Þann 9. ágúst sl. gengu íbúar Rúanda að kjörborðinu. Kjörsókn var með ágætum eða 97%. Sitjandi forseti Paul Kagame hlaut 93% atkvæða í kosningunum en hann hefur verið við völd frá árinu 2000 þegar Pasteur Bizimungu sagði af sér. Í pistli dagsins ætla ég að fjalla stuttlega um manninn og tvær hliðar hans við stjórn landsins. Hina ljósu og þá dökku.
Skiptar skoðanir eru um ágæti Pauls Kagame. Stuðningsmenn hans benda á miklar efnahagslegar framfarir á valdatíma hans og hraða uppbyggingu innviða meðan andstæðingar hans saka hann um harðstjórn og skoðanakúgun. Sömu sögu má segja af vesturlöndum. Margir hæla verkum hans og dæla fé til þróunarmála inn í landið meðan aðrir draga upp dökka mynd af ástandi mála í landinu. George B.N. Ayittey, forseti Free Africa Foundation í Washington hefur meira að segja gengið svo langt að telja hann meðal 23ja verstu þjóðarleiðtoga heimsins í nýjasta tölublaði tímaritsins Foreign Policy og setur hann þar á stall með Robert Mugabe, Mahmoud Ahmadinejad og Kim Jong Il.
Paul Kagame er Tútsi fæddur árið 1957. Tveggja ára gamall flýði hann ásamt fjölskyldu sinni undan byltingaröflum Hútúa í landinu. Fóru þau til nágrannaríkisins Úganda þar sem Kagame ólst upp í flóttamannabúðum. Menntun sína hlaut Kagame því ekki í skólum heldur fyrst og fremst á vígvellinum. Kagame gekk ungur til liðs við uppreisnarher Yoweri Museveni í Úganda en þar fékkst hann helst við upplýsingaöflun.
Eftir valdatöku Musevis í Úganda 1986 var hann sendur af yfirvöldum til Kúbu til frekari þjálfunar á sviði upplýsingaöflunar. Heimkominn hafði hann ásamt Fred Rwigyema forgöngu að því að stofna sérstaka sveit hermanna af Rúandískum uppruna innan ríkishers Úganda (RPF). Leint og ljóst markmið þessarar sveitar var innrás inn í Rúanda og valdataka í Kígalí. Leið og beið en í október 1990 flutti sveitin sig yfir landamærin. Kagame var þá við þjálfun í Bandaríkjunum en þegar hann sneri til baka var skæruliðaher þeirra félaga í slæmu standi og Rwigyema fallinn. Kagame flutti herinn um set og byggði hann upp að nýju í Virungafjöllunum í norðanverðu landinu. Skæruliðahernaður þeirra gegn ríkisstjórn Juvénal Habyarimana stóð síðan næstu fjögur árin.
Vatnaskil urðu í stríði þeirra árið 1994. Líkt og allir vita fór á því ári fram eitt hryllilegasta grimmdarverk síðari ára þegar Hútúar vopnaðir sveðjum murkuðu lífið úr 800.000 Tútsum á 100 dögum meðan að vesturlönd og Sameinuðu Þjóðirnar stóðu álengdar og gerðu ekkert til þess að stöðva hörmungarnar. Á meðan tóku Kagame og félagar ráðin í sínar hendur og héldu til Kigalí. Sjónin sem beið þeirra þegar þeir náðu til höfuðborgarinnar var ekki falleg, lík á víð og dreif um borgina, bankar tómir og ringulreið allt um kring. Þessir atburðir skipta eins og gefur að skilja lykilmáli hvað alla þætti Rúandísks samfélags varðar og ekki síður samskipti landsins við hinn vestræna heim og forsetans og hins vestræna heims ekki síst.
Við valdatöku RPF tók Kagame við stöðu varaforseta og varnarmálaráðherra en Pasteur Bizimungu sem er Hútúi var skipaður forseti. Almennt var þó álitið að Kagame væri burðarvirki stjórnarinnar og þóttu margir fá staðfestingu á því þegar Bizimungu sagði af sér árið 2000 vegna vaxandi ágreinings þeirra á milli vegna ýmissa stefnumála. Kagame var í kjölfarið kosinn forseti af þinginu og endurkjörinn í almennum kosningum árið 2003, þeim fyrstu eftir þjóðarmorðið.
Ekki eru allir á eitt sáttir um árangur áratugarins sem Kagame hefur verið við völd í Rúanda og hvaða verði þær framfarir sem þó hafa orðið hafa verið keyptar.
