FRELSI er það dýrmætasta sem við eigum. Það er ekki sjálfsagður hlutur. Frelsi er í raun forréttindi sem ekki allir búa við. Styrjaldir, uppreisnir, borgarastríð og ófriður af ýmsu tagi vitnar um það.
Kynslóðin sem lifði það að sjá Ísland öðlast fullveldi 1. desember 1918 segir frá því að enda þótt spænska veikin hafi herjað á þjóðina um sama leyti hafi flestir safnast saman til að fagna þessum áfanga í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Enn í dag tárast menn, karlar og konur, sem voru á Þingvöllum 17. júní 1944 þegar næsti áfangi náðist og við öðluðumst fullt sjálfstæði.
En baráttan fyrir frelsinu endaði ekki 17. júní 1944. Hún færðist aðeins á annað stig. Síðustu áratugir sýna fram á að margt er eftir hvort sem við erum að auka hag okkar vegna þrýstihópa innanlands eða utan. Því frelsi er svo víðtækt hugtak að það má lengi berjast fyrir þáttum sem varða það. Eftir margar deilur við nágrannaríki okkar eins og t.d. þorskastríðin og miklar breytingar á réttindum Íslendinga í eigin landi, snýst baráttan um þessar mundir um frelsi einstaklingsins.
Frelsi einstaklingsins er frumskilyrði þess að samfélagið vaxi og dafni. Á öllum tímum þarf að tryggja að einstaklingar geti tekið sér það fyrir hendur sem þeir vilja svo fremi sem það rúmist innan ramma laganna. Hér er t.d. átt við frelsi til að velja hvað við lærum, hvað við viljum starfa við, hvar við kaupum nytjavörur og hverjar, og einnig hvar við viljum hafa búsetu. Frelsi snýst um það að allir hafi sömu tækifæri til að ná þeim markmiðum sem þeir setja sér, hvort heldur sem eru einstaklingar eða fyrirtæki, karlar, konur, nýbúar eða samkynhneigðir.
Þrátt fyrir að sagan hafi margoft staðfest ofangreindar staðreyndir er núverandi ríkisstjórn með stuðning allt of margra að skerða svigrúm einstaklingsins og fjölskyldna á allt of margan hátt. Þó margir séu ekki meðvitaðir um það þá eru hugmyndir eins og til dæmis hleranir lögreglu við minnsta grun um ólöglegt athæfi, kynjakvótar, aðildarumsókn að ESB með því takmarki að ganga inn í sambandið, bann við strippstöðum og einræðisvald heilbrigðisráðherra um hvar og hvaða læknar mega stunda sína iðju, eru bara brot af þeim „frábæru“ hugmyndum sem hafa þær afleiðingar að okkar frelsi sem einstaklingar skerðist meira smátt og smátt.
Því miður hefur samt sem áður verið í tísku að biðja um þessar takmarkanir til þess að redda hlutunum upp á síðkastið og núverandi ríkistjórn styður þær annað hvort til að friðþægja múginn eða hylja yfir sína eigin vanhæfni að takast á við hin raunverulegu vandamál samfélagsins. Skammtímahugsunin og forræðishyggjan er algjör.
Baráttan fyrir frelsinu okkar er síður en svo á enda. Aldrei áður hefur verið eins mikilvægt að berjast fyrir frelsinu í samfélagi okkar og við megum ekki heldur gleyma að hlúa að og verja það frelsi sem við búum þegar við. Frelsi sem við höfum barist hart fyrir í margar kynslóðir.
- Blygðunarkennd þjóðarinnar - 30. október 2010
- Mikilvægi frelsisins - 30. ágúst 2010
- Fyrningarleiðin frá sjónarhóli landkrabba - 29. apríl 2010