Einu sinnu, fyrir langa löngu, var öflugt stjórnmálaafl á Íslandi sem kallaðist Framsóknarflokkurinn. Sá flokkur sótti fylgi sitt helst til sveita þar sem hann stóð vörð um hagsmuni bænda og annars fólks sem gerði sér gott líf á landsbyggðinni. Flokkurinn var nokkuð valdamikill, bæði í sveitastjórnar- og landsmálum sem kristallaðist í því að á árunum 1923 – 1979 var flokkurinn ávallt með fylgi á bilinu 22% – 30% á landsvísu. Eftir þann tíma dalaði fylgi flokksins nokkuð mikið og fór svo að lokum að Framsókn fékk aðeins 11,7% kjörfylgi úr góðæriskosningunum árið 2007.
Árið 2009 ákvað Framsóknarflokkurinn því að reyna snúa vörn í sókn og ganga í gegnum „endurnýjun“. Það átti að fara burt með það gamla og inn með það nýja. Allt tal um hina umdeildu Framsóknarmenn í anda Halldórs Ásgrímssonar, Alfreðs Þorsteinssonar og jakkafatakóngsins Björns Inga Hrafnssonar skyldi þaggað niður og nýtt og ferskt fólk skyldi koma inn á sjónarsviðið. Tveir ungir menn öttu kappi um sæti formanns – þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og þingmaðurinn Höskuldur Þórhallsson. Reyndar var það svo að sá fyrrnefndi var ekki einu sinni skráður í Framsóknarflokkinn fyrr en rétt fyrir landsfundinn, svo mikil átti endurnýjunin að vera. Í einni eftirminnilegustu atkvæðagreiðslu síðari tíma þar sem kjörstjórn tókst, fyrir misskilning og dæmalaus mistök, að tilnefna rangan mann sem sigurvegara kosninganna, var að lokum ljóst að Sigmundur Davíð var nýr formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundar Davíðs beið ærið verk fyrir höndum. Það var á hans herðum að telja þjóðinni trú um það að hinn nýji Framsóknarflokkur væri traustsins verður og atkvæðanna virði. Í fyrstu virtist sem þessi tilraun flokksins ætlaðist að takast ágætlega þar sem Framsóknarflokkurinn fór að mælast nokkuð vel fyrir í könnunum nokkrum mánuðum fyrir kosningarnar 2009. Fólki þótti þessi óhefðbundna tilkoma Sigmundar inn í stjórnmálin nokkuð skemmtileg, að auki þótti hann koma nokkuð vel fyrir í viðtölum og ekki var það verra að hann var býsna vel lesinn hagfræðingur.
En því miður fyrir Framsóknarflokkinn og Sigmund Davíð að þá féll hann á fyrsta prófinu. Í kjölfar þess að ríkistjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lauk ákvað Sigmundur Davíð að verja minnihlutastjórn Vinstri- grænna og Samfylkingar falli og gaf með því Steingrími og Jóhönnu færi á því að koma sér fyrir í stjórnarráðinu – með tilheyrandi afleiðingum fyrir íslenska þjóð.
Þegar talið var upp úr kjörkössunum þann 25. apríl 2009 var niðurstaðan sú að Framsókn fékk 14,8% fylgi, sem eru næst verstu kosningaúrslit flokksins í Alþingiskosningum frá upphafi. Verður þetta að teljast gríðarleg vonbrigði fyrir flokkinn og ekki mátti miklu muna að hinn nýkjörni formaður næði ekki inn á þing!
Á kjörtímabilinu hefur Framsóknarflokkurinn haldið áfram að klikka í mikilvægum málum. Nokkrir þingmenn flokksins gáfu eftir í Evrópumálinu sem varð til þess að ákveðið var að ganga til aðildarviðræðna við ESB. Ef þeir hefðu sleppt því að gera það hefði sennilega núverandi ríkisstjórn fallið þar sem Samfylkingin hefði ekki getað hugsað sér áframhaldandi samstarf með VG án aðildarviðræðna við ESB. Stærstu mistökin eru þó án efa framganga nokkurra framsóknarþingmanna í Atlanefndinni svokölluðu. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsókarflokksins, fór fremst í flokki í því að ákæra fólk án þess þó að geta bent á það sem þau gerðu vitlaust. Það hefði nú líka verið gaman að horfa framan í þessa sömu þingmenn Framsóknarflokksins ef kosið hefði verið um að ákæra menn á borð við Halldór Ásgrímsson eða Jón Sigurðsson, hvað hefði þá Eygló sagt?
Það er því augljóst að þessi „endurnýjun“ hjá þessum einum elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins hefur gjörsamlega mistekist. Þeir elta ríkisstjórnaflokkana sitt á hvað í vitlausum og tímafrekum málum sem koma hinum raunverulegu erfiðleikum ekkert við. Það besta við þetta allt saman er að almenningur sér í gegnum þessa sýndarmennsku Framsóknarflokksins þar sem flokkurinn mælist einungis með 12% fylgi í könnunum Gallup. Ef þessi fornfrægi flokkur heldur áfram á þessari braut tækifærisstjórnmála er ekki um langt að líða þar til hann þurrkast burt af hinu pólitíska korti.
- Landsdómur í laumi - 18. mars 2012
- Tíu hlutir sem þú vissir ekki um Kim Jong-il - 5. janúar 2012
- Hvers vegna á ekki að lögleiða notkun fíkniefna? - 13. desember 2011