Hið útþvælda bankahrun hefur ómeðvitað kennt landsmönnum þá röngu lexíu að þeir ættu nú ekkert að abbast mikið til útlanda með hugmyndir sínar. Útrás, þ.e.a.s. útflutningur íslenskra hugmynda er álíka vinsæl pæling og mansal. Á sama tíma og því er troðið inn í heilahvelið á okkur að við þurfum ekki að loka okkur innan Evrópusambandsins heldur eigum að líta á allan heiminn sem markað, veigra flestir íslenskir frumkvöðlar sér við að horfa út fyrir girðingu á eigin túni.
Án þess að farið sé of nákvæmlega út einstaka fyrirtæki, sem flest auðvitað meina og reyna sitt besta, þá er það sláandi hve ótrulega staðbundnar og óútflytjanlegar margar þeirra viðskiptihugmynda sem hljóta athygli fjölmiðla og stjórnvalda eru. Tilfinningin er að hin dæmigerði frumkvöðull þráir mest að búa til eitthvað kennsluforrit í náttúrufræði og selja reykvískum grunnskólum. Ef menn eru alveg að springa úr hugrekki þá markaðssetja menn eitthvað rosaíslenskt og selja ferðamönnum. Það þykir líka sniðugt. Reddar gjaldeyri og svona.
Annað jafngott og að redda gjaldeyri er að spara hann. Til dæmis með að búa til íslenskt eldsneyti svo menn þurfi ekki að kaupa erlent eldsneyti. Fínt, alveg sjálfsagt og frábært, en er það ekki skrýtið hvernig slíkar hugmyndir rata strax í blaðaleiðara og á Alþingi og menn fara að ræða skattaívilnanir og aðrar aðgerðir til að styrkja slíka nýsköpun á meðan að minna fer fyrir geðshræringu þegar menn vilja búa til eitthvað sem gæti faktískt gert stóra hluti handan stóru tjarnarinnar? Munum að ríkasti gaurinn í þorpinu er ekki gaurinn sem kaupir minnst dót heldur gaurinn sem selur mest af því.
Gjaldeyrishugsunarhátturinn er þannig svoleiðis að fokka í hausnum á liðinu að hann einn ætti að vera nægileg ástæða til að losa sig við krónuna. Þá getum loksins sett á fullt í að gera hluti sem við gerum best í heimi og pásað hluti sem hafa þann helsta kost að spara okkur gjaldeyri. “Íslenskur mygluostur? Sparar gjaldeyri! Frábær hugmynd, meira af þessu!” hugsar gjaldeyrisfíflið.
Danskar verkfræðistofur hugsa ekki um að verða stærstar í Álaborg. Danska hönnuði dreymir ekki um að sigra Fjón. Nokia er ekki að búa til farsíma til að spara Finnum gjaldeyri. Förum að búa til drasl sem er virkilega betra allt annað drasl. Hættum að búa til drasl sem okkur einum finnst ásættanlegt (en er samt bara drasl).
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021