Horfum til framtíðar í niðurskurðarferlinu

Nýlega birti OECD skýrsluna „Education at Glance” þar sem er að finna tölfræðilega úttekt á menntakerfum OECD landanna. Skýrslan sem kom út í ár, 2010, er byggð á tölum frá skólaárinu 2007-2008. Í skýrslunni kom í ljós að Ísland eyddi hæstu hlutfalli af vergri landsframleiðslu af OECD ríkjunum í menntamál, eða 7,8%. Þegar tölurnar eru skoðaðar nánar kemur þó í ljós að þetta háa hlutfall skilar sér ekki á efri skólastig.

Nýlega birti OECD skýrsluna „Education at Glance” þar sem er að finna tölfræðilega úttekt á menntakerfum OECD landanna. Skýrslan sem kom út í ár, 2010, er byggð á tölum frá skólaárinu 2007-2008.

Í skýrslunni kom í ljós að Ísland eyddi hæstu hlutfalli af vergri landsframleiðslu af OECD ríkjunum í menntamál, eða 7,8%. Þegar tölurnar eru skoðaðar nánar kemur þó í ljós að þetta háa hlutfall skilar sér ekki á efri skólastig. Í Bandaríkjadölum var Ísland í 4. sæti OECD landanna 31 þegar kom að framlagi til barnaskóla, 10. sæti til unglingastigs, 18. sæti til framhaldsskólastigsins og í því 20. til háskólastigsins.

Sem fyrr segir eru þessar tölur frá árinu 2007 og síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Eitt stykki bankahrun og niðurskurðarhnífurinn fór á loft. Gengið hefur verið ansi nærri háskólum landsins og þar sem undirrituð þekkir best til, í Háskóla Íslands, hefur verið skorið við nögl á öllum tiltækum stöðum.

Ekki er annað hægt en að hafa áhyggjur af framtíð háskólamenntunar á Íslandi þegar þessar tölur eru skoðaðar. Ef Ísland var í 20. sæti árið 2007, hvernig verður staðan árið 2012? Til þess að reka öflugan háskóla sem sinnir rannsóknum og kennslu af alúð þarf fjárframlög og þegar skorið er niður um mörg prósentustig á stöðum sem fyrir voru fjársveltir getur útkoman ekki orðið góð.

Lengi hefur verið bent á hagkvæmni menntunar fyrir samfélagið allt, en opinber fjárframlög til menntunar skilar sér margfalt til baka, bæði í formi aukinna skatttekna og, það sem mikilvægara er, í formi þekkingarsamfélags, sem er heilbrigðara, samfélagslega virkara og meira að segja hamingjusamara. Menntun er jafn hagkvæm einstaklingnum sem samfélaginu í heild, á því er enginn vafi.

Efnahagsástandið er því miður þannig að ekki verður komist hjá niðurskurðinum. Þegar svo á stendur verður að velja og hafna, það verður að forgangsraða. Það þarf að hugsa lengra en í dag og á morgun, það þarf að líta til framtíðar og hugsa um afleiðingar niðurskurðarins eftir einhver ár. Hverjar eru afleiðingar niðurskurðar í háskólamenntun til framtíðar?

Heimildir:

Hagstofa Íslands: http://www.hagstofa.is/Pages/95?NewsID=4635

Education at Glance: http://www.oecd.org/dataoecd/45/39/45926093.pdf