Þann 30. október næstkomandi stendur grínistinn Jon Stewart fyrir útifundi í höfuðborg Bandaríkjanna undir yfirskriftinni „Rally to Restore Sanity“. Fundurinn er ætlaður venjulegu fólki sem er búið að fá nóg af öfgafullri og ómálefnalegri pólitískri umræðu, fólki sem kennir sig ekki við neinn stjórnmálaflokk heldur lætur skynsemi ráða skoðunum sínum, fólki sem finnst ekki í lagi að persónulegar árásir séu gerðar á aðra fyrir það eitt að vera ósammála þeim. Þetta er aðallega fólk sem er ekki áberandi í pólitískri umræðu, ekki vegna þess að því er sama heldur vegna þess að það hefur annað að gera. Það þarf að vinna, sinna fjölskyldu, það á sér áhugamál sem það vill sinna. Eins og Stewart segir sjálfur, þá er ekki rétt að kalla þetta fólk „þögla meirihlutann“ heldur frekar „upptekna meirihlutann“.
Ein af ástæðunum fyrir því að fundurinn er haldinn er að meirihluti venjulegs fólks lítur á stjórnsýsluna sem apparat til að leysa vandamál og auðvelda venjulegum borgurum lífið. Stjórnmálamenn virðast hins vegar oft gefa öðru forgang svo sem að þjóna sérhagsmunum, fylgja flokkslínunni og skora ódýr pólitísk stig á kostnað „andstæðinganna“ til að auka eigin völd.
Þótt Stewart sé grínisti er tilgangur fundarins ekkert grín. Fundurinn er þörf ábending þess efnis að stjórnmálaumræðan í Bandaríkjunum sé á villigötum og að það sé ekki í lagi.
Það kemur Íslendingum væntanlega ekki á óvart að það sé þörf á slíkum fundi í Bandaríkjunum, landi vitleysinganna. Bandaríkjamenn eru svo klikkaðir, er það ekki? Við þurfum ekkert svona á Íslandi er það? Við hljótum að vera best í heimi í stjórnmálaumræðu eins og öllu öðru, er það ekki?
Ef til vill þurfa Íslendingar að líta sér nær í þessu eins og ýmsu öðru.
Meðal áletranna á skiltum sem mælt er með að fundargestir bera er „Ég er ósammála þér en ég er nokkuð viss um að þú sért ekki Hitler“. Væri orðinu „Hitler“ skipt út fyrir „landráðamaður“ ætti þetta skilti t.d. ágætlega við um Evrópuumræðuna á Íslandi.
Í einni af fjölmörgum niðurlægingum Alþingis undanfarin misseri skiptust atkvæði um hvort draga ætti fyrrverandi ráðherra fyrir Landsdóm einmitt eftir flokkslínum.
Er það ekki einmitt svona hlutum sem fundur Stewart‘s er að mótmæla?
Mótmæli Íslendinga hafa hingað til snúist um að fremja skemmdarverk og eyðileggja vinnufrið með hávaða. Það kemur ekki á óvart að þetta hefur skilað engu. Ef til vill er kominn tími til að við förum að dæmi klikkuðu Kananna. Kannski þarf hinn upptekni meirihluti Íslendinga, fólki sem finnst kjánalegt, pirrandi og vont fyrir hálsinn að öskra, að taka sig saman og láta vita að stjórnmálaumræðan á Íslandi er á villigötum. Og það er bara ekki í lagi.
- Munum fórnarlömbin.Gleymum skrímslinu. - 4. ágúst 2011
- Ég segi JÁ - 1. apríl 2011
- Má ég fá laun? - 10. mars 2011