Nýskipaður efnahags- og viðskiptaráðherra Árni Páll Árnason hefur lagt fram umdeilt frumvarp til Alþingis um að gengistryggð bíla- og íbúðalán verði ólögmæt samkvæmt lögum. Árni Páll sagði á blaðamannafundi að tilgangurinn með væntanlegri lagasetningu væri að eyða þeirri óvissu um lögmæti lánanna, óháð orðalagi samninga.
Þetta frumvarp kemur eftir langþráðan dóm Hæstaréttar Íslands um hvaða vexti ætti að greiða af gengistryggðu bílaláni sem nokkrum vikum áður var dæmt ólöglegt. Niðurstaðan kom fáum á óvart, en samningsvextirnir áttu að víkja fyrir lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands.
Í frumvarpi Árna Páls geta neytendur hinsvegar valið um að skuldbreyta láninu í íslenskt lán með lægstu verðtryggðu eða óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands. Þriðji möguleikinn er að skuldbreyta láninu í löglegt erlent lán.
Ákvörðun stjórnvalda um að setja lög á gengistryggð íbúða- og bílalán hefur mörg sterk rök á bak við sig. Sú óvissa sem hefur ríkt nú í tæp tvö ár um lögmæti gengistryggðu lánanna og á hvaða vöxtum lánin eigi að vera, hefur seinkað fyrir endurskipulagningu í fjármálum heimilanna. Úrræði banka og stjórnvalda fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum hafa verið í hálfgerðu frosti á meðan ekki var vitað um stöðu gengistryggðu lánanna og greiðslubyrði þeirra. Nú fyrst verður hægt að stöðumeta einstaklinga og fjölskyldur og vonandi útvega þeim viðunandi greiðsluerfiðleikaúrræði.
En af hverju er einungis sett lög um gengistryggð íbúða- og bílalán? Hvað með gengistryggð lán fyrirtækja? Heildarvirði gengistryggða lána í bankakerfinu er áætlað að vera um 1027 milljarðar íslenskra króna og 82% af því eru lán til fyrirtækja. Því er ljóst að einungis brot af vandamálinu hefur verið leyst með fyrrnefndu lagafrumvarpi.
Á meðan óvissan ríkir enn um lögmæti gengistryggðra lána til fyrirtækja, verður erfitt fyrir fyrirtækin að reyna að leysa úr skuldavanda sínum og endurskipuleggja sig til þess að tryggja að rekstur þeirra geti haldið áfram. Þessi yfirgnæfandi óvissa gæti orðið til þess að stjórnendur og eigendur fyrirtækja muni gefast upp á að reyna að berjast fyrir lífi fyrirtækja sinna.
Eins og kom fram í góðum pistli Andra Heiðars fyrr í vikunni á Deiglunni þurfa stjórnvöld að einbeita sér að því að skapa hagstætt umhverfi fyrir fyrirtæki. Með því skapast fleiri störf og aukin verðmætasköpun sem er lykilinn að því að Ísland komist út úr kreppunni.
Einn lykilþáttur í að skapa gott fyrirtækjaumhverfi er að leysa þá óvissu um lögmæti gengistryggða lána til fyrirtækja. Á meðan óvissan er til staðar, verður lítið að gert og fyrirtækin hafa litla möguleika á að búa til framtíðaráætlanir. Það þarf að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang og skapa umhverfi svo þau geti starfað og jafnvel vaxið á ný.
- Hið pólitíska hlutleysi íþrótta - 11. júlí 2021
- Umræðan innan stafbila - 14. júní 2021
- Uppgjörið sem bíður enn… - 13. maí 2021