Ég geri eiginlega allt hratt eða í flýti. Ég labba hratt, ég tala hratt, ég skrifa hratt, ég tek ákvarðanir í miklu flýti og er á móti því að lífið mitt sé allt fyrirfram ákveðið. Ég átti kærasta á leikskólanum og gekk ég að eiga hann við viðeigandi athöfn í dúkkukróki þegar ég var fjögurra ára. Ég var snemma byrjuð að syngja, tala og vera ákveðin og vildi vera löngu byrjuð í skóla þegar ég var fimm ára.
Skólaundantekningin var sú, að ég fékk að fara í tónlistarskóla þegar ég var fjögurra ára og í reglulegar skólaheimsóknir til Súðavíkur þegar ég var fimm ára. Þar átti ég „reiknibók“ og „stafabók“ sem ég tók með mér á milli skólastofanna og var nemandi í þeim bekk og í þeim árgangi sem mér sýndist hverju sinni. Dönskutímar hjá tíunda bekk, sem mamma mín kenndi, voru auðvitað lang mest spennandi. En þar sat ég og reiknaði með hjálp unglinganna, sem fannst fyrsta bekkjar stærðfræði auðvitað miklu meira spennandi en danskan.
Sem barn og unglingur fékk ég oft þær athugasemdir að ég ætti að vera rólegri og lifa meira eftir mínum aldri. Mér tókst það ekki.
Það kom svo að því að ég eignaðist íbúð, bíl og barn. Svolítið snemma fannst mörgum sem höfðu náð þeim merka áfanga að vera á miðjum aldri. Enda fékk ég að heyra það. Ég fékk í lang flestum tilvikum dæs, klapp á bakið og ógurlega aumt augnaráð þegar ég tilkynnti fólki um óléttuna. Og þegar bumban var orðin jafn stór rassinum á mér var það orðið að reglu að ég fengi klapp á bumbuna og fylgjandi yndissetningu: „Þetta verður allt í lagi“.
Allt í lagi? Auðvitað! Ég vissi það alveg. Þetta yrði allt í lagi, því ég var afskaplega ánægð með bumbuna mína, spennt, metnaðarfull og hafði alltaf verið mikið fyrir öll börn. Svona fyrir utan systur mínar..
Krílið fæddist með 10 í apgar, ljósmæðurnar voru yndislegar og fæðingin var stórskemmtileg. Krílið hafði fæðst með öll þau einkenni sem ég hafði óskað mér; tærnar frá mér og spékoppana og augun frá pabba sínum. Ég hóf mjólkurframleiðslu sem var álíka mikil og ársbyrgðir frá mjólkurbúi Flóamanna og hafði aldrei haft svona glæsilegt brjóstportrett.
Mér fannst strax yndislegt að vera mamma, en ég var hrædd við þessar ótrúlegu breytingar sem urðu á mér. Ég var pirruð yfir því að allir keyrðu svo hratt, ég fékk móðursýkiskast í flugvél og heimurinn var allt í einu miklu hættulegri en ég hafði nokkurntíma getað ímyndað mér.
Í stutta stund hélt ég að ég væri ein um þessa geðveiki. En svo fór ég að eiga samskipti við nýbakaðar mæður á öllum aldri og sá að þessar tilfinningar komu óháð stöðu og aldri. Því allar mæður vilja jú barninu sínu það allra besta.
Það væri reyndar ekki rétt af mér að segja að ég hafi bara „gengið á sólskini“ eftir fæðinguna. Ég sá strax að það var hópur í samfélaginu sem hreinlega höndlaði ekki að stelpur væru að eignast börn svona ungar. Ég fékk að heyra það, með barnið mitt í fanginu, að ég hefði betur farið í fóstureyðingu. Það væri mér sjálfri, barninu og kerfinu fyrir bestu.
Á þeim tíma, sem og öðrum, var gott að eiga góða að.
Ég varð óörugg og fór að hugsa um sjálfa mig sem unga móður og að ég væri eitthvað öðruvísi í samfélaginu. Að ég næði ekki að falla inn í normið svona án háskólagráðu og saumaklúbbs. Ég var ógurlega meðvituð um það að heimilið ætti að vera tandurhreint, barnið alltaf í hreinum fötum með klipptar neglur og stuttan topp. Allt átti að vera fullkomið og ég átti að sinna heimilinu, barninu, skólanum og vinnunni eins og wonderwoman. Því ekki vildi ég verða að „kerfismömmu“.
Eftir mörg samtöl við mömmu mína (sem þá var orðin félagsráðgjafi) var ég orðin viss um það að ég gerði þetta allt alveg nógu vel. Þó ég þyrfti að fá frest til að geta skilað skólaverkefnum og þrátt fyrir það að á heimilinu væru þvottahaugar, barnið fengi ekki lífrænan mat í öll mál, mætti fá sykraða ávaxtadrykki af og til, sofnaði stundum með sand í hári og táslum, tæki brjálæðisköst og neitaði tannburstun… Jú, ég var samt hæf móðir. Og besta uppgötvunin var, að ég var alveg jafn góð móðir og þær sem höfðu farið eftir „settum samfélagsreglum“.
Ég náði að gera þetta allt alveg voðalega ákveðið. Fæðast, verða smá fullorðin og eignast barn. Alveg eins og Krílið er aðeins of fljótt að stækka, þroskast og læra að hlæja að því að Steindi sé með lítið typpi. (Algjörlega ekki mér að kenna).
En er það slæmt að hlutir gerist hratt ef þeir eru gerðir af nautn, ánægju og/eða vinnusemi? Erum við ekki farin að átta okkur á því að aldur og tími eru bara hugtök?
Ungar mæður eru ekki baggi á samfélaginu og ekki ávísun á aukin útgjöld félagslegrar þjónustu. (Þó þær séu eini hópurinn sem viðurkennir að þær þurfi á barnabótum að halda, nákvæmlega í þeirri mynd sem þær eru í dag). Ég er stolt af ungum mæðrum sem senda settum samfélagsreglum fingurinn og standa með sjálfum sér og börnunum sínum.
- Eitt en ekki annað - 21. maí 2021
- Hvað ertu að gera hérna? - 22. apríl 2021
- Hvernig er fattið? - 11. mars 2021