Nýverið stóð Femínistafélag Íslands fyrir opnum fundi þar sem þeirri spurningu var velt upp hvort þörf væri fyrir nýtt kvennaframboð. Allar pælingar um hvernig megi styrkja stöðu kvenna eru góðra gjalda verðar en sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort kyn eitt og sér sé nógu sterkur samnefnari fyrir pólitískt framboð.
Fólk á mínum aldri þekkir ekki kvennaframboð og hefur aðeins lesið um þau í sögubókum. Staða kvenna í dag er að sjálfsögðu gjörólík því sem var þegar Kvennalistinn var og hét. Þá var þörfin fyrir slíkt framboð sýnilegri en í dag. Heyra kvennaframboð því ekki bara sögunni til?
Ég tel að kyn eitt og sér sé ekki nógu sterkur samnefnari fyrir pólitískt framboð. Konur eru jafn ólíkar innbyrðis og karlar eru ólíkir innbyrðis. Það er margt sem sameinar okkur konur en líka ótalmargt sem greinir okkur að. Því er erfitt að sjá að konur með ólíkar pólitískar skoðanir gætu komið sér saman um pólitískt framboð. Nema það væri til þess eins að koma konum að.
Kvennaframboð væri hugsanlega góð hugmynd ef það væri eina leiðin sem konur hefðu til að komast til valda, þ.e. ef þær gætu það ekki eftir öðrum leiðum, til dæmis í gegnum stjórnmálaflokkana. Sú staða er ekki uppi í dag. Erfitt er því að sjá að þörf fyrir sérstakt kvennaframboð sé sérstaklega mikil í dag.
Einnig má velta fyrir sér hversu lengi sérstakt kvennaframboð myndi endast. Kvennaframboðið í Reykjavík bauð undir það síðasta fram undir merkjum R-listans og Kvennalistinn sameinaðist að lokum Samfylkingunni. Niðurstaðan hefur því oftast á endanum verið að kynið er ekki nóg til að halda úti stjórnmálaflokki. Málefni og aðferðir hljóta alltaf að skipta höfuðmáli.
En af hverju kemur þessi umræða upp núna? Reyndar voru einhverjar hugmyndir um kvennaframboð fyrir Alþingiskosningarnar 2009 en ekki náðist samstaða um slíkt framboð þá og varð ekkert af því framboði. Einhver stemning virðist þó vera að myndast aftur fyrir sérstöku kvennaframboði en það gæti verið vegna þeirra radda sem stundum heyrast að bankahrunið hafa verið „hrun karlanna“ og tími sé kominn til að konur fái að stjórna. Athyglisvert er því að þessi umræða komi upp í dag þegar kona er í fyrsta sinn forsætisráðherra, einnig er kona forseti Alþingis og kona forseti Hæstaréttar. Handhafar forsetavalds eru því allt konur í dag.
Staða kvenna í stjórnmálum hefur batnað töluvert á undanförnum árum, en það er þó ekki þar með sagt að staða kvenna sé orðin ásættanleg. Langt í frá. Það er helst í atvinnulífinu sem staða kvenna er langt frá því að vera góð. Enn eru konur að fá lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu og konur eru mun færri í stjórnum fyrirtækja. Lausnina við því er hins vegar ekki að finna í sérstökum kvennaframboðum.
Því mætti velta fyrir sér hvort kvennahreyfingin ætti ekki að beita sér í ríkari mæli að öðrum sviðum en stjórnmálum og þá helst atvinnulífinu. Sem dæmi má taka að konum hefur ekki verið treyst að neinu marki fyrir stjórnarsetu í lífeyrissjóðunum en lítið hefur farið fyrir gagnrýni á þá vegna þess. Einnig var ekki að sjá að kvennahreyfingin beitti sér sérstaklega þegar Ingibjörg R. Guðmundsdóttir bauð sig fram til forseta ASÍ. Er því ekki kominn tími til að kvennahreyfingin herði baráttu sína á þeim sviðum þar sem mest hallar á konur í dag?
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021