Efnahagslegar framfarir hafa vissulega verið talsverðar en hagvöxtur landsins undanfarin ár hefur verið með þeim hröðustu í álfunni. Spilling er að segja lítil og stöðugleiki talsverður. Læsi er 70,4%, Barnadauði er 83,4 af hverjum 1000 og meðalaldur eru 49,5 ár og svona mætti áfram telja. Ástandið er því nokkuð gott miðað við marga af næstu nágrönnum þó við myndum seint telja ofangreint boðlegt hér norður í velmeguninni. Þegar litið er til þess að aðeins 16 ár eru síðan barist var á banaspjótum með hryllilegum afleiðingum er hinn nokkuð góði stöðugleiki innan ríkisins eftirtektarverður. Kagame hefur einnig hreykt sér af framlagi sínu til kvenréttindamála en þjóðþing Rúanda er það eina í heiminum þar sem konur eru í meirihluta sitjandi þingmanna, hvað svo sem það segir okkur um hina raunverulegu stöðu mála. Þá eru fjarskiptamál með miklum ágætum miðað við sambærileg ríki í Afríku sem og samgöngumál en hinar dreifðu byggðir Íslands eru mörgum áratugum á eftir mörgum dreifbýlissvæðum Rúanda hvað vegakerfi varðar. Hafa margir orðið til þess að hrósa Kagame fyrir árangur hans í efnahagsmálum og mætti þar nefna menn á borð við Bill Clinton, Tony Blair og Bill Gates svo nokkrir séu nefndir.
En hinar efnislegu framfarir fást ekki án fórna. Tjáningarfrelsi, félagafrelsi og fjölmiðlafrelsi skora ekki hátt á markmiðalista Kagame og félaga eins og samtök á borð við Amnesty International, Human Right Watch og Blaðamenn án landamæra hafa ítrekað bent á. Nægir í þessu sambandi að benda á örfá dæmi í aðdraganda þessara kosninga þó ekki hafi verið sannað með traustum hætti að forsetinn eða menn úr hans innsta hring hafi verið þar að verki. Í síðasta mánuði var þannig Andre Rwisereka varaformaður lýðræðislega Græningjaflokksins (sem er klofningur úr flokki forsetans) myrtur með hrottafengnum hætti. Yfirvöld segja viðskiptadeilur búa að baki en Human Right Watch segir mögulegt að pólitík hafi spilað inn í. Þá var fyrrum hershöfðingja sýnt banatilræði í Suður-Afríku og ritstjóra blaðs sem tengdi tilræðið ríkisstjórninni myrtur í kjölfarið. Þá má geta þess að allir þrír mótframbjóðendur forsetans í kosningunum í vikunni tengjast flokki hans meðan þremur fulltrúum stjórnarandstöðunnar var meinuð þátttaka af ýmsum ástæðum. Þessir og fleiri atburðir á undanförnum mánuðum þar sem pólitískir andstæðingar forsetans hafa verið handteknir eða áreittir á annan hátt hefur skotið mörgum skelk í bringu. Sama á við um fjölmiðla sem búa ekki við sem bestar ástæður. Þannig var tveimur sjálfstæðum dagblöðum lokað nú í sumar og blaðamenn flýja landið að sögn BBC.
Þá hafa fjöldamargir andstæðingar forsetans verið fangelsaðir á grundvelli laga sem sett voru í kjölfar þjóðarmorðsins og banna mönnum að ýta undir hatur milli þjóðarbrotanna. Þannig er bannað að skilgreina menn eftir því hvort þeir tilheyra ættflokki Hútúa eða Tútsa og allur samansafnaður manna í félög á grundvelli þjóðernis. “Við erum öll íbúar Rúanda” er mantran og því er trúað að sé hún endurtekin nógu oft fenni yfir blóði fyllt spor sögunnar. Þessi löggjöf er þó misnotuð nokkuð reglulega til þess að koma verðugum andstæðingum í traustar hendur fjarri augum almennings og segja margir að megintilgangur þeirra sé í raun sá að hefta framgang Hútúa (sem eru enn 85% þjóðarinnar) með þeim meðölum að þeim er meinað að skipuleggja sig á grundvelli þjóðerinsuppruna síns. Leið Suður-Afríku hefur ekki verið farin og opinskátt uppgjör þjóðarmorðanna 1994 hefur í raun aldrei farið fram og leið harðjaxla heimsins verið valin. Bítið á jaxlinn og tíminn mun lækna sárin.
Má segja að afstaða vesturlanda til Kagame sé nokkurn vegin á þann veg að hin hraða efnahagslega þróun landsins gefi svigrúm fyrir bágri stöðu mannréttindamála en landið þiggur háar upphæðir í þróunarframlög ár hvert frá vesturlöndum sem reyna þannig að kaupa sér frið frá nagandi samviskubiti vegna fortíðarinnar en Bretland eitt og sér styrkir landið um 70 milljónir punda ár hvert. Hvort þessi afstaða á rétt á sér eða ekki skal ósagt látið en í mínum huga hljóta réttindi íbúana til manngildis ávallt að eiga að njóta vafans. Fyrrum sendiherra Bandaríkjana í Búrúndi 1994-1995, Robert Krueger, er þeirrar skoðunar en hann sagði í nýlegri grein um úrslit kosninganna sem þá voru á næsta leiti: “Margir úr viðskiptalífinu og hagfræðingar munu gleðjast yfir því að valdhafar þess ríkis í mið-Afríku sem vex hraðast efnahagslega hafi unnið enn einn sigurinn. Aðeins réttlæti, lýðveldi og hinn þögli og óttaslegni meirihluti fólksins í Rúanda mun hafa tapað.”
- Að vinna að framgangi lífsins - 6. apríl 2012
- Kony 2012 – skilar þetta einhverju? - 21. mars 2012
- Rússnesk varðstaða um einræðisherra - 5. febrúar 2012