Ímyndum okkur að við séum svöng eftir mikla erfiðisvinnu og okkur fer að hungra í góðan mat. Í kjölfarið er tekin sú ákvörðun að seðja hungrið með glóðarsteiktum hamborgara með öllu því dýrindis meðlæti sem er í boði. Hugsum okkur svo að um leið og maður hefði pantað þennan borgara þá hefði maður þess í stað fengið í hendurnar matseðil með eftirfarandi texta:
– Stefnt skal að því með tímanum að bjóða uppá hamborgara á heimsmælikvarða hvort sem litið sé til hollustu, bragðs, litar, áferðar, ilms eða matarupplifunar.
– Kanna þarf af hverju franskar kartöflur hafa hátt fituhlutfall en lágt næringarhlutfall og hugað verður að gerð áætlunnar um endurbætur á þessu fyrirkomulagi
– Koma þarf á fót barnahorni enda hafa rannsóknir sýnt að leikur er börnum hollur
– Tryggja þarf gæði tómatsósu staðarins með öflugu gæðamati byggt á alþjóðlegum stöðlum.
– Grænn mat er eitt skýrasta sóknarfæri veitingastaða á næstu áratugum. Til að nýta það þarf að huga að innviðum, mannauði, umhverfismálum, sjálfbærri nýtingu auðlinda, skattalegu umhverfi, auk umhverfis rannsókna og þróunar.
– Mörkuð skal skýr stefna um matseðla og unnin verður áætlun um jöfn hlutföll fæðutegunda á matseðlinum.
Í síðasta mánuði var kynnt verkefnið Ísland 20/20 sem er framtíðarsýn stjórnvalda um Ísland næstu árin. Þessu verkefni höfðu margir beðið eftir með óþreyju enda hefur oft verið erfitt að átta sig á stefnu stjórnvalda í ýmsum atvinnutengdum málum.
Því miður var innihald skýrslunnar keimlíkt matseðlinum áðurnefnda. Það er ekkert sérstaklega slæmt í þessari skýrslu. Það vantar bara kjötið.
Í dag eru sérlega frjóir tímar þar sem Íslendingar geta endurhugsað hvaða atvinna verði ríkjandi næstu áratugi. Til þess að það gerist þá þarf að velja á milli ólíkra kosta.
Dæmi um það væri ákvörðun um að gera ekki fleiri fjárfestingarsamninga við álframleiðendur heldur leggja áherslu á fleiri og smærri kaupendur raforku. Önnur slík ákvörðun gæti verið að stórauka útskrifaða verk- og tæknifræðinga og tvö eða þrefalda fjármagn til þess náms.
Sú stefnumörkun sem ríkisstjórnin styðst við dag frá degi, fjárlagafrumvarpið, lýsir forgangsröðun ár frá ári. Í núverandi fjárlögum er ekki tekið með afgerandi hætti nein afstaða með þeim hætti sem hér er talað um.
Enginn hamborgari, bara mjög mikið af kokteilsósu.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021