Segja má að íslenska þjóðin fari í ákveðið ástand þegar íslenska karla landsliðið í handbolta fer á stórmót. Þjóðin einfaldlega límir sig við skjáinn á meðan strákarnir okkar reyna að sigra heiminn.
Þegar ljóst varð fyrir nokkrum mánuðum að Ríkisútvarpið hafði ekki haft efni á að kaupa sýningarréttinn á heimsmeistarakeppninni í handbolta ráku margir upp stór augu. Þeir atburðir sem fá ítrekað hvað mest áhorf á RÚV eru Eurovision söngvakeppnin, Áramótaskaupið og svo þegar íslenska landsliðið etur kappi á stórmótum í handbolta. Því mætti halda að RÚV myndi leggja allt í sölurnar til að halda þessum ómissandi dagskrárlið í sjónvarpi allra landsmanna, sú varð ekki raunin og niðurstaðan var að 365 miðlar ehf keyptu réttinn fyrir eina af sínum rásum, Stöð 2 Sport.
Páll Magnússon útvarpsstjóri bar fyrir sig kostnað og sagði RÚV einfaldlega ekki haft efni á að kaupa sýningarréttinn að þessu sinni. Einnig vildi Páll að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, myndi skerast í leikinn og skikka Stöð 2 Sport til að sýna leiki íslenska landsliðsins í opinni dagskrá, líkt og tíðkast sumstaðar á Norðurlöndunum. Menntamálaráðherra ákvað að aðhafast ekki neitt í þessu máli og því fór sem fór – HM í Svíþjóð 2011 yrði sýnt í læstri útsendingu á Stöð 2 Sport.
Við þessar fréttir sköpuðust ákveðnar deilur, margir bentu á að áskrift að Stöð 2 Sport kostar heilar 6.400 krónur og að undir 10% landsmanna séu með áskrift að rásinni. 365 létu þetta sem vind um eyru þjóta og einbeittu sér að því að skapa mótinu skemmtilega umgjörð – en svo eins og þruma úr heiðskíru lofti kemur Páll Magnússon með tilboð frá RÚV um að kaupa til baka réttinn af 365. Tilboðið hljóðaði upp á sömu upphæð og 365 hafði upphaflega borgað auk 20% álagningar. Einhvers staðar hafa RÚV menn rambað á gull því nokkrum mánuðum áður áttu þeir ekki þessa peninga til. Skemmst er frá því að segja að Ari Edwald forstjóri 365 sakaði útvarpsstjóra um að vera kominn í hlutverk grínista og hafnaði tilboðinu.
En þegar horft er yfir hvernig til hefur tekist hjá Stöð 2 Sport verður að gefa þeim mikið hrós fyrir vikið. Það var virkilega stekur leikur að ráða Þorstein J. til að sjá um upphitunarþættina fyrir og eftir leik. Þorsteinn er mjög vandaður sjónvarpsmaður sem leggur mikinn metnað í þætti sína. Þorsteinn fékk til liðs við sig virkilega fróða og skemmtilega gesti eins og t.d. Geir Sveinsson, auk þess sem Guðjón Guðmundsson er honum innan handar. Það sem gerir gæfumuninn fyrir sportstöðina er að þeir hafa mun meiri tíma (og mögulega fjármagn) til að gera mótinu betri skil heldur en RÚV hefur gert í gegnum árin, þess vegna eru þættirnir, viðtölin og öll greining á leikjunum mun skemmtilegri fyrir vikið.
Hvað varðar þá gagnrýni að fáir myndu sjá keppnina verður að segjast að þau rök standast ekki. Allavega hefur undirritaður ekki ennþá rekist á þann einstakling sem hefur ætlað að horfa á leiki landsliðsins en ekki getað það vegna þess að þeir eru sýndir á Stöð 2 Sport. Meira segja hefur þetta skapað ennþá skemmtilegra andrúmsloft þar sem fólk hópar sig frekar saman í heimahúsum eða á ölkeldu húsum til fylgjast með brosum og tárum strákanna okkar.
Framtakið hjá 365 hefur heppnast frábærlega og verður að segjast að strákunum okkar líður vel á Stöð 2 Sport.
- Landsdómur í laumi - 18. mars 2012
- Tíu hlutir sem þú vissir ekki um Kim Jong-il - 5. janúar 2012
- Hvers vegna á ekki að lögleiða notkun fíkniefna? - 13. desember 2011