Umræðan um Evrópusambandið hefur farið stigvaxandi síðan Ísland gekk í Evrópska Efnahagssvæðið. Hún náði ákveðnu hámarki í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008 þegar stuðningur við inngöngu Íslands í Evrópusambandið náði sögulegu hámarki. Í kjölfar þingkosninganna í maí 2009 tók Alþingi Íslendinga lýðræðislega ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og nýlega samþykkti Evrópusambandið beiðni Íslendinga um aðildarviðræður.
Þjóðin virðist vera margklofin í málinu, sumir vilja ganga í sambandið, aðrir ekki. Sumir vilja ekki taka afstöðu fyrr en fyrir liggur hverskonar samningur okkur býðst, meðan aðrir vilja hreinlega draga aðildarbeiðnina tilbaka. Þjóðfélagsumræðan um Evrópusambandið endurspeglaðist að mörgu leyti í landsfundum stjórnmálaflokkanna sem haldnir voru í síðasta mánuði, en afstaða Sjálfstæðisflokksins fékk mikla athygli.
Í stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins stendur orðrétt að Sjálfstæðisflokkurinn vilji:
„Lýðræðislegri ákvarðanatöku og gagnsæi. Almenningur á að fá tækifæri til að hafa meiri áhrif á eigin hag, bæði með auknu valfrelsi og aðkomu að ákvarðanatöku hins opinbera. Jafnframt ber í auknum mæli að bera stærri mál undir þjóðaratkvæði. Sjálfstæðisflokkurinn setur fram þá skýru kröfu að umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði dregin til baka án tafar.“
Glöggir menn sjá strax þversögnina í þessum hluta ályktunarinnar, en Sjálfstæðisflokkurinn vill í stuttu máli að þjóðin fái að taka aukin þátt í stóru ákvörðunum sem varða alla þjóðina í formi þjóðaratkvæðagreiðslna… nema um Evrópusambandið. Stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins endurspeglar að mörgu leyti viðhorf sem er ríkjandi hjá mörgum Íslendingum. Nú þegar samningaferlið er að hefjast er fólk í auknum mæli ósammála um viðræðurnar. Einhverjir eru komnir á þá skoðun að draga eigi umsóknina tilbaka og bera það fyrir sig að það sé ekki tímabært fyrir Ísland að sækja um aðild, umsóknarferlið sé of kostnaðarsamt (en finnst samt í lagi að hafa eytt fúlgum fjár í umsóknarferlið hingað til sem þá færi til einskis) og að okkur muni ekki bjóðast viðunandi samningur. Aðrir eru á móti aðildarviðræðum því þeir eru einfaldlega á móti Evrópusambandinu óháð stað, stund og ríkisfjármálum.
Umræðan um Evrópusambandið er oftar en ekki á sorglega lágu plani. Fólk sem