Láglaunaherinn

Samkvæmt úttekt OECD er íslenska menntakerfið eitt það dýrasta í heimi þegar kostnaður á nemanda er borinn saman. Við erum þannig með nánast tvöfalt dýrara kerfi en Finnar, sem þykja hafa mjög gott menntakerfi. Þrátt fyrir þetta eru laun kennara í meðallagi og árangur íslenskra nemenda í meðallagi. Ófremdarástand er ef til vill ekki rétta orðið, við erum hins vegar ekki að fá það sem við erum að borga fyrir.

Samkvæmt úttekt OECD er íslenska menntakerfið eitt það dýrasta í heimi þegar kostnaður á nemanda er borinn saman. Við erum þannig með nánast tvöfalt dýrara kerfi en Finnar, sem þykja hafa mjög gott menntakerfi. Þrátt fyrir þetta eru laun kennara í meðallagi og árangur íslenskra nemenda í meðallagi. Ófremdarástand er ef til vill ekki rétta orðið, við erum hins vegar ekki að fá það sem við erum að borga fyrir.

Sökudólgarnir eru tveir, Kennarasamband Íslands, sem berst með kjafti og klóm gegn hverri þeirri hugmynd sem dregið gæti afburðafólk inn í stéttina og stjórnvöld sem þora ekki í slag gegn þeirri vitleysu. Þannig mega forystumenn kennararasamtaka ekki heyra á það minnst að einn kennari fái hærri laun en annar vegna þess að hann er eftirsóknarverðari starfskraftur en einhver annar. Já auðvitað væri það fáranlegt.

Þar sem ofurjafnaðarmennirnir í kennaraforystunni hafa barist gegn öllu sem auðveldað gæti skólastjórnendum að leysa úr vandamálum með því að færa peninga þangað sem þeirra er þörf þá hafa menn þurft að leysa úr þeim með einhverju bulli. Ein slík leið er að greina nemendur með hinn og þennan kvillann, og þá er hægt að fá fjármagn til að ráða einn láglaunamanninn til að létta undir með hinum. Ekki það að þetta sé allt uppspuni en sums staðar er það orðið svo að upp undir helmingur drengja er flokkaður með “sérþarfir”. Sorrý, helmingur barna getur ekki verið óvenjuerfiður.

Maður getur ekki annað en grátið yfir því hve mikið er eytt í það að gera líf eins láglaunafólks ögn bærilegra með því að ráða inn menn á rétt svo atvinnuleysisbótum til að vísa börnum til sætis í matartímanum og fylgjast með þeim róla, svo kennarinn gæti hvílt sig. Hvernig væri að borga einum manni tvöfalt fremur en tveimur skítt? Hvernig væri að eyða brotabroti af þessu skólaliða- og sérþarfafé til að búa til dæmis til sjóð þar sem toppkennarar úr hverjum útskriftarárgangi fá 200 þúsund króna álag á laun sín til að kenna í skólum sem eiga erfitt með að manna sig? Peningar eru ekki einu sinni aðalatriðið hér. Heiðurinn einn mundi duga langleiðina. “Er að kenna á Hólmafirði núna. Gangstas Paradise sjóðurinn er að smyrja ofan á launin hjá mér.”

Mig dreymir um fleiri töffara í kennarastéttina. Menn og konur sem koma inn óerðarbekki í Fellunum og gera börnin að origami-snillingum. Íþróttakennara sem koma klíkufautum inn í NBA. Fá svo kannski heil gjaldkeralaun fyrir og uppskera öfund og virðingu samkennara sinna.

En nei, við skulum einungis sníða kennarastarfið að áhættufælnum öryggisfíklum sem velja starfsöryggi á kostnað launa. Við skulum ekki leyfa neina launabreidd því það gæti farið illa í einhvern undirmálskennarann. Við skulum áfram eyða of miklu fé í að borga of mörgum of lítið. Og uppskera í meðallagi.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.