Iðnaðarstefna er almenn stefna ríkisstjórna sem felur í sér að bæta hag ákveðinna atvinnugreina á kostnað hinna með ávinningi fyrir heildina. Til dæmis með verndartollum eða skattafsláttum. Stefnan er þannig fyrir neðan þjóðhagslegar ákvarðarnir stjórnvalda svo sem um almenna skattlagningu, vaxtastig og almennar reglur atvinnulífsins. Frægasta dæmið um iðnaðarstefnu kemur frá hagkerfi Japans eftir seinni heimsstyrjöld þar sem sérfræðinefnd ríkisstjórnarinnar valdi ákveðna iðnaði sem ættu að fá styrki frá ríkisstjórninni á kostnað annarra.
Iðnaðarstefna svarar að einhverju leyti því hvaða gæði þjóð flytur út til þess að geta greitt fyrir innflutning sinn. Í umræðum eftir efnahagshrun hefur það gleymst að snilldin við milliríkjaviðskipti eru þær frábæru vörur sem við flytjum inn sem væri gríðarlega dýrt og óhagkvæmt að framleiða innanlands. Útflutningur er einfaldlega verðið sem við greiðum fyrir innflutninginn.
Helsta gagnrýni á iðnaðarstefnu er sú að stjórnvöld eru ekki bestu aðilarnir til þess að meta hvaða iðnaður muni standa sig best í framtíðinni. Þvert á móti eru stjórnvöld mun líklegri til þess að styðja iðnað sem er í hnignun því að þar vinnur fjöldinn og og rótgróin fyrirtæki hafa sterkari rödd en smá fyrirtæki.
Rökin gegn iðnaðarstefnu geta þó ekki litið framhjá því að í dag er ákveðin stefna framkvæmd af stjórnvöldum. Landbúnaður er dæmi um iðnað sem er bæði styrktur úr ríkissjóði og nýtur einnig verndar fyrir innflutning. Sprotafyrirtæki njóta ákveðins skattafsláttar og býðst húsnæði rekið af ríkinu. Ferðaþjónustan er styrkt með rekstri Íslandsstofu. Iðnaðarmenn sem sérhæfa sig í viðhaldi fá ívilnanir undir nafninu „Allir vinna“ og stórum erlendum fjárfestum bjóðast ákveðnar ívilnanir.
Þessi upptalning, sem er hvergi nærri tæmandi, lýsir mjög óskýrri stefnu.
Það sem er líklegast verst við stefnu ríkisstjórnarinnar (núverandi jafnt sem fyrri ríkisstjórnum) er að þar er blandað saman iðnaðarstefnu (industrial policy) og velferðarstefnu (social policy) þar sem hið síðarnefnda er stundum klætt í fallegan búning og kynnt sem hið fyrrnefnda.
Það þarf að vera mun skýrari aðgreining á fjárfestingu sem snýr að því að auka tekjur þjóðfélagsins og þeirri fjárfestingu sem felst í því að vera þjóð. Byggðastefna er gott dæmi um verkefni sem er kynnt sem atvinnustefna en er mun líkara velferðarstefnu í framkvæmd. Það vinna 900 manns í svokölluðum þekkingarsetrum víða um land. Er það iðnaðarstefna eða velferðarstefna?
Nám í verkfræði skilar okkur fólki sem eykur tæknistig þjóðfélagsins og möguleika þess að skapa sér tekjur. Nám í Íslensku skilar okkur betri skilning á þjóðinni sjálfri. Þetta eru mismunandi markmið, bæði góð, en eiga skilið að vera skoðuð með mismunandi gleraugum.
Eins og segir í Draumalandi Andra Snæs: „Ef 500 manns læra líftækni er kominn grundvöllur fyrir 500 manna líftæknifyrirtæki en ekki öfugt“.
Í Háskólanum í Reykjavík var þannig ákveðið að slá skjaldborg um greinar sem skapa útflutningsverðmæti og loka öðrum. Forgangsröðun. Í Háskóla Íslands er barist gegn því að það hafi ekki verið teknir inn nýir nemendur í rússnesku, fornleifafræði og ritlist.
Það er líklegast ekki góð hugmynd að byrja að slá upp girðingar fyrir nokkra afmarkaðar iðngreinar á Íslandi og láta hinar greinarnar sitja fyrir utan og vera neyddar til þess að kasta til þeirra mat. Hinsvegar væri það eftirsóknarvert að það yrði gerður samningur í anda stöðugleikasáttmálans þar sem breið samstaða væri gerð um betri nýtingu þess fjármagns sem þegar er lagður í atvinnuuppbyggingu.
Svo vitnað sé í Ársæl Valfells, þá eru íslendingar góðir, standa sig vel í alþjóðlegum samanburði, í fjórum hlutum: sjávarútvegi, orkunýtingu, ferðamennsku og kraftmiklu skapandi fólki.
Ef þetta eru þau svið þar sem við stöndum vel, ætti stefna hinna ýmsu opinberu stofnana, fyrirtækja, samtaka, nefnda og ráða að miðast að því að auka samkeppnishæfi okkar þar?
Spyrja má: Hver er stefna Íslands gagnvart álframleiðslu? Landsvirkjun sagðist ekki ætla að framleiða meiri orku fyrir álver en ætlar þó að byggja Búðarhálsvirkjun fyrir álverið í Straumsvík. Ríkisstjórnin er ýmis með eða á móti álverum (með jákvæðum efnahagslegum áhrifum en á móti neikvæðum umhverfisáhrifum) en sáralítil þekking virðist vera á Íslandi á áli. Það var árið 1962 sem fyrsta álverið var opnað á Íslandi. Síðan þá hafa örfáir Íslendingar útskrifast með doktorspróf tengt áli. Af hverju ekki einn á ári? Þá væru jafnvel 40-50 Íslendingar með doktorsmenntaðir í áltækni.
Á síðasta ári var farið af stað með verkefni sem heitir „Sóknaráætlun 20/20“ þar sem ákveðið var að setja saman iðnaðarstefnu. Í upphafi verkefnisins var tekin ákvörðun um að gera stjórnmálamann að táknmynd verkefnisins sem gerði verkefnið um leið flokkspólitískt. Þetta leiddi til þess að aðrir flokkar urðu fráhverfir verkefninu og töluðu gegn því. Verkefnið hefur einnig liðið fyrir það að til þess að vel takist þá þurfa aðilar að færa fórnir (t.d. að falla frá kröfu um að virkjun í héraði skili sér í verksmiðju í héraði). Það þarf sterkara bakland fyrir þessa vinnu. Reynsla annarra landa kennir okkur að iðnaðarstefna mun ekki virka til lengri tíma nema ef tekst að fá alla lykilaðila til þess að taka þátt í verkefninu.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021