Þótt dagarnir séu stuttir um þessar mundir og veðrið ekki alltaf skemmtilegt dytti sennilega fáum í hug að álykta sem svo að veðrið yrði vont alla tíð eða að sólin færi ekki að skína á nýjan leik. Hvað þá að taka stórar ákvarðanir á þeim grundvelli, enda vita flestir að veðrið er síbreytilegt og dagarnir mislangir.
Í stjórnmálum er þessu öfugt farið. Þar eru merkilega margir tilbúnir að gera núið að upphafi og endi skoðana sinna. Í hinu daglega lífi í stjórnmálunum gengur oft á ýmsu og fyrir vikið opnast tækifæri til að láta ljós sitt skína. Vandinn í stjórnmálum er hins vegar sá að orðum fylgja ábyrgð og stjórnmálamenn sem haga skoðunum sínum eftir því hvernig vindar blása hverju sinni missa fljótlega tiltrú fólks.
Á þessum tímum er mikilvægt að hafa þetta í huga, þar sem í landinu er óvinsæl og óstöðug ríkisstjórn að fást við erfið og flókin verkefni í stjórnmálunum. Tilefnin eru mörg til að slá pólitískar keilur. Það getur því verið erfitt að lesa í stefnuna eða sjá einhverja heildstæða hugmyndafræði í umræðunni hverju sinni.
Valkostir við ríkjandi ástand
Stjórnarandstaðan hverju sinni er í því hlutverki að gagnrýna og búa til valkost við ríkisstjórnina. Segja má að þetta sé hægt að gera á tvo vegu, annars vegar með því að vera almennt á móti því sem ríkisstjórnin gerir, reyna að finna sundrungu og vandræði hjá ríkisstjórninni og gera sér mat úr því. Núverandi ríkisstjórn býður upp á ótal tækifæri til þess að gera sér mat úr vandræðaganginum og raunar er ríkisstjórnin farin að verða sjálfbær að þessu leyti þar sem hennar eigin þingmenn bera nú uppi brigslyrðin um hana. Hin leiðin fyrir stjórnarandstöðu er að bjóða upp á sína eigin stefnu og sýn sem valkost við þá stjórnarstefnu sem er í gangi hverju sinni. Flestir stjórnarandstöðuflokkar reyna að gera hvorttveggja.
Ríkisstjórnin er samsett af flokkum sem eru vinstra megin við miðju, annar lengra en hinn. Þótt einstaka þingmenn Samfylkingar kenni sig við að vera hægrikratar á tyllidögum hefur það ekki leynst neinum að vinstrið hefur ráðið ferðinni í ríkisstjórninni. Háir skattar, aðgerðarleysi fyrir heimilin og fyrirtækin og erfið skilyrði til að reka fyrirtæki hafa gert það að verkum að það er lítið að gerast. Spírallinn þar sem íþyngjandi aðstæður í efnahagslífinu skapa ekki nægar tekjur til að standa undir velferðarkerfinu, sem þarf svo að fjármagna með enn hærri skattheimtu og gjöldum er farinn af stað.
Söguskýringar hrunsins
Á tímum sem þessum er mikilvægt að flokkar sem kenni sig við hægristefnu haldi merkjum þeirrar stefnu á lofti. Nú þegar rykið er farið að setjast í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 hafa sífellt fleiri séð í gegnum þau stóryrði sem féllu um að hrunið sé vegna frjálshyggjunnar, eða eftir atvikum nýfrjálshyggjunar, eins og haldið var fram á sínum tíma. Staðreyndin er sú að orsök efnahagskreppunnar í heiminum tengist miklu frekar því að áhættustarfsemi banka og fjármálafyrirækja var rekin í skjóli ríkisábyrgða og ítrekaðra fullyrðinga og loforða stjórnvalda um að grípa inn í ef illa færi. Húsnæðislánin sem íbúðalánasjóðir Bandaríkjanna veittu á sínum tíma voru beinlínis veitt til hópa sem vitað var að gætu illa staðið undir þeim en voru engu að síður keypt og seld út um allan heim sem fjármálaafurðir. Ein af veigamestu ástæðum þess að frjáls markaður er skynsamlegri en ríkisafskipti er einmitt sú að áhættan ef illa fer er ekki á herðum almennra skattgreiðenda heldur þeim sem tóku raunverulega áhættuna. Þessu hafði verið snúið á haus – áhættusækni var í skjóli ábyrgða ríkisins.
