Hvern þann sem dreymir um frægð og frama í kvikmyndaiðnaðinum fer til Hollywood til að komast í hæstu hæðir kvikmyndaiðnaðarins. Í Hollywood má finna gríðarlegan fjölda hæfileikafólks á sviði kvikmynda. Þar má finna aðila sem fjármagna kvikmyndir, framleiða kvikmyndir, leika í kvikmyndum, tæknifólk, sviðsmenn og fjöldamargt fleira. Hollywood er frægasta dæmið um landfræðilegan klasa aðila sem starfa í sama iðnaði. Hollywood er kvikmyndaklasi.
Klasi er þannig hópur fyrirtækja, framleiðanda, birgja, þjónustuaðila, kaupenda, opinberra stofnanna, samtaka og fleiri aðila sem eru staðsettir nálægt hvor öðrum landfræðilega, og starfa á svipuðu sviði.
Samkvæmt rannsóknum þá er sótt um fleiri einkaleyfi í klösum, fleiri sprotafyrirtæki stofnuð og fleiri störf skapast.
Mánudaginn 1. nóvember hélt Michael Porter prófessor við Harvard Háskóla fyrirlestur í Háskólabíói um möguleika Íslendinga á því að verða Hollywood jarðhitaiðnaðarins. Var prófessorinn í stuttu máli hóflega bjartsýnn en talaði fyrir lausnum og því að landsmenn þjöppuðu sér saman og sæktu fram.
Í mjög einfaldaðri mynd má segja að hagkerfið skiptist í eftirfarandi þætti:
Efnahagslegt umhverfi – Klasar – Fyrirtæki.
Þetta segir okkur að stjórnvöld geta ekki sleppt því að hugsa um að skapa sterkt efnahagslegt umhverfi (vextir, gjaldeyrishöft) og gott umhverfi fyrirtækja (skattar, regluumhverfi) þó þau styðji klasamyndun. Öll atriði þurfa að vera til staðar.
Porter tók sérstaklega fram í fyrirlestri sínum að ríkið ætti ekki að vera lykilaðili í klasauppbyggingu heldur stuðningsaðili. Fyrirtækin innan klasans ættu að vera í fararbroddi. Hlutverk hins opinbera væri að vera stuðningsaðili og styðja gagnaöflun til þess að aðgerðir verði sem marktækastar.
Stærstu og frægustu klasarnir í heiminum í dag hafa allir orðið til af slysni frekar en að þeir hafi verið skipulagðir og unnið eftir ákveðinni áætlun. Það er því óráðlegt að ætla að hægt sé að búa til klasa einungis með viljann einan að vopni. Klasi þarf að vera mótaður út frá ákveðnum grunni sem er þegar til staðar, eins og er með jarðhita og sjávarútveg á Íslandi. Reyndar sagði Porter að hið opinbera ætti að styrkja alla klasa sem hefðu þegar náð ákveðinni lágmarksstærð og væru því vænlegir til vaxtar í framtíðinni. Einnig taldi hann það auka líkur á árangri ef klasar væru “nágrannar” í þeim skilningi að þeir deildu ákveðinni þekkingu eins og Bláa lónið sem er fyrirtæki byggt á grænni orku en er einnig leiðandi í ferðaþjónustu.
Á Íslandi má finna nokkur dæmi um grundvöll slíkra klasa sem gæti verið áhugavert að byggja upp í framtíðinni. Þetta eru (meðal annarra):
Jarðhitaklasi eins og fjallað var um á ráðstefnu Porters
Sjávarútvegsklasi – þar sem fyrirtæki innan sjávarútvegs og rannsókna þeim tengdum myndu leitast við að fá frekari tekjustrauma á þekkingu Íslendinga í sjávarútvegi en einungis með beinni sölu. Styrkleiki klasans er sá fjöldi sterkra fyrirtækja sem er í honum en sérstaklega þarf að byggja upp menntunarþáttinn til þess að þessi klasi geti orðið vænlegur.
Upplýsingatækniklasi – Vöxtur upplýsingatæknifyrirtækja á Íslandi hefur verið gríðarlegur á undanförnum árum. Þessi klasi glímir við mikinn skort á tæknimenntuðu fólki á næstu árum.
Klasi skapandi greina – Þar sem færu saman hönnun, tónlist og fleiri greinar sem byggja á hagnýtingu hugverka. Þessi klasi þyrfti helst að hafa fleiri stór fyrirtæki en hann er tiltölulega ungur enn.
Ferðaþjónustuklasi – Samtök aðila í ferðaþjónustu er vísir að slíkum klasa.
Heilsuklasi – Klasinn getur náð yfir fjölbreytta aðila á við Decode, Össur og ORF ásamt fjölda smærri sprotafyrirtækja. Mjög stór hluti af fjármagni til rannsókna á Íslandi fer til heilsutengdra rannsókna.
Þessi listi er aðeins settur fram til gamans en hann felur í sér trú á framtíðina byggða á þekkingaruppbyggingu þar sem stjórnvöld og atvinnulíf taka höndum saman og byggja upp til framtíðar í stað þess að berast á banaspjótum.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021