Nýverið var í fjölmiðlum fjallað um rannsókn sem Catherine Hakim, doktor við London School of Economics, framkvæmdi þar sem niðurstöður sýndu meðal annars að meirihluti kvenna vildi giftast ríkum mönnum sem væru betur menntaðir en þær sjálfar. Hakim túlkar niðurstöðurnar á þann veg að konur hafi aðra forgangsröðun í lífinu en karlar og það sé þess vegna sem til dæmis fleiri karlar séu í stjórnunarstöðum en konur. En er þessi útskýring of einföld?
Hakim gerir niðurstöðum sínum skil í bókinni Key issues in woman´s work: female diversity and the polarisation of women´s employment. Í rannsókn Hakim kom fram að konur sæktust eftir því að giftast ríkari mönnum og sem væru betur menntaðri. Líklega gætu aðrar rannsóknir sýnt að karlar vilja giftast konum sem eru minna menntaðri og þéna minna en þeir sjálfir. Það er þó hugsanlegt að meira liggi að baki en skýr vilji kvenna til að eiga karlmenn sem þéna meira. Þetta hefur verið og er hugsanlega enn það samfélag sem fólk elst upp við. Mörg hjónabönd eru þannig að karlinn er eldri, hávaxnari, betur menntaður og þénar meira. Þegar samfélagið sýnir manni að það sé það sem er rétt, verður það það sem við „viljum“ til þess að fara ekki á skjön við samfélagslegar viðteknar venjur.
Vissulega getur það auðvitað verið að sumar konur vilja giftast ríkum og vel menntuðum mönnum og vera heimavinnandi sjálfar. Og hvað með það? Hakim bendir réttilega á að pólitísk réttsýni sé orðin svo mikil í Bretlandi að konur þori varla að segjast vilja vera heimavinnandi húsmæður. Það er líka þannig hér á Íslandi þar sem heimavinnandi mæður eru að verða í miklum minnihluta og venjan er að bæði karlinn og konan vinni úti. Það má samt ekki gleymast í jafnréttisbaráttunni að sumar konur kjósa að vera heimavinnandi og eru mjög sáttar við það val. Fyrir vikið mega þær ekki vera álitnar sem minni jafnréttissinnar.
Hakim fjallar líka um karla og konur í stjórnunarstöðum og hún hefur gagnrýnt David Cameron fyrir að styðja kynjakvóta til að tryggja konum sæti í stjórnum fyrirtækja. Að hennar mati er ástæðan fyrir því að karlar séu í meirihluta í stjórnunarstöðum og í stjórnum fyrirtækja einfaldlega vegna þess að konur sækist ekki eftir löngum frama á vinnumarkaði. Þær hafi jöfn tækifæri til þess á við karla en forgangsröðun þeirra í lífinu sé önnur en karla.
Gott og vel, líklega eru margar konur (og karlar) sem líta ekki á frama á vinnumarkaði sem forgangsatriði í lífinu. Við gætum hins vegar verið að fara á mis við aðra útskýringu með því að afgreiða þetta svo auðveldlega. Getur verið að konur hafi þrátt fyrir allt ekki jöfn tækifæri til að sækjast eftir frama á vinnumarkaði þar sem hjá þeim stendur valið oft á milli þess að sinna heimili og fjölskyldu og ná langt á vinnumarkaði en karlar geta gert bæði þar sem langoftast lenda flestar skyldur heimilisins á herðum konunnar. Þannig að tækifærin eru kannski ekki eins jöfn og við höldum og ástæðan fyrir annarri forgangsröðun kvenna er einmitt nauðsyn, því ef konan sinnir ekki börnum og heimili hver þá?
Það hefur verið talsvert í stjórnmálaumræðunni hérna heima að konur sækist ekki eftir því að verða kjörnir fulltrúar til jafns við karla og það sé ástæðan fyrir því að karlar séu fleiri í stjórnmálum jafnvel þó konur hafi sömu tækifæri til að bjóða sig fram. Aftur þá vaknar spurningin hvort tækifærin séu þau sömu fyrir konur og karla þegar þær standa fyrir frammi fyrir vali milli frama á vinnumarkaði eða í stjórnmálum og skyldum heimilisins þegar karlar standa sjaldnast frammi fyrir slíku vali.
Hakim varar stjórnmálamenn við því að ætlast til þess og búast við því að jöfn tækifæri kynjanna leiði til jafns hlutfalls karla og kvenna á vinnumarkaði og stjórnmálum. Því er höfundur sammála þar sem að markmið þess að allir hafi jöfn tækifæri er ekki að jafnt hlutfall sé alls staðar milli karla og kvenna heldur einmitt það að karlar og konur hafi jöfn tækifæri að haga lífinu eins og þau kjósa.
Er það ekki samfélagið sem við viljum? Þá vaknar hins vegar alltaf spurningin: eru tækifærin jöfn?
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021