Höfum við gengið til góðs…
Baráttan fyrir hægri gildum á Íslandi í dag er rekin af meira kappi en forsjá. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi hagnast á því í skoðanakönnunum að ríkisstjórnin hefur runnið á rassinn í hverju málinu á fætur öðru þá er enn að mörgu leyti óljóst í hvaða átt flokkurinn stefnir til lengri tíma. Það er ekki að öllu leyti sanngjarnt að sakast við núverandi forystu eða þingflokk í þeim efnum, þar sem flokkurinn hefur átt í vök að verjast í kjölfar kosninganna 2009. Eðlilegt ráðrúm til þess að gera upp liðna tíð hefur því ekki gefist og nokkuð stór hópur innan flokksins virðist hafa á því lítinn áhuga. Á meðan hægt er að finna að störfum vinstri stjórnarinnar og gömlu andstæðinganna virðast menn telja ónauðsynlegt að læra af fortíðinni. Með því er ekki átt við að fara eigi út í uppskrúfaðar og örvæntingafullar afsökunarbeiðnir vegna efnahagshrunsins, heldur miklu frekar að reyna að læra af því hvað gerðist á 18 ára valdatíð flokksins og hvort sá árangur sem náðist hafi verið ásættanlegur.
…götuna fram eftir veg?
Sjálfstæðisflokkurinn sat á þessum tíma, þ.e. frá 1991 og allt til janúar 2009, í forystu í ríkisstjórn tveggja flokka og hafði forystu um stærstu málaflokka innan stjórnarráðsins. Þegar horft er á stóru myndina í þessum efnum standa nokkrir atburðir upp úr; EES-samningurinn var staðfestur sem færði umgjörðina í atvinnulífinu til betra horfs og mörg ný og spennandi fyrirtæki skutu upp kollinum, halli á ríkissjóði hvarf smám saman og ríkissjóður hóf að greiða niður skuldir sínar. Hagvöxtur var stöðugur frá árinu 1995 og kaupmáttur jókst. Í kringum aldamótin var hafist handa við að selja stór fyrirtæki sem höfðu verið í eigu ríkisins, s.s. Símann og bankana. Ríkisvaldið lækkaði skatta á einstaklinga, sem var hægt að gera þar sem tekjur ríkisjóðs af hagnaði fyrirtækja og fjármagnstekjum jukust á sama tíma. Þetta voru jákvæð merki um breytingar á samfélaginu.
Á móti kom að útgjöld ríkissjóðs hækkuðu ár frá ári og umsvif ríkisvaldsins jukust hægt og bítandi. Fjöldi nýrra stofnana, stofa og sjóða á vegum hins opinbera voru stofnaðar, oftar en ekki til að friðþægja tiltekna hópa eða sjónarmið. Þrátt fyrir að skattar hefðu lækkað voru þeir enn tiltölulega háir og mikið af skattalækkunum ríkisstjórnarinnar tengdust tilfærslu verkefna yfir til sveitarfélaga sem hækkuðu útsvar sitt í staðinn. Útkoman var því áþekk skattprósenta. Fornaldarfyrirbæri eins og styrkjakerfi landbúnaðarins lifðu góðu lífi í tíð 18 ára „frjálshyggjustjórnar“. Á sviði erlendra fjárfestinga var einnig rekin undarleg verndarstefna en samkvæmt lögum var öll erlend fjárfesting bönnuð, með þeim takmörkunum sem EES-samningurinn setti möguleikum þjóða til að banna fjárfestingar. Engu að síður var sjávarútvegur og orkuiðnaður undanskilinn og engin erlend fjárfesting leyfð á þeim sviðum sem ætla mætti að mestur áhugi væri á að fjárfesta í. Ríkið var hins vegar ötult á orkumarkaði, byggði stórar virkjanir og tók lönd og jarðir bænda eignarnámi ef því var að skipta til þess að geta rýmt til fyrir virkjunum en seldi svo orkuna til erlendra álfyrirtækja sem hingað komu. Fyrirtækin voru flestöll dótturfélög gagnvart erlendu móðurfélagi sem hirti ágóðann út en eftir urðu störf og velta hér á landi, sem stjórnmálamenn fóru ekki leynt með að vera helsti tilgangur orkunýtingar hér á landi. Ekkert af þessu hljómar eins og aðgerðir stjórnvalda eða ríkisstjórnar sem er langt til hægri.
