Því má slá nokkuð föstu að íslenskum almenningi hafi blöskrað framganga þingmanna Samfylkingarinnar við afgreiðslu ákæruskjala Alþingis á dögunum, þar sem kosið var sitt á hvað eftir því hvað hentaði sínum ráðherrum. Björgvin G. Sigurðsson toppaði þá leikfléttu svo með því að taka sæti sitt á þingi aftur strax daginn eftir.
En hvað gekk Samfylkingarmönnum til með þessu leikriti? Enginn stjórnmálaflokkur gerir jafnákafar tilraunir til þess að lesa almenningsálitið áður en ákvarðanir eru teknar og Samfylkingin og ekki þurfti neinn sérfræðing til þess að sjá það fyrir að það myndi þykja heldur ódýrt að sleppa sínum eigin ráðherrum en reynda hins vegar að klína allri ábyrgðinni á einn mann.
Fléttan gengur út á að meta hagsmunina til lengri tíma vegameiri en tímabundnar óvinsældir vegna reiðiöldu almennings. Réttarhöldin yfir Geir H. Haarde – einum – munu vera einstakur viðburður í Íslandssögunni og vekja gríðarlega athygli út fyrir landssteinana líka. Sú athygli er raunar þegar farin að vakna þar sem t.d. írskur ráðherra bendir á það að þó þeir séu í klandri á Írlandi séu þeir nú ekki jafnilla settir og ráðherrann á Íslandi sem situr núna fyrir dómi, eins og ótíndur glæpamaður. Wikipedia sló fréttinni upp á forsíðu.
Staðreyndin er nefnilega sú að Landsdómur verður stærsta fréttamál ársins 2011. Skipaður verður saksóknari í málið sem fer af búa til „keisið“ fyrir sakfellingu. Dómararnir munu reyna að fóta sig í því hlutverki sem enginn kann, þ.e. að vera Landsdómari og skrifa fyrsta landsdóminn í sögunni. Væntanlega verður hann hvorki stuttur né snubbóttur, heldur doðrantur upp á margar blaðsíður sem fer vítt og breitt yfir aðdraganda hrunsins og hugsanlega ábyrgð tengd henni. Og fljótlega fer af stað umræða um hvers konar hneyksli það verði ef Landsdómur verði „hvítþvottur“ eða ef ekki verði þar gert heiðarlega upp við ákærurnar.
Þetta mun allt vekja mikla athygli. Spunasílin í Samfylkingunni sáu kærurnar sem tækifæri til þess að færa flokkinn úr því hlutverki að vera meðábyrgur fyrir hruninu, þrátt fyrir að tímabundnar óvinsældir kynnu að fylgja fyrir vingulshátt. Hugsunin var sú að eftir nokkur ár verði sagan skrifuð á þann hátt að uppgjörið og rannsóknarskýrslan hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins hafi verið kærður fyrir dóm út af refsibrotum.
Ákærutillögurnar á hendur ráðherrunum og ákæran á hendur ráðherranum eru svo út af fyrir sig stórfurðulegar. Ef þær vekja athygli út fyrir landsteinana þá ætti það að vera fyrir metnaðarfyllstu tilraun síðara tíma til að snúa hlutunum á haus. Á það hefur verið bent að mannréttindi hinna grunuðu sakbornina kunni að hafa verið brotin í ferlinu en ákærurnar eru hins vegar svo vitlausar að það er nánast verið að gera þeim sem að þeim stóðu til geðs að meta þær út frá mannréttindum sakborninga.
Hið augljósa í þessu máli er að bankarnir hrundu út af ástæðum sem varða þá sjálfa en ekki stjórnmálamennina og tilraunir þeirra til þess að bjarga þeim. Banka- og fjármálastarfsemi er áhættusöm eins og hefur alltaf verið vitað og lítið má út af bregða. Þegar á reyndi voru varnir bankanna, þ.e. lausafé, eigið fé og eignasafn þeirra alltof veikburða til þess að ráða við hina djúpu kreppu. Einn dagskrárliður á ríkisstjórnarfundi gat ekki breytt eða bætt vondar ákvarðanir og glórulausar lánveitingar innan heils fjármálakerfis til margra ára. Gerð skýrslu eða faglegrar greiningar gat ekki undið ofan af þeim vef sem farinn var að myndast inn í ákveðnum lögum bankakerfisins, tryggilega varinn af stimpluðum og blessuðum ársreikningum og talnaefni frá bönkunum sjálfum og endurskoðendum þeirra, þar sem sama kreðsan hafði lánað sín á milli ótrúlegar upphæðir til að halda uppi hlutabréfaverði og hagnast gríðarlega í leiðinni.
Frumábyrgðarinnar fyrir þessu hruni er vitaskuld að leita á þessum slóðum þótt margt megi finna í aðkomu og aðgerðum stjórnvalda sem betur mátti fara. En að það sé refsivert, er náttúrulega fráleitt og að eyða eigi tíma og orku í að rífast um hvers vegna fundir voru ekki haldnir eða skýrslur ekki skrifaðar, er alvarleg vísbending um að menn viti ekkert hvert við erum að fara.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021