Jól og friður eru í hugum flestra nátengd hugtök og allt að því samheiti. Þannig segir Jesaja þegar hann boðar komu Jesú: “Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla, hann skal nefndur: Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka” (Jes. 9. 5-6). Þetta syngjum við einnig um á jólum m.a. í þýðingu Sveinbjörns Egilssonar á einhverjum útbreiddasta jólasálmi allra tíma:
Heyra má himnum í frá
englasöng: „Allelújá.“
Friður á jörðu, því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér
:,: samastað syninum hjá. :,:
-sálmur 82
Þessi hugmynd var síðan raungerð á allt að því goðsagnakenndan hátt á einhverri blóðugustu stundu evrópskrar sögu. Þegar að mennskan virtist ekkert skjól eiga á vesturvígstöðvum fyrri heimsstyrjaldarinnar lögðu stríðandi aðilar niður vopn á aðfangadag árið 1914. Var um að ræða sjálfsprottið vopnahlé 100.000 breskra og þýskra hermanna. Fóru sumir þeirra yfir á hið svo kallaða einskis manns land á milli skotgrafanna og skiptust á jólakveðjum, sungu sálma og spiluðu fótbolta. Þá var tækifærið notað til greftrunar fallina félaga. Segir einn hinna bresku hermanna jafnvel svo frá að einn félagi sinn hafi tekið til við að snyrta hár þýskra hermanna og nóttin sem venjulega þekkti enga ró vegna stöðugs vélbyssugnýs, varð hljóð. Ósk Benedikts XV páfa þess efnis að byssurnar mættu verða hljóðar nóttina sem englarnir sungu rættist þannig. Ekki þó vegna fyrirskipana hershöfðingja og aðmírála heldur vegna ljósgeisla mennskunar sem megnuðu að skína í gegnum dauðadimma nótt átakanna og veita stundarfrið frá brjálseminni.
Varla er hægt að hugsa sér að fara með betra veganesti inn í jólahátíðina heldur en hin sterku skilaboð hinna ungu manna sem gáfu sig jólaboðskapnum á vald frammi fyrir ógnvænlegum aðstæðum. Vona ég að lesendur finni sama frið í hjarta um jólahátíðina.
Gleðileg jól
- Að vinna að framgangi lífsins - 6. apríl 2012
- Kony 2012 – skilar þetta einhverju? - 21. mars 2012
- Rússnesk varðstaða um einræðisherra - 5. febrúar 2012