenskum dómstólum eða EFTA dómstólnum, sem þeir eru ekki aðilar að? Vilja Íslendingar að Evrópudómstóllinn dæmi með bindandi hætti í þeirra málum? Munu Evrópudómstóllinn og EFTA dómstóllinn sætta sig við að ágreiningur um evróputilskipun verði rekin fyrir alþjóðlegum gerðardómi eða alþjóðadómstólnum í Haag? Allt eru þetta spurningar sem verður að svara áður en dómstólaleiðin verður fyrir valinu og því miður dugar lögfræðin skammt við val á leiðum, því það er pólitísk ákvörðun.
- Hvað verður um Evrópusambandið? - 10. desember 2011
- 540 daga stjórnarkreppa á enda – bara efnahagskreppan eftir - 3. desember 2011
- Vald án ábyrgðar - 20. apríl 2011