Eiður Smári Guðjohnsen, er án alls vafa einn allra besti íþróttamaður sem Ísland hefur alið af sér. Frá þeim tíma er hann hrellti varnarmenn og markmenn efstu deildar, ekki með aldur til að sjá nýjustu Stallone myndina, hefur það verið landslýð ljóst að hér er um algerlega einstakan leikmann að ræða sem hver kynslóð fær bara að upplifa einu sinni. Þrátt fyrir nær óslitna sigurgöngu þessa mikla íþróttamanns hefur hann ekki endilega fengið þá meðferð sem hann á skilið.
Hlunkurinn líkt og hann er oft kallaður, oftast þó í jákvæðri merkingu eftir að góðvinur hans „Sveppi“ uppnefndi hann svo í frægri auglýsingu, hefur mátt líkt og flestir aðrir upplifa á lífsleiðinni eitthvert mótlæti. Sveiflur í ferli hans og nærgöngul umfjöllun um einkalíf og efnahagsstöðu hefur því miður reynst mun betra fréttaefni ofan í marga heldur en Ísland ögrum skorið og meistaradeildarmedalían. Það bregst heldur ekki að þegar maður stendur í frosthörkunni í Laugardalnum að upplifa enn ein vonbrigðin að þá séu fúkyrðin látin fljúga og þá helst til sjálfrar stjörnunnar, „Gúddí“ sem þykir hvorki hlaupa nógu mikið, senda nógu mikið eða biðja nóg um boltann. Ef hann svo gerir það, einspilar hann úr hófi fram og egóið stígur honum til höfuðs.
Eiður Smári skaust fyrst fram á sjónarsviðið þegar hann eflaust braut einhvern barnaverndarsáttmála með því að spila með meistaraflokksliði Vals, rétt orðinn 15 ára gamall. Hann sló í gegn og skoraði sjö mörk í 17 leikjum og var þar með markahæsti leikmaður liðsins. Hann hlaut verðlaun fyrir að vera efnilegasti leikmaðurinn og var þar með sendur með fyrstu vél til Hollands. Í Hollandi var honum ætlað að para sig við aðra upprennandi stjörnu, Ronaldo nokkurn frá Brasilíu, hjá stórliðinu PSV Eindhoven.
Dvölin í Hollandi var þó styttri en ætlað var. Eftir að vera kallaður af einhverjum ástæðum í U21 árs landsliðið á móti þjösnunum frá Írlandi, lenti hann í háskalegri tæklingu sem braut ökklann og sleit liðbönd. Þarna var „Hlunkurinn“ rétt rúmlega 17 ára og læknarnir sögðu honum að ferill hans gæti jafnvel verið búinn. Slíkt mótlæti gæti nú alveg raskað ró hinna hörðustu víkinga, hvað þá 17 ára drengs. Það tók hann líka tvö erfið ár til þess að koma sér af stað aftur, en þá var hann sendur að láni til miðlungsliðsins KR heima á fróni, í talsverðri yfirvigt.
Sem betur fer var sú för aðeins til lýsisbrennslu þegar upp var staðið og eftir tímabilið hélt Eiður Smári til íslendinganýlendunnar í Bolton, þar sem Arnar Gunnlaugsson og Guðni Bergsson spiluðu við góðan orðstír. Þar með var teningunum kastað og við tók gegndarlaus markaskorun og víðtæk snilld. Hann var næstu tvö tímabil hjá Bolton þar sem hann skoraði 22 mörk ásamt því, sem jafnvel meira skiptir, opnaði markareikninginn hjá íslenska landsliðinu. En þeim átti eftir að rigna inn á komandi árum. Eftir að hafa rótað upp hverjum varnarmúr ensku úrvalsdeildarinnar á fætur öðrum, í orðsins fyllstu, var hann seldur til Lundúnarliðsins Chelsea, áður en það féll Rússum í vil. Hann var seldur fyrir fjórar milljónir punda, sem á núvirði telst vera rúmlega 700.000 milljónir króna og mun meira eflaust, ef krónan flygi frjáls.
Hjá Chelsea hitti hann fyrir ýmsa jafnoka sína líkt og ofurtittinn Ginfranco Zola, sem almennt er talinn vera besta ítalska útflutningsvaran á eftir pepperoni og Umberto Tozzi. Skömmu síðar var vöðvafjallið Jimmy Floyd Hasselbank einnig fenginn til liðsins og saman mynduðu þeir Eiður einn besta sóknardúett í sögu úrvalsdeildarinnar. Eiður smellti boltanum samtals 54 sinnum í netið á þeim 6 árum er hann spilaði fyrir félagið og gaf enn fleiri stoðsendingar. Eru enn sýndar sérstök myndskeið tileinkuð Hlunknum á Chelsea TV og er hann vel metinn hjá þessu næstbesta liði Englands.
Eftir að hafa unnið úrvalsdeildina með Chelsea, ákvað Eiður að færa sig enn um set og var þá Barcelona að sjálfsögðu fyrir valinu. Ronaldinhio, Messi, Iniesta og hvað þeir allir heita voru honum vel samboðnir og í sameiningu unnu þeir spænsku deildina og meistaradeild Evrópu. Kostnaður Barcelona við Eið var 8,5 milljón pund sem telst vera um 1,5 milljarður króna.
Á meðan hann lék sér með bestu félagsliðum heims má heldur ekki gleyma því að þá var hann einnig að nudda andstæðingum sínum upp úr grasinu á Laugardalsvelli og um hvippinn og hvappinn. Eiður Smári er markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi. Enginn hefur skorað fleiri mörk fyrir landslið Íslands en hann og er það vafa undirorpið að einhver muni nokkurn tímann bæta það.
Eftir að hafa fengið nóg af Katalóníu fór Eiður Smári til Mónakó sem varð til þess að Stöð2 keypti sýningaréttinn af þeirri deild til þess eins að fylgjast með honum, en hann fann sig illa og fór því í láni til Tottenham. Eftir langdreginn félagsskiptaglugga fór hann svo nú loks til fyrrum Íslendingaliðsins Stoke, þar sem hann er að berja sig í form og á vafalaust eftir að setja þau allnokkur fyrir Pulis og félaga.
Það er því hollt fyrir þá sem bölsótast út í „Hlunkinn“ á Laugardalsvellinum eða hlakkar í yfir því að hann misstígi sig, að rifja upp að „Hlunkurinn“ er langmarkahæsti landsliðsmaður þjóðarinnar og hann fægir úrvalsdeildarpeninginn sinn með allt öðrum klút en en hann fægir meistaradeildarpeninginn. Hann spilaði með Chelsea og Barcelona á gullárum þeirra og sparkaði fótbolta af alefli í afturendann á Pétri Jóhanni Sigfússyni. Hann er því miður á síðustu metrunum og er ekki sjálfgefið að við fáum að upplifa aftur slíkan yfirburðarmann á vellinum. En á meðan við höfum hann, metum hann.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021