Þegar ég hringi heim til Íslands og tala við mömmu mína er mér frekar gjarnt á að segja: „Æ, á ég nokkuð að vera að koma heim? Eru ekki bara allir ógeðslega fúlir, alltaf ógeðslega kalt og lífið bara frekar skítt svona almennt?“ Mamma mín svarar þá að bragði: „Nei. Á Íslandi höfum við hreint vatn beint úr krananum, hreint loft og meirihluti þjóðarinnar hefur þak yfir höfuðið og mat á disknum.“
Ókei. Samt var nú mín persónulega staða í lífinu mun betri í Ekvador heldur en á Íslandi fyrir um tveimur vikum síðan, og Ekvador var því miklu betri en Ísland í mínum huga, af hverju? Jú, því hér hef ég vinnu og þak yfir höfuðið. Í því samhengi er „gaman“ að segja frá því að samkvæmt nýlegri úttekt Sameinuðu þjóðanna er Ekvador þriðja ríkið í röðinni í Rómönsku Ameríku þar sem efnahagslegur ójöfnuður er hvað mestur (á eftir Haítí og Bólivíu). Ekvador er einnig í hópi þeirra 15 ríkja í heiminum þar sem ójöfnuðurinn er mestur, en af þessum 15 ríkjum eru 10 þeirra í Rómönsku Ameríku.
Ójöfnuðurinn hér er alls staðar: í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og eftir því hvar þú býrð. Ég tilheyri að sjálfsögðu miklum forréttindahópi: ég er útlendingur, í öruggri og vel borgaðri vinnu (400 dollarar á mánuði eru svimandi há laun hér) og ég bý í tiltölulega öruggu hverfi. Ég ferðast mikið, fer oft í bíó og versla í lúxus-súpermarkaðnum Supermaxi. Það eina sem mig vantar sárlega er að geta farið í heita sturtu og þvegið þvottinn minn í þvottavél en hér kemur bara kalt vatn úr sturtuhausnum og ég þvæ þvottinn í höndunum.
Segjum að ég hafi ekki fæðst á Íslandi heldur í Ekvador. Í sveitinni í Santa Ana til dæmis en þangað fór ég um daginn. Þá myndi ég búa í húsi sem er gert úr bambusgreinum, klósettið mitt væri hola í jörðinni, ég hefði ekkert endilega rafmagn og þaðan af síður rennandi vatn, svo ég þvæi þvottinn minn í ánni sem er gjarnan drullug.
Nú, svo hefði ég líka getað fæðst inn í moldríka fjölskyldu af því að pabbi minn ætti túnfiskskip sem hann gerði út frá stærstu hafnarborg Ekvador, Manta. Þá byggi ég í lokuðu og afmörkuðu einbýlishúsahverfi með Kyrrahafsútsýni þar sem öryggisvörður væri á vakt allan sólarhringinn, foreldrar mínir hefðu alla tíð greitt 200 dollara á mánuði fyrir menntun mína og það væri sundlaug og líkamsræktarstöð heima hjá mér. Ég kynni hvorki að elda og þrífa af því að „la empleada“, vinnukonan, sæi alltaf um það.
Já, Íslendingar eru bara rosalega heppnir eins og mamma mín er alltaf að reyna að segja mér. Það er jú kreppa, fólk hefur minna milli handanna og sumir ná kannski ekki endum saman en á móti kemur að allir hafa aðgang að hreinu, rennandi vatni og góðri, ókeypis menntun. Það er ómetanlegt.
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021