Ég rak upp stór augu um daginn þegar ég var einu sinni sem oftar að verja tíma á facebook og tók eftir hlekk sem vinur hafði deilt. Sá hlekkur bar yfirskriftina „Tollkvóti fyrir norskt kartöflunasl” og ég hugsaði með mér hvað þeim Baggalútsmönnum dettur alltaf eitthvað nýtt og fáránlegt í hug. En þegar ég smellti á hlekkinn lenti ég óvænt inni á vef fjármálaráðuneytisins þar sem auglýst var eftir umsóknum um tollkvóta fyrir innflutning á norsku kartöflunasli, svo sem skífum, skrúfum, hringjum, keilum o.þ.h., þó ekki úr kartöflumjöli.
Það hefur löngum tíðkast á Íslandi að takmarka aðgengi Íslendinga að erlendum matvælum. Yfirleitt hefur sú takmörkun miðast að vörum sem eiga sér íslenska hliðstæðu eða samkeppnisvöru og sérstaklega ef íslenska varan er svo dýr í framleiðslu að hún geti illa keppt við þá erlendu á jafnréttisgrundvelli. Þá hefur ekki miklu skipt hvaða flokkar sitja í stjórn eða úr hvaða flokki landbúnaðaráðherrar koma. Hvort sem landbúnaðarráðherrann kemur úr Framsóknarflokknum með sínar landbúnaðarrætur, hinum markaðssinnaða Sjálfstæðisflokki eða hinum öfgavinstrisinnaði flokki Vinstri grænna þá virðist landbúnaðurinn alltaf eiga sér traustan bandamann í ríkisstjórninni gegn neytendum sem langar að kaupa sér erlend matvæli til að gæða sér á. Hins vegar er takmörkunin sem setta var á í fyrra og viðhaldið í ár á norsku kartöflunasli óvenjulega hnitmiðuð. Þar virðist skotmarkið ekki vera tiltekinn vöruflokkur heldur frekar tiltekið vörumerki. Ef þátttakendur í veisluspilinu Partý alías heyrðu skýringuna “Norskt kartöflunasl, svo sem skífur, skrúfur, hringir, keilur o.þ.h., þó ekki úr kartöflumjöli” myndu þeir alveg örugglega öskra upp yfir sig MAARUD í kór.
Það er því ekki fréttnæmt í sjálfu sér að íslenskar landbúnaðarvörur séu verndaðar af stjórnvöldum. Það sem er fréttnæmt er hversu stjórnvöld eru í vaxandi mæli tilbúin til þess að ýta almennum leikreglum til hliðar og semja nýjar reglur sem henta í hvert skipti. Fyrr á árinu tók sjávarútvegsráðherra umdeildar ákvarðanir við úthlutun kvóta, bæði á rækju og skötusel. Í tilfelli rækjunnar var veiðin gefin frjáls en í tilfelli skötuselsins voru veiðiheimildir auknar en aukaaflinn féll ekki í hendur eigenda kvótans heldur var seldur á föstu verði til umsækjenda. Þarna var því framkvæmd ákveðin fyrning að hluta á veiðiheimildum en hún var ekki framkvæmd með mótaðri stefnu og löggjöf heldur með ákvörðunum eins ráðherra.
Loks má nefna kaup Magma á nær öllu hlutafé í HS Orku. Þegar Magma hugðist kaupa HS Orku, sem að stærstum hluta var þá í eigu einkafyrirtækisins Geysis Green Energy, fór í gang handahófskennd atburðarás með umhverfisráðherra í fararbroddi. Nefndir voru skipaðar til að skoða málið sem þæfðist og tafðist án þess að nokkuð breyttist um lokaniðurstöðuna.
Það má vel vera að margir séu hlynntir verndun íslensks landbúnaðar, fyrningu kvóta eða því að náttúruauðlindir verði áfram í þjóðareigu en ef það á að vera stefna verður hún að vera útfærð og almenn. Ef skilaboðin sem atvinnulífið fær eru þau að reglur verði ákveðnar í hverju máli fyrir sig og þegar málin koma upp er það ekki bara ósanngjarnt heldur skaðlegt og dregur úr vilja til að fjárfesta og byggja upp rekstur. Það eru tveir stjórnmálaflokkará Íslandi sem, umfram aðra, hafa skilið þetta og haft það í stefnu sinni að gera leikreglur almennar og standa við þær reglur sem settar eru. Þetta eru Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin. Annar flokkurinn er nú í stjórnarandstöðu en hinn er í ríkisstjórn og verður því að axla ábyrgð á því að almennar leikreglur eru í vaxandi hættu við núverandi stjórnarmynstur, jafnvel þótt það sé aðallega samstarfsflokkurinn sem vegur að leikreglunum og skapar óvissuna.
Annars vona ég nú að Maarud snakkið fái að flæða áfram til Íslands og að Þykkvabæjarnaslið þoli samkeppnina því að Maarud flögur með ost og lök smak og beikonbugður Þykkvabæjarins eru mínar tvær uppáhaldskartöflunasltegundir. Ég mun a.m.k. gera mitt til þess og mun áfram kaupa bæði hið íslenska og norskættaða kartöflunasl.
- Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak? - 5. ágúst 2011
- Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins - 13. apríl 2011
- Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð? - 1. mars 2011