Ég er fótboltafíkill. Hef verið það frá því ég man eftir mér. Ólst upp við það að spila fótbolta í nær öllum frístundum mínum og eyði stórum hluta af frítíma mínum í að fylgjast með fótbolta. Tölvan mín segir mér að þær heimasíður sem ég heimsæki hvað mest séu fotbolti.net, skysports.com, soccernet.com og goal.com – allt vefsíður sem tengjast knattspyrnu. Ég hef verið stuðningsmaður Chelsea frá unga aldri, áður en þeir urðu ríkir og góðir. Erfði það frá föður mínum sem byrjaði að styðja félagið á áttunda áratug síðustu aldar.
Í þessum pistli ætla ég að gera tilraun til þess að útskýra fyrir venjulegu fólki hvernig lífi fótboltafíkla er háttað og hvernig best er að haga sínum samskiptum við þá.
Fólk sem í daglegu tali kallast anti-sportistar skilur ekki þessa þráhyggju okkar fótboltafíkla. Af hverju í ósköpunum þarf að fylgjast með hverjum einasta knattspyrnuleik í sjónvarpinu? Það botnar ekkert í þessari tímaeyðslu og vill frekar eyða tíma sínum í eitthvað „menningarlegra“ – s.s. að horfa á C.S.I. eða Gossip Girl eða jafnvel spila tölvuleiki á borð World of Warcraft. Svo er til eitt millistig sem ég nefni fótboltaáhorfendur, en það eru þeir sem fylgjast með fótbolta svona við og við. Sérstaklega ef liðinu þeirra gengur vel, þá horfa þeir á hvern leik en þegar það fer að halla undan fæti þá er þetta ekkert merkilegt. Fótboltaáhorfendurnir myndu t.d. aldrei láta sér detta það í hug að horfa á leik Wigan og Birmingham, hafa bara ekki áhuga á því. Við fótboltafíklarnir horfum á alla leiki og fáum aldrei nóg, þess vegna líður okkur aldrei betur en þegar heimsmeistara- og evrópumót eru annað hvert ár, þá eru oft þrír fótboltaleikir á dag – ekkert hljómar betur!
Það sem venjulegt fólk áttar sig sjaldnast á er að daglegt skap okkar fótboltafíkla byggist á gengi liðanna okkar. Ég er til dæmis aldrei ferskari en morguninn eftir stórsigur Chelseamanna og að sama skapi aldrei daufari en daginn eftir tapleik. Þess vegna er mikilvægt að kíkja á úrslit helgarinnar áður en maður nálgast fótboltafíkil í upphafi dags. Í raun geta fótboltafíklar lagst í þunglyndi ef tapið er þeim mun sárara. Þegar Chelsea tapaði úrslitaleiknum í Meistaradeild Evrópu árið 2008 í vítaspyrnukeppni gegn erkióvininum í Manchester United fór undirritaður á dimman stað og komst aðeins frá honum með diggum stuðningi ástvina vikum seinna. Líf okkar er enginn einhver dans á rósum. Tilfinningasveiflurnar á þessum 90 mínútum sem fótboltaleikur er spilaður á eru gríðarlegar. Eina stundina er maður bölvandi öllu í sand og ösku og hina dásamar maður hvert einasta augnablik. Þessar tilfinningasveiflur geta sett svip sinn á líf manns því þegar illa gengur er maður hreinlega smeykur við að mæta til vinnu eða hitta vini því maður er skotinn í kaf af öðrum jafnslæmum fótboltafíklum – að sama skapi lætur maður í sér heyra þegar vel gengur. The circle of life.
Þessar tilfinningar þekkja Poolarar manna best en Poolarar eru sér þjóðflokkur sem lifir meðal okkar fótboltafíkla. Þeir dá og dýrka enska úrvalsdeildarliðið Liverpool. Gallinn er einfaldlega sá að þeir halda því statt og stöðugt fram að Liverpool sé besta félagslið heims, þrátt fyrir þá staðreynd að liðið hefur ekki orðið meistari í yfir 20 ár. Þess vegna hafa Poolarar verið í vondu skapi frá því ég man eftir mér (kannski Poolarar séu efni í annan pistil síðar meir).
Annað sem við fótbolafíklar þurfum að lifa með er að við þurfum að endurnýja öll húsgögn í kringum sjónvarpið oftar en flest venjulegt fólk. Þessi tilteknu húsgögn vilja stundum verða á vegi okkar þegar illa fer, þannig eru stofuborð sérstaklega oft fórnarlömb reiðiskasta fótboltafíkla. En okkur er sama, þetta er partur af leiknum.
Eins og fyrr segir er mikið mál að vera fótboltafíkill. Það þarf að skipuleggja tíma sinn vel í kringum alla þá leiki sem maður má ekki missa af. Ef við tökum þessar klassísku helgar þá byrjar hasarinn á laugardögum í hádeginu með fyrsta leik umferðarinnar, strax í kjölfarið er leikur kl 15:00 og svo annar kl 17:30. Þegar klukkan er svo langt gegnin í átta getur maður farið að slaka aðeins á – og þó, það vill koma fyrir að einhverjir skemmtilegir spænskir leikir séu í sýndir á laugardagskvöldum, oftast þá augnakonfektsfótbolti frá Barcelona sem maður lætur ekki framhjá sér fara. Á sunnudögum eru svo yfirleitt tveir til þrír leikir á milli 13:00 og 17:00, oftar en ekki spila stóru liðin þá. Eins og sjá má fer örlítill tími í þetta frábæra áhugamál og ef það á að sinna fjölskyldu og vinum sem skyldi þarf maður að passa sig vel, taka daginn snemma og annað slíkt.
Að lokum er rétt að minnast aftur á anti-sportistana, en þeir vilja koma okkur fótboltafíklunum fyrir kattarnef. Þeir kjósa líf án fótboltans, án ástríðunnar og án IKEA ferðanna að kaupa ný sófaborð á þriggja mánaða fresti. Þessir anti-sportistar halda því fram að þeir geti afeitrað okkur fótboltafíklanna en fíkn er bara fíkn og sá fíkill sem ekki er tilbúinn að láta lækna sig mun ekki læknast – meiri líkur eru á að fótboltafíkillinn nái að smita anti-sportistann.
- Landsdómur í laumi - 18. mars 2012
- Tíu hlutir sem þú vissir ekki um Kim Jong-il - 5. janúar 2012
- Hvers vegna á ekki að lögleiða notkun fíkniefna? - 13. desember 2011