Í síðustu viku var fyrrum utanríkisráðherra Íraks, Tariq Aziz, dæmdur til dauða fyrir þátt sinn í hinni viðbjóðslegu harðstjórn Saddam Hussain í Írak. Allflestir, burtséð frá afstöðu til innrásarinnar 2003, hljóta að samgleðjast hinum ólánsömu íbúum Írak, sem þurftu að lifa og þjást undir ógnarstjórninni, sem fá loks lítið réttlæti fyrir þjáningar sínar. Þótt dauðarefsing sé ekki eftirsóknarverð leið til réttlætis.
Með dómi yfir Tariq Aziz, er brátt farið að styttast í endastöð réttarhalda yfir samstarfsmönnum Saddam Hussain. Einn samstarfsmaður Saddams Hussain, hefur þó sloppið sérstaklega vel undan refsivendinum, en það er hinn víðfrægi upplýsingafulltrúi Íraks í aðdraganda innrásarinnar, Mohammed Said al-Sahhaf, einnig þekktur sem Bagdad Bob.
Eftir að Bagdad féll 2003, fengu bandarísk hermálayfirvöld upplýsingar um felustað sadistans Uday Hussain og bróður hans Qusay Hussain, en þeir voru synir Saddam Hussain. Uday Hussain var elsti sonur Saddam Hussain og var mjög valdamikill í stjórnartíð föður síns. Grimmd hans og glæpir eru víðfrægir, sem dæmi var hann þekktur fyrir að láta ræna konum á götum úti er honum þótti föngulegar og nauðgaði þeim og drap. Einnig var íþróttaáhugi hans mörgum til trafala, en hann píndi og niðurlægði íraska íþróttamenn sem stóðu sig ekki nógu vel að hans mati á erlendri grundu. Eftir að hafa fengið upplýsingar um felustað Uday, fóru bandarískar hersveitir á eftir honum og féll Uday loks eftir mikla skotbardaga. Fundust þá hjá honum hirslur munaðar, lúxusbílar og einkadýragarður sem dæmi. Qusay Hussain bróðir hans og sonur hans, létust einnig í skotbardaganum.
Faðir þeirra, Saddam Hussain, var fundinn sekur um glæp gegn mannkyninu vegna morða hans á um 140 shítum árið 1982, en mun fleiri dæmi var að taka í þeim efnum. Eftir að sérstakur dómstóll dæmdi hann til dauða, var hann hengdur í lok árs 2006 líkt og flestir muna eftir, en skömmu eftir aftökuna láku út mjög ósmekkleg myndskeið er sýndu Saddam Hussain hengdan.
Ali Hassan, eða efnavopna-Alí líkt og hann var betur þekktur, var dæmdur til dauða fyrir glæpi gegn mannkyninu, stríðsglæpi og fjöldamorð. Efnavopna-Alí hafði verið gerður að hershöfðingja í kúrdíska hluta Íraks, en þar var aðsetur margra stjórnarandstæðinga. Eftir um eitt ár í starfi hafði hann drepið um 180.000 kúrda og eyðilagt um 4.000 þorp. Beitti hann ýmsum meðölum til þess og líkt og nafn hans gefur til kynna, beitti hann efnavopnum ósparlega á íbúa svæðisins. Efnavopna-Alí var tekinn af lífi í byrjun þessa árs.
Tariq Aziz, fyrrverandi utanríkisráðherra Írak og varaforsætisráðherra var að lokum dæmdur til dauða í seinustu viku fyrir ofsóknir gegn múslímsku hópum. Áður hafði hann verið dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir þátttöku í aftökum á 42 verslunarmönnum árið 1992. Aziz var vel þekktur enda var hann yfirleitt andlit stjórnar Saddam Hussain út á við.
Þekktustu andlit ógnarstjórnar Saddam Hussain eru því að hverfa eitt af öðru, utan eins. Ef einhver Íraki náði heimsathygli á við Saddam sjálfan undir lokin, þá er það Mohammed Said al-Sahhaf, betur þekktur sem Bagdad Bob. Bagdad Bob var upplýsingafulltrúi Saddam Hussain þegar innrásin átti sér stað og hafði verið utanríkisráðherra Íraks áður en hann varð upplýsingafulltrúi stjórnarinnar.
Það sem skaut upplýsingafulltrúanum skrautlega upp á stjörnuhimininn voru ævintýralegar yfirlýsingar um þróun mála í innrásinni. Helsta stjörnustundin hans var þegar hann lýsti því yfir að bandarískar hersveitir væru að framkvæma fjöldasjálfsmorð fyrir utan Bagdad og engir Bandaríkjamenn væru í borginni. Á meðan hann lýsti þessu, sáust bandarískir skriðdrekar bak við Bagdad Bob, akandi um veginn. Á annarri stund sagði hann stoltur frá því að Írakar hafi eyðilagt tvo skriðdreka, tvær þyrlur, flugvélar og skóflur Bandaríkjamanna og því væru árásir Bandaríkjamanna á undanhaldi. Fleiri yfirlýsingar í þessum dúr fengu að koma fram. Til dæmis bauðst hann til þess að fara með hóp blaðamanna á alþjóðaflugvöllinn í Bagdad eftir að Bandaríkjamenn höfðu náð honum á sitt vald og að Bandaríkjamenn væru viljandi að fljúga orrustuþotum sínum lágt yfir merk hús, til að þau brotni upp.
Síðasta yfirlýsing Bagdad Bob, var að hann teldi að Bandaríkjamenn myndu gefast upp eða láta ella lífið í skriðdrekum sínum. Eftir það flúði hann og eftir stutt varðhald hjá hersveitum Bandaríkjanna var hann látinn laus og býr núna í Sameinuðu arabísku furstadæminum með fjölskyldu sinni. Hann hefur efnast ágætlega á frægð sinni, en sem dæmi fékk hann um 200.000 dollara fyrir sjónvarpsviðtal og hefur varningur með yfirlýsingum og andliti hans selst um allan heim.
Hvorki Bandaríkin né írösk yfirvöld hafa krafist þess að Bagdad Bob, sæti frekari ábyrgð gerða sinna. Í bili að minnsta kosti. Því gæti það væntanlega orðið niðurstaðan að með dómi Tariq Aziz sé réttarhöldum yfir ráðamönnum Íraks að ljúka og Bagdad Bob getur um frjálst höfuð strokið. Hann á þó varla mikinn möguleika, á að þróa feril sinn áfram sem upplýsingafulltrúi.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021