Reykjavíkurborg hefur ákveðið að skera niður framlög sín til tónlistarkennslu. Vegna þessa hafa komið fram skiptar skoðanir um efnið, en það virðist samt ekki komið af stað grundvallarspurningunni um það “hvað við erum að kenna börnum í skólum landsins?”
Á tímum sem þessum, þar sem þarf að skera niður og breyta öllu, ættum við ekki frekar að spyrja okkur hvernig viljum við mennta börnin okkar, svo þau verði tilbúin fyrir framtíðina? Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér og það er gaman að hafa það á bak við eyrað að þau börn sem hefja grunnskólanám í haust fara væntanlega á eftirlaunaaldur árið 2072. Við vissum svo sannarlega ekki árið 2006 hvernig árið 2011 yrði, hvað þá að við vitum hvernig árið 2072 verður. Því er það okkar skylda að við gerum okkar besta í að mennta börnin okkar þannig að þau verði tilbúin fyrir framtíðina, hver sem hún verður.
Sir Ken Robinsson sagði í fyrirlestri sem hann hélt á TED árið 2006 að “skólakerfi heimsins eru að drepa skapandi hugsun” og ég verð að segja að ég held að það sé mikið til í því. Í skólum heimsins er lögð aðaláhersla á stærðfræði eða aðrar raungreinar og tungumál. Næst á eftir þeim koma félagsfræðigreinar en það sem rekur lestina eru listgreinar og íþróttir.
Hver er ástæðan fyrir þessu?
Tók einhver ákvörðun á síðustu 60 árum sem var á þá leið; við munum leggja mesta áherslu á stærðfræði og tungumál þangað til komið er á háskólastig því það mun undirbúa börnin hvað mest fyrir framtíðina? Er þessi hugsun ekki einmitt komin frá því þegar grunnskólamenntun var hugsuð til þess eins að koma fólki út á vinnumarkaðinn? Vinnumarkað sem er ekki lengur í líkingu við þann sem var fyrir 10 árum síðan, hvað þá fyrir 50 árum.
Uppseting skólakerfis okkar er búin til langt fyrir tíma okkar flestra? Uppbygging þessa kerfis er nokkurskonar færiband. Ímyndaðu þér færiband þar kemur barn og er sett í leikskólavagninn þar sem því er leyft að leika sér og það lærir að syngja, tala, labba, teikna og allt þetta sem gerir manninum kleift að tjá sig, svo þegar barnið hefur náð 6 ára aldri þá er því komið fyrir á næsta vagn. Þá tekur við grunnskólavagninn, í honum á að læra öll grundvallaratriði í íslensku, stærðfræði, landafræði, saumum, trésmíði, sundi og fótbolta. Þegar barnið er orðið 16 ára er ákveðið að það sé búið að ná því sem náð verður og það er sent í næsta vagn, gleymum ekki að barnið hefur smá ákvörðunarvald hér, það getur farið í bekkjarkerfi eða fjölbrautakerfi, verknám eða bóknám, eða það getur ákveðið að fara ekki í meiri menntun, heldur farið að vinna.
Ef það ákveður að halda áfram að mennta sig breytast hlutirnir mun minna en það gerði eflaust sjálft ráð fyrir, það þarf að klára sína 6 áfanga í íslensku, svo er það enskan aðrir 5 áfangar, danskan einhverjir 3, stærðfræðin einhverjir 3 til 6 áfangar (því er samt gert grein fyrir því að ef það vilji eiga möguleika á háskólanámi verði það að taka þennan og hinn áfangann til þess að eiga möguleika að komast inn). Síðan fær það val en grunnnámið á öllum brautum framhaldsskólanámsins inniheldur þessa þætti. Þannig að það er ekki fyrr en komið er á háskólastig að við leyfum einhverskonar einstaklingsmiðað nám, einhverskonar alvöru val er leyft. Við erum frá því að börn hefja nám í 1 bekk að segja; þetta er það sem er mikilvægt, þetta er það sem á eftir að fleyta þér áfram í lífinu, þú verður að standa þig vel í þessu annars á þér eftir að ganga illa. Okkur er kennt frá blautu barnsbeini að færibandið sé það sem bjargi okkur í framtíðinni, því snemma á 20 öldinni fór að myndast skólakerfi sem við höfum enn ekki náð að taka með okkur inn í nútímann.
Minn draumur um nám er að öllum greinum sé gert jafnt undir höfði þannig að við séum ekki að setja eldgamalt gildismat á börnin okkar sem eiga eftir að sjá framtíð sem enginn getur ímyndað sér. Því held ég að kalla ætti til sérfræðinga í kennslu og bestu sérfræðingarnir eru þeir sem eru í skólastofunum daglega og vita hvað kemur börnunum til að hugsa. Fá fólk sem hefur unnið við skapandi greinar og þá ekki einungis listamenn heldur jafnframt fólk sem hefur skapað eitthvað og spyrja það hvað virkaði fyrir það. Það er mikilvægt að læra íslensku, það er mikilvægt að kunna að reikna en það er líka mikilvægt að kunna að nota líkama sinn, að kunna að koma fyrir sig orði og vita að þó að maður sé ekki endilega bestur í landafræði þá hafa allir hæfileika og þeir eru allir jafn mikilvægir.
Fyrir mér eiga skólar að snúast um að þjálfa heilann í öllu því sem honum við kemur hvort sem það sé dans, deiling, ljóð, danska, smíði eða fótbolti, því allt þetta kemur mismunandi stöðvum heilans af stað og allt er það jafn mikilvægt.
Hvers vegna núna?
Ég er hugsanlega ekki í fjölmennum hópi en ég lít á þessa kreppu sem við erum í sem tækifæri, ég lít á hana sem tækifæri til að breyta rétt, hugsa hlutina frá grunni og byggja upp á nýtt. Það væri jafnframt miklu léttara fyrir samfélagið að hugsa þetta sem nýtt upphaf heldur en niðurskurð á gæði okkar því þetta þarf ekki endilega að vera þannig.
Lítum framtíðina björtum augum og eins og Megas sagði svo réttilega “ef þú smælar framaní heiminn þá smælar heimurinn framní þig”
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021