Valdaránstilraunin

„Teacher! Vayase a su casa! Hay un golpe de estado!“ Þetta voru skilaboðin sem ég fékk þann 30. september sl. frá einum nemenda minna. Ég var að koma aftur til vinnu eftir daglegt morgunhlé frá kennslu en skólann var þá verið að rýma vegna verkfalls ekvadorísku lögreglunnar. „Golpe de estado“ þýðir valdarán en skiptar skoðanir eru um hvort um raunverulega tilraun til valdaráns hafi verið að ræða. Forseti landsins, Rafael Correa, er þó sannfærður um að svo hafi verið en hvers vegna í ósköpunum fór lögreglan í verkfall, hverjar voru afleiðingarnar og af hverju misheppnaðist valdaránið í Ekvador?

„Teacher! Vayase a su casa! Hay un golpe de estado!“ Þetta voru skilaboðin sem ég fékk þann 30. september sl. frá einum nemenda minna. Ég var að koma aftur til vinnu eftir daglegt morgunhlé frá kennslu en skólann var þá verið að rýma vegna verkfalls ekvadorísku lögreglunnar. „Golpe de estado“ þýðir valdarán en skiptar skoðanir eru um hvort um raunverulega tilraun til valdaráns hafi verið að ræða. Forseti landsins, Rafael Correa, er þó sannfærður um að svo hafi verið en hvers vegna í ósköpunum fór lögreglan í verkfall, hverjar voru afleiðingarnar og af hverju misheppnaðist valdaránið í Ekvador?

Mánaðarlaun lögreglumanna í Ekvador voru fyrir nokkrum árum um 300 dollarar. Við hverja stöðuhækkun sem lögreglumanni bauðst var honum greiddur bónus upp á 800 dollara og í kjölfarið fylgdi smávægileg launahækkun. Þegar Correa komst til valda ákvað hann að hækka mánaðarlaun lögreglunnar um 400 dollara og nú nýlega lagði hann fram frumvarp þess efnis að 800 dollara bónusinn skyldi lagður af. Viðbrögðin við þessu frumvarpi voru allsherjarverkfall lögreglunnar sem hófst að morgni 30. september og skapaðist við það mikið ófremdarástand í öllu landinu.

Fólk fór um rænandi og ruplandi. Sýndar voru myndir frá Tarqui, alræmdu hverfi í Manta, borginni þar sem ég bý, en þar hafði almenningur sópað að sér hverju sem var, án þess að borga sent fyrir; sýnt var frá einu apóteki þar sem bókstaflega allt hafði verið rifið út, meira að segja innréttingarnar! Ég og meðleigjendur mínir læstum okkur inni heima hjá okkur og fylgdumst með Correa ávarpa lögreglumenn sem komið höfðu saman til mótmæla í höfuðborginni, Quito.

Það verður ekki tekið af Rafael Correa að hann er afar skrautlegur karakter. Það sást best þegar hann reif af sér bindið og efstu tölur skyrtunnar sinnar og manaði lögreglumennina til að drepa sig en „strippið“ var til að sýna að innan undir skyrtunni var hann berskjaldaður; ekkert skothelt vesti. Hann fór síðan út á meðal mótmælandanna til að spjalla við þá en þá réðust þeir á hann með táragasi og flúði forsetinn í kjölfarið á lögregluspítalann til aðhlynningar. Spítalann umkringdu svo mótmælendurnir og hélt forsetinn því fram að honum væri haldið í gíslingu. Á spítalanum var hann í um tíu tíma en var bjargað af hernum sem hóf skotbardaga við lögreglumennina fyrir utan spítalann. Frá þeim bardaga var sýnt beint í ríkissjónvarpinu.

Einn lögreglumaður lést í skotbardaganum og tveir hermenn. Yfir hundrað manns særðust, bæði í bardaganum og mótmælunum. Tjón verslunareigenda, veitingastaða og fjármálakerfisins er gríðarlegt. Lýst var yfir þriggja daga þjóðarsorg og fimm daga neyðarástandi en allir skólar voru til dæmis lokaðir daginn eftir. Það var annars það eina sem minnti á að eitthvað hefði gengið á daginn áður; á föstudeginum gekk lífið sitt vanagang eins og ekkert hefði í skorist, okkur útlendingunum til mikillar furðu.

Ef um valdaránstilraun var að ræða var hún mjög misheppnuð. Correa sakaði Lucio Gutiérrez, fyrrverandi forseta landsins, og aðra andstæðinga sína um að hvetja lögregluna, og þann hluta hersins sem studdi lögregluna, til uppþots. Að mati pistlahöfundar misheppnaðist tilraunin vegna þeirrar gríðarlegu almannahylli sem forsetinn nýtur en einnig vegna þess hversu langþreytt þjóðin er á póltískum óstöðugleika; áður en Correa komst til valda hafði Ekvador haft 8 forseta á 10 ára tímabili.

Correa er ákaflega vinsæll (og nýtur einnig gríaðrlegrar kvenhylli af einhverjum ástæðum) og þrátt fyrir að almenningur hafi verið hvattur til að halda sig heima við á meðan á óeirðunum stóð þusti hann út á götur til að lýsa yfir stuðningi við Correa. Einn af vinum mínum hitti naglann á höfuðið: „Héldu þessi fífl í alvörunni að þetta myndi ganga upp? Vita þeir ekki að við höfum fengið nóg af valdaránum og spilltum stjórnmálamönnum?“

Þess ber að lokum að geta að ríkisstjórnin komst að samkomulagi um bónusgreiðslur og stöðuhækkanir við lögreglumenn eftir óeirðirnar, nokkrir yfirmenn lögreglunnar voru reknir eða sögðu af sér og hafin er rannsókn á þátttöku stjórnmálamanna í uppreisninni.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.