Á pari við annað
Heilt yfir var þróunin hér því margt svipuð því sem gerðist annars staðar á Vesturlöndum frá 1990, þar sem stöðugleiki ríkti og hagvöxtur jókst víðast hvar, fyrirtækjum gekk ágætlega og stjórnmálamennirnir gátu deilt ríkulega úr sameiginlegum sjóðum sínum. Að vísu komu sveiflur inn á milli, s.s. þegar internet-bólan sprakk upp úr aldamótum, en afleiðingar þess urðu ekki langvinnar og almennt ríktu hagfelld skilyrði þessa tvo áratugi.
Það er því ekki hægt að segja að hér hafi ríkt einhver sérstök frjálshyggjustefna eða að landið hafi verið rekið eftir strangri hugmyndafræði. Og það er óraunhæft og óskynsamlegt að ætla að stýra samfélagi eftir hugmyndafræði. Hins vegar þarf að vera stefnt í ákveðna átt og Sjálfstæðisflokkurinn þarf að finna sín leiðarljós á nýjan leik. Flokkurinn má ekki vera hræddur við að leita út fyrir landssteinana eða fara í aukið alþjóðlegt samstarf, ekki síst í því markmiði sem hlýtur að vera ofarlega í hugum stjórnmálamanna, að fá traustan gjaldmiðil hingað og þurfa ekki að reiða sig á krónuna. Að sjá þingmenn flokksins berjast fyrir því, samhliða Heimsýn og Bændasamtökunum, að halda íslensku krónunni og hrósa hinum meinta sveigjanleika hennar eða beita sér fyrir því að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka gefur ekki miklar vonir um að breyttir tímar séu framundan. Markmiðið í stjórnarandstöðunni núna getur ekki verið það eitt að pönkast á ríkisstjórninni þar til hún fer frá og vona þá að allt verði aftur eins og það var.
Vörn er vond til lengdar
Sjálfstæðisflokkurinn ætti að nýta tímann núna, meðan hann er í stjórnarandstöðunni og fara vel yfir þann 18 ára tíma sem flokkurinn var við völd og flestar þær ákvarðanir sem mótað hafa þjóðfélagið í dag voru teknar. Margar þeirra voru góðar en aðrar síðri, eins og gengur. Margt af því sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði var líka hluti af málamiðlunum sem eru hluti af pólitíkinni. Þeir sem gera slíkar málamiðlanir telja sig oft þurfa að verja slíka niðurstöðu og smám saman dofna línurnar á milli hugsjóna og málamiðlana. Þegar flokkar eru lengi við völd verður það oft til þess að framámenn flokksins hafa ítrekað þurft að taka slaginn til að verja niðurstöðu sem var ekki endilega sú besta, eða mest í samræmi við hugmyndafræðina, heldur sú eina sem völ var á. Því á flokkurinn að nýta tímann núna á meðan hann er laus að bera þann kross að halda kerfinu gangandi og verja hversdagsleikann hverju sinni og skerpa á hugmyndum sínum og hugsjónum.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021