Ísland hefur jafnan verið talið tiltölulega öruggt samfélag, sem það og er, almennt séð. Hér getur fólk t.d. talað í farsíma út á götu án þess að eiga það á hættu að einhver ráðist á það til þess eins að ná símanum eða hlustað á I-podinn sinn í strætó án þess að einhver annar strætófarþegi hóti að rista viðkomandi á kvið, láti hann I-podinn ekki af hendi. En öllum samfélögum fylgja samfélagsmein, hversu örugg sem við teljum okkur vera í hinu daglega lífi, og er Ísland þar engin undantekning. Eitt af fjölmörgum meinum íslenks samfélags er hvers kyns ofbeldi gagnvart börnum.
Í nýliðinni viku hrinti Barnaheill af stað herferð til að vekja athygli á því úrræðaleysi sem ríkir í kerfinu þegar kemur að börnum sem alast upp sem vitni að ofbeldi á heimili en verða ekki beint fyrir því sjálf. Inni á heimasíðunni verndumborn.is má skrá nafn sitt á undirskriftalista sem með fylgir áskorun til stjórnvalda um að koma fram með úrræði fyrir þessi börn. Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 600 manns skrifað undir áskorunina og án þess að ætla gera lítið úr mikilvægi Icesave-samningsins þá þykir mér það sorglegt hversu fáir hafa látið þessa herferð skipta sig máli, miðað við allan þann fjölda sem á að hafa undirritað áskorun til forseta Íslands um að vísa nýjum Icesave-samningi til þjóðarinnar. Sýnir þetta kannski ágætlega hversu mikið tabú heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum er í íslensku samfélagi. Ég hvet alla til að fara inn á verndumborn.is og skrá nafn sitt við áskorun Barnaheilla; hún er ekki síður mikilvæg en áskorunin sem afhent var forsetanum fyrir helgi.
Annað mál sem verið hefur í fréttunum og fjallað hefur verið mikið um í DV eru “týndu stelpurnar”. Hér er í flestum tilfellum um að ræða unga fíkniefnaneytendur, yngri en 18 ára, þar af leiðandi erum við hér að tala um börn. Þegar lýst er eftir þessum börnum, þessum stúlkum, í fjölmiðlum veltir maður því fyrir sér hvar þær halda eiginlega til. Svo virðist vera sem að þær haldi til hjá þeim sem geti reddað þeim næsta skammti og þá ekki endilega gegn greiðslu í peningum, heldur gegn greiðslu í kynlífi. Svari nú hver fyrir sig: ætlum við að sætta okkur við að búa í samfélagi þar sem jafnógeðfelldir hlutir viðgangast? Ungar stúlkur, sem og allir aðrir fíkniefnaneytendur, eru veikar og það er ástand sem sumir hika ekki við að notfæra sér.
Ég er ekki löglærð og veit því ekki hvort ofangreind “viðskipti” eru lögleg. Það skiptir heldur ekki máli. Í mínum huga er þetta ofbeldi. Kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum. Það er ólöglegt og því á að sækja þá menn til saka sem í skjóli þeirrar eymdar sem fylgir fíkniefnaneyslu notfæra sér börn á umræddan hátt.
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021