Einu sinni var margt fólk. Fólkið átti það sameiginlegt að vera sjálfstætt en að öðru leyti, persónulegu, var það ólíkt. Fólkið stofnaði bandalag og ríki en yfir því var konungur. Konungurinn var gáfaður maður og virðulegur, og annað fólk innan ríkisins, lýðurinn, leit upp til hans. Til hans gat fólkið leitað eftir stuðningi og konungurinn gerði sitt allra besta til þess að gera vel við lýðinn sinn. Svo vel, að lýðurinn taldi sig standa í þakkarskuld við konunginn.
Engin drottning sat við hlið konungsins, þess þótti ekki þörf. Enda hló konungurinn hátt og ranghvolfdi augunum, þegar hann var spurður um það hvort ekki væri þörf á drottningu innan þessa annars virðulega ríkis. Við fyrsta hláturstíst sá lýðurinn hversu kjánaleg spurningin var og ranghvolfdi öllum sínum augum í þéttum takti við augu konungs.
Í lok hvers dags fór sjálfstæða fólkið heim, lagðist á koddann sinn og íhugaði þessa fáránlegu spurningu. Af hverju datt þessu annars gáfaða fólki það í hug að drottningar væri þörf í ríkinu? Hún myndi jú ekki gegna neinum tilgangi nema þeim að koma inn óþarfa óróa. Óróa sem einkenndist af tilfinningum, kvenlegu innsæi og bleiutali. Já, þetta var út í hött og nú skyldi sjálfstæða fólkið hugsa áður en það talaði!
Upp rann sá dagur, er konungur áttaði sig á því að hann gæti ekki staðið einn í því að stjórna ríkinu. Kallað var til leynifundar. Í sjálfu sér var öllum boðið- það var ekki það. En leyndifundur var hann kallaður svo lýðurinn gerði sér grein fyrir mikilvægi málsins. Það væri hættulegt almannahagsmunum færi almenningur að kjamsa á málinu hugsunarlaust og fyrir opnum dyrum. -Þessi kjánalegi lýður með allar sínar ranghugmyndir..
Á fundinum gerði konungur grein fyrir alvarleika málsins og hélt stórfenglega tölu um ágæti eins manns innan ríkisins. Þessi maður væri staddur á þessum fundi og biði sig fram sem sinn arftaka. Maðurinn hélt þá tölu og sýndi fram á sérstaka leiðtogahæfileika sína. Lýðurinn sá hversu vel gefinn maðurinn var-svona öruggur þrátt fyrir engan fyrirvara. Enginn efaðist um ágæti mannsins, að minnsta kosti ekki upphátt og var hann því réttkrýndur prins þessa sjálfstæða ríkis.
Eins og almenn kurteisi gerir ráð fyrir leyfði konungur almenningnum að taka þátt í umræðum- sem hann stjórnaði vel og örugglega eins og hans var von og vísa. Þvílíkt lán að nýkrýndur prins hafði mætt á fundinn. Þvílíkt lán að sá ágæti maður hafði haft fyrir því að bjóða sig fram- heppnin sem elti þetta yndislega ríki!
(Nú er undirrituð orðin svo þakklát að hún þarf að taka sér pásu frá skrifum, til þess eins að ná sér niður á jörðina aftur. Þvílík heppni með prinsinn..)
Það sem konungur sagði lýðnum hins vegar ekki var; að á nokkurra vikna tímabili höfðu konungur og nýkrýndur prins talað sig saman um ríkið. Þeir voru sammála um stefnumál og töldu það því réttast að vera ekki að blanda kjánalega lýðnum (með allar sínar hugmyndir) inn í málið. Því fór sem fór, og allir svona líka ánægðir!
Aftur fór lýðurinn heim, lagðist á koddann og velti fyrir sér dásemdar kostum prinsins. Það slæma var, og Guð einn hjálpi þeim sem myndi hafa á því orð, að margir aðrir innan ríkisins voru gæddir sömu kostum og prinsinn- ef ekki fleiri, fýsilegri og mikilvægari kostum. Eins gott að lýðurinn fór strax í það að telja kindur og sofnaði strax og öll hjörðin var komin heilu og höldnu yfir girðinguna og farnar að smjatta á gómsætu grasinu..
- Eitt en ekki annað - 21. maí 2021
- Hvað ertu að gera hérna? - 22. apríl 2021
- Hvernig er fattið? - 11. mars 2021