Fréttir þessa dagana virðast einkennast af tilkynningum um væntanlegan niðurskurð og hækkun gjalda á flestum sviðum þjóðfélagsins. Nú hefur verið tilkynnt að gjaldskrá leikskólasviðs Reykjavíkurborgar verði hækkuð um 5,35%. Gjaldskrá mötuneyta í grunnskólum hækki um 10% og að gjald fyrir fulla vistun á frístundaheimilum ÍTR verði hækkað um 20%. Þessar hækkanir eru afskaplega sorglegar og með þeim er verið að ganga á hlut barna sem ekki hafa tækifæri til að svara fyrir sig.
Ég hef unnið á leikskóla og er starfið sem þar fer fram að mínu mati mjög mikilvægt þegar kemur að félagslegum þroska barna. Þar læra þau að umgangast önnur börn, leika við þau, vera ósammála, rífast, deila hlutum og margt fleira sem kemur þeim vel síðar á lífsleiðinni. Ég er hrædd um að þessar hækkanir gætu orðið til þess að einhverjir foreldrar þyrftu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir senda börnin á leikskóla.
Í dag vinn ég á frístundaheimili og þar eru boðaðar 20% hækkanir. Dvöl barna á frístundaheimilum er ekki síður mikilvæg en leikskólaganga þeirra. Börnin hafa þar tækifæri til þess að leika við vini sína, kynnast krökkum úr öðrum bekkjum og gera ýmislegt sem ekki stendur til boða í skólanum. Svo ekki sé talað um þá ró sem það veitir foreldrum að vita af börnum sínum í öruggum höndum í stað þess að þurfa að hafa áhyggjur af þeim einum heima.
Börn þurfa ekki mikið húllumhæ til þess að vera ánægð, þau hafa frjótt og gott ímyndunarafl sem gerir þeim kleift að nýta lítið sem ekkert og gera að einhverju stórkostlegu. Pappakassi utan af brauði verður hús eða bíll, gólfmotta verður eyðieyja lengst úti á hafi eða kjörbúð og svo mætti lengi telja. Það sem þau geta ekki búið til er staður þar sem þau eru örugg og eru í samskiptum við jafnaldra sína. Það er okkar hlutverk. Með þessum hækkunum er ég hrædd um að fjöldi barna sem t.d eru skráð á frístundaheimili minnki, einfaldlega vegna þess að foreldrar þeirra geta ekki tekið við fleiri hækkunum og hafa ekki efni á því að leyfa börnunum sínum að vera á frístundarheimili eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur.
Það er óskiljanlegt að hagræðing í rekstri Reykjavíkurborgar þurfi að verða á kostnað barnanna í borginni, sérstaklega þegar ljóst er að hægt hefði verið að hagræða umtalsvert í miðlægri stjórnsýslu og einnig í ljósi þess að lausafjárstaða Reykjvíkurborgar er nokkuð góð.
Ég geri mér grein fyrir því að við lifum á tímum þar sem þarf að skera niður og ég hef engar töfralausnir upp í erminni. Það þarf hins vegar að hugsa til hvort þessar hækkanir verði þess valdandi að foreldrar geti hreinlega ekki lengur sent börn sín á leikskóla eða leyft þeim að taka þátt í frístundastarfi eftir að skólanum lýkur. Það að fjölga börnum með lykil um hálsinn, sem eru á eigin vegum eftir skóla og hafa ekki í önnur hús að venda, er ekki farsæl þróun í nútíma þjóðfélagi sem ekki hefur orðið öruggar með árunum
- Hver fær að fara á frístundaheimili og hver fær lykil um hálsinn? - 6. desember 2010
- Muse á Wembley… ólýsanlegt - 22. september 2010
- Draumur um Hróarskeldu - 30. mars 2010