Ein helsta skrautfjöður R-listans eftir átta ár við stjórnvölinn í Reykjavík er hin rómaða ylströnd í Nauthólsvík sem tekin var í notkun sumarið 2000. Ylströndin var reyndar tilkomin löngu áður en R-listinn komst til valda, því um miðja síðustu öld tóku borgarbúar sig saman um að skapa baðströnd að suðrænni fyrirmynd í nyrstu höfuðborg heims. Frumleg hugmynd og ágæt í marga staði. Afrek R-listans var hins vegar falið í því að beina út í víkina affallsvatni úr hitaveitukerfi Reykvíkinga. Ágæt hugmynd líka.
En auðvitað þurfti skrautfjöðurin einhvern umbúnað. Ákveðið var að ráðast í byggingu veglegrar þjónustumiðstöðvar við víkina og að því tilefni var efnt til hönnunarsamkeppni sumarið 1999. Sigur úr býtum bar hugmynd frá Arkibúllan ehf. en kostnaðurinn var greiddur af skattpeningum úr borgarsjóði í gegnum Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur. Samkvæmt upplýsingariti borgarverkfræðings nam kostnaður við húsið á verðlagi frá því í júní 2001 um það bil 173 milljónum króna. Húsið er 525 fermetrar að heildarflatarmáli og því er fermetraverðið um 330 þúsund krónur. Til samanburðar má geta þess að meðalfermetraverð á fasteignamarkaðnum í dag er í kringum 100 þúsund kr. Þjónustumiðstöðin er því í dýrari kantinum kannski, en almenningur er svo sem orðinn vanur því að hús kosti sitt.
En þjónumiðstöðin í Nauthólsvík er ekki hús í venjulegum skilningi orðsins. Miðstöðin er beinlínis hönnuð með það að markmiði að hana sé einungis hægt að nota að sumri til, enda er opnunartími hennar bundinn við tímabilið frá 1. júní til 31. ágúst ár hvert, eða slétta þrjá mánuði. Reyndar er alveg ómögulegt að nota miðstöðina yfir vetrartímann, því þannig var búið um hnútana við hönnun hennar að þar er ekkert rafmagn. Þar er raunar ekki neitt til neins, ekkert – nema auðvitað flott hönnun.
Þessi 173 milljóna króna fjárfesting stendur því eins og draugahús níu mánuði á ári, engum til gagns, almyrkvuð og mannlaus með öllu. Fjárfestinguna er ekki hægt að nota undir neins konar félags- eða íþróttastarf á vegum ÍTR eða annarra aðila yfir vetrarmánuðina, því þar sér ekki handa skil. Í raun er þjónustumiðstöðin flotta í Nauthólsvíkinni lítið annað en sturtuklefi og klósettaðstaða fyrir þá sem kjósa að velta sér um affallsvatninu þá örfáu daga á ári sem það er mönnum bjóðandi.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008