Þann 20 ágúst n.k. mun fjöldamorðinginn Abdelbaset Ali Mohmed Al Megrahi, fagna því að eitt ár er liðið frá því að hann var látinn laus úr fangelsi. Hann var fundinn sekur um yfir 270 morð þegar hann sprengdi bandaríska farþegaflugvél í loft upp, yfir bænum Lockerbie, rétt fyrir jólin 1988.
Sú ákvörðun vakti mikla reiði víða, líkt og áður hefur verið fjallað um hér á Deiglunni. Hillary Clinton brást hart við þessum tíðindum, enda ekki að skapi að fjöldamorðingjar á bandarískum þegnum hljóti svo blíðar móttökur hjá breskum vinum sínum. Ástæðan sem kokkuð var upp var að Megrahi væri svo veikur, að honum yrði að sleppa af mannúðarástæðum. Aðstandendum fórnarlambanna og annarra til lítils skilnings.
Fljótt komst þó upp um að Gordon Brown hafði haft puttana í þessari frelsun Megrahi þó svo hann hafi í fyrstu fastlega neitað að um slíkt væri að ræða og brást hart við þegar borið var upp á hann að mögulegir samningar við olíuvinnslu í Líbýu væri forsenda þessa. En Megrahi er frá Líbýu og vann ódæðin að öllum líkindum fyrir hönd Gaddafi. Skýringar Brown héldu þó ekki nema í nokkra daga, þegar Jack Straw utanríkisráðherra viðurkenndi í breskum fjölmiðlum að vissulega hefðu alþjóðlegir viðskiptasamningar haft mikla þýðingu þegar ákvarðað var að sleppa Megrahi úr fangelsi. En samningarnir áttu að veita British Petroleum (BP) rétt til vinnslu í Líbýu. En það fyrirtæki stendur nú í ströngu vegna mikils olíuleka fyrir utan strönd Bandaríkjanna.
Það má þó ekki gleyma því, að þótt að ríkisstjórn Gordon Browns hafi haft lítinn áhuga á að halda dæmdum hryðjuverkamanni bak við lás og slá, þá sá hann sér fært að nota hryðjuverkalöggjöf landsins gegn vopnlausri, friðelskandi þjóð sem er jafnframt meðlimur að Atlantshafsbandalaginu.
Móttökur Megrahi í Líbýu var líkt og um rokkstjörnu væri að ræða. Miklar sýningar og fagnaðarhöld voru viðhöfð og Gaddafi, fannst lítil skömm vera af útsendara sínum. Hefði samningur milli Gaddafi og Browns, verið framsalssamningur hefði Megrahi þurft að vera færður í fangelsi í Líbýu. En þar sem ákvörðunin var að sleppa honum af „mannúðarástæðum“ var hann laus allra mála og því vel veisluhæfur í skrúðgöngum sér til heiðurs í Trípólí.
Lukkan heldur líka áfram að brosa við Megrahi, en þegar honum var sleppt úr haldi var það sagt vera vegna þess að hann væri svo veikur, að hann myndi ekki endast ofanjarðar lengur en í þrjá mánuði. Sem var forsenda þess að honum yrði sleppt af mannúðarástæðum. Nýjustu fregnir herma þó að hann geti jafnvel búist við að lifa heilan áratug í viðbót. Og það sem þjóðhetja.
Þessi furðulega ákvörðun heimastjórnarinnar í Skotlandi og hlutverk Downingstræti 10, hefur aftur komist upp á borðið, eftir að utanríkismálanefnd bandaríska þingsins sendi opið bréf til Hillary Clinton utanríkisráðherra og kröfðust þess að utanríkisráðuneytið myndi rannsaka þennan gjörning. En þetta gerist í kjölfarið á því að stjórnendur BP hafa viðurkennt að hafa þrýst mjög á breska stjórnmálamenn að leysa Megrahi úr haldi, svo þeir myndu fá leyfi til olíuvinnslu undan ströndum Líbýu. Hafa nokkrir þingmenn krafist þess að BP stöðvi alla starfsemi sína sem viðkemur Líbýu og sagt að það sé krafa að fyrirtækið eigi ekki að fá að hagnast á þeirri starfsemi.
Í öðru opnu bréfi sem sent var til John Kerry, fyrrum forsetaframbjóðanda og núverandi formanns utanríkismálanefndarinnar er sagt að „viðskiptalegir hagsmunir, olíu eða aðrir, ættu aldrei að forgangsraða framar en réttlæti fyrir fórnarlömb hryðjuverka og refsingu til handa dæmdum hryðjuverkamönnum.“ Fáir geta verið ósammála þeirri fullyrðingu.
David Cameron núverandi forsætisráðherra, hefur sagt að það hafi verið mistök að leysa Megrahi úr haldi og sendi samúðarkveðjur til aðstandenda þeirra 270 einstaklinga sem létu lífið af hans höndum. En Cameron tók við sem forsætisráðherra, eftir að Gordon Brown hafði leitt fyrstu og einu kosningabaráttu sína fyrir Verkamannaflokkinn með snautlegum árangri, eftir óslitna sigurgöngu forvera síns, Tony Blair.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021