Það eru tæpir 11 mánuðir síðan við ákváðum nokkur að kaupa okkur miða á tónleika með Muse á Wembley 11. september 2010. Þessi ákvörðun var tekin nokkuð hratt og það gafst ekki mikill tími til að hugsa sig um, við þurftum að slá til eða sleppa þessu. Við ákváðum að slá til og sáum svo sannarlega ekki eftir því.
Eftir að ákvörðunin um að skella okkur var tekin sátum við tölvuna og refresh-uðum síðuna þar sem hægt var að kaupa miða í dágóðan tíma. Loksins duttu miðarnir inn en þegar við ætluðum að staðfesta kaupin var orðið uppselt. Við ákváðum þó að sitja aðeins lengur við tölvurnar og vonast eftir auka tónleikum, það hlytu að vera ansi margir sem misstu af miðum fyrst við náðum ekki í gegn. Þetta reyndist vera rétt ágiskun og stuttu síðar hófst salan á aukatónleika sem haldnir voru 10. september 2010. Þegar búið var að kaupa miðana hófst biðin…. 11 mánaða bið. Tíminn leið hægt en leið þó og loksins fengum við miðana senda heim, spennustigið var orðið ansi hátt og síðustu dagana/vikurnar var talað um lítið annað en tónleikana.
Við flugum til London degi fyrir herlegheitin og er óhætt að segja að sólarhringurinn fyrir tónleikana hafi einkennst af andlegum jafnt sem líkamlegum undirbúningi. Við borðuðum einungis mat af veitingahúsakeðjum sem við þekktum, til þess að lágmarka líkurnar á matareitrun eða annars konar magakveisum. Öllum vökva var haldið í lágmarki en þó passað upp á að drekka eitthvað til þess að verða ekki fyrir vökvatapi á tónleikakvöldinu sjálfu. Það er mikið sem þarf að hugsa um þegar haldið er á stóra tónleika.
Loksins! Loksins! Dagurinn sem við höfðum beðið svo lengi eftir var runninn upp! Við lögðum tímanlega af stað á Wembley til þess að lenda alveg örugglega ekki í tímaþröng, því það gæti jú margt farið úrskeiðis. „Eru ekki allir með miðann?“ Var eflaust algengasta spurning ferðarinnar. Lestarferðin gekk vel og vorum við öll furðu róleg alveg þar til við sáum Wembley. Þá fórum við að tala aðeins örar og hærra en vanalega, brostum út að eyrum og þurftum að halda í við okkur svo við færum hreinlega ekki að hlaupa.
Á leiðinni upp að leikvanginum sáum við minjagripabúð þar sem við fjárfestum að sjálfsögðu í Musebolum og smáhlutum sem tækju ekki of mikið pláss. Við komum að innganginum þar sem fólki var skipt niður í hópa og allir sátu sem rólegastir og biðu eftir því að komast inn. Tíminn frá því að við komum og þar til byrjað var að hleypa inn leið furðu hratt. Það var í raun aðdáunarvert að fylgjast með skipulaginu á leikvanginum við það að koma fólki inn, þetta gekk allt saman hnökralaust og við vorum komin inn á nokkrum mínútum. Reglurnar sem giltu þarna voru virtar og fólk beið rólegt í röð þar til kom að þeim. Ekki alveg það sem maður þekkir frá Íslandi, þar sem þeir sem troða sér mest, komast fyrst að.
Þar sem við vildum vera fremst, tóku síðan við nokkrir klukkutímar af bið í frekar mikilli mannþröng. Þá kom sér vel að hafa borðað vel og skynsamlega daginn áður og einnig að hafa passað upp á vökvamagnið þar sem það var ekkert hlaupið að því að ná plássi aftur ef maður þurfti að fara á klósettið. En eftir langa bið var þetta að bresta á, upphitunarböndin voru búin að spila, búið að stilla upp sviðinu og nú var bara að bíða.
Muse byrjaði að spila á slaginu níu og spiluðu til að verða hálf tólf. Þessir rúmu tveir tímar liðu mjög hratt og er erfitt að reyna að lýsa því með orðum hvernig var að standa með 90.000 manns sem voru komnir þarna í sama tilgangi, hlusta á uppáhaldshljómsveitina sína spila. Sumir grétu, aðrir öskruðu og flestir sungu með og brostu í hringi. Ég hef farið á nokkra tónleika og þessir eru þeir allra bestu, það gekk hreinlega allt upp.
Hljómsveitin sjálf sló ekki feilnótu, sviðsmyndin var mögnuð, sviðsframkoma þeirra frábær, ljósin, áhorfendurnir, allt spilaði þetta saman að því að gera þetta kvöld eitt eftirminnilegasta kvöld lífs míns og voru ferðafélagar mínir sammála því. Þó ég vildi held ég að það sé ómögulegt að lýsa svona upplifun með orðum og jafnvel enn erfiðara í rituðu máli en ég held að allir þeir sem hafa upplifað svona kvöld skilji hvaða tilfinningu ég er að lýsa, og hún er góð.
- Hver fær að fara á frístundaheimili og hver fær lykil um hálsinn? - 6. desember 2010
- Muse á Wembley… ólýsanlegt - 22. september 2010
- Draumur um Hróarskeldu - 30. mars 2010