Á Íslandi gildir sú regla að ábyrgð á fjármálum hvílir að meginstefnu til á neytendum og skuldurum. Hver kannast ekki við þá klassísku útskýringuna á hækkandi verðlagi að gengi krónunnar hafi lækkað eða verðbólgan hækkað þann mánuðinn? Öllu sjaldséðari eru lækkanir þegar gengi krónunnar hækkar eða verðbólgan hjaðnar. Veruleikinn virðist vera sá að um leið og einhver hækkun á sér stað í innflutningi á vöru er kostnaðinum sem hlýst af því varpað yfir á neytendur.
Í lánaheiminum er staðan hvað verst. Stöðugleiki í íslensku efnahagslífi er því miður álíka sjaldgæfur og rigning í Sahara eyðimörkinni og fyrir nokkrum áratugum var staðan orðin þannig að nauðsynlegt þótti að binda lán við vísitölu neysluverðs. Kúgunartólið verðtrygging hefur alla tíð síðan séð til þess að íslensk lán hækki mánaðarlega við hverja afborgun í stað þess að lækka. Þetta þekkja allir Íslendingar og flestir hafa brennt sig á þessu.
Fyrir nokkrum árum tóku nokkrar lánastofnanir sig til og buðu upp á 100% fasteignalán. Vegna þess að á Íslandi hefur alla tíð verið há verðbólga í samanburði við nágrannaþjóðir okkar og þótt víðar væri leitað, þýddi þetta að nánast hver einasti maður sem tók 100% lán og veðsetti fasteign sína fyrir 100% af markaðsvirði, skuldaði meira en hann átti eftir fyrstu afborgun þegar vísitala neysluverðs hækkaði. Ábyrgð lánastofnana á þessum lánveitingum er engin. Skuldarinn skuldar einfaldlega meira en hann á og situr uppi í þeirri skuldasúpu.
Í góðærinu tóku síðan nokkrar lánastofnanir sig til og buðu viðskiptavinum sínum upp á lán í erlendri mynt til þess að koma til móts við þetta fráleita fyrirkomulag í lánamálum. Þessi lán voru vísitölubundin eins og þau verðtryggðu en í stað þess að binda lánin við vísitölu neysluverðs voru þau bundin við erlendar myntir og hækkuðu og lækkuðu í samræmi við gengi íslensku krónunnar í samanburði við viðkomandi erlenda mynt. Þegar íslenska krónan missti helming verðgildis síns hækkuðu þessi lán um 100% og lánastofnunum þótti auðvitað ekkert sjálfsagðara en að lánþegi tæki á sig þessa 100% hækkun. Nú bendir flest til að þessi binding lánanna við erlendar myntir hafa verið ólögleg, enn á þó eftir að úrskurða endanlega um það. Lögin bjarga hugsanlega íslenskum skuldurum frá þeirri ábyrgð.
Hér er ætlunin ekki að draga úr ábyrgð einstaklinga á lánunum sem þeir taka. Hver og einn verður að sjálfsögðu að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Það sem gleymist hins vegar er að í lánasambandi eru tveir aðilar, lánveitandi og skuldari. Lánveitandinn verður líka að bera ábyrgð, þó ekki væri nema bara fyrir þær sakir að hann telur sér vexti vegna áhættunnar og ábyrgðarinnar sem fylgir lánveitingunni. Lánveitandi sem lánar 100% fasteignalán sem bundið er við vísitölu neysluverðs hlýtur að gera sér grein fyrir því að skuldarinn skuldar meira en hann á strax eftir fyrstu afborgun sem gerir honum erfiðara fyrir að greiða af skuldinni. Lánveitandi sem lánar íslenskar krónur bundnar við erlenda mynt, þegar íslenska krónan hefur aldrei síðan hún var sett á laggirnar verið stöðug, hlýtur að gera sér grein fyrir áhættunni sem því fylgir.
Í Bandaríkjunum er skemmtilegt fyrirkomulag á húsnæðislánum, en þar getur lánþegi hvenær sem er skilað lánastofnun lyklunum að fasteigninni og losnað þannig undan láninu. Þetta fyrirkomulag hefur að sjálfsögðu bæði kosti og galla, en einn stærsti kosturinn er ábyrgðin sem hvílir á lánastofnunum við útlán. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að það er hagur lánveitanda að greiðslumeta tilvonandi lánþega ítarlega og lána einungis fyrir raunvirði íbúðarinnar, því annars er hætta á að hann tapi á lánveitingunni.
Myndi þetta fyrirkomulag stuðla að heilbrigðari fasteignamarkaði á Íslandi?
- Hvað verður um Evrópusambandið? - 10. desember 2011
- 540 daga stjórnarkreppa á enda – bara efnahagskreppan eftir - 3. desember 2011
- Vald án ábyrgðar - 20. apríl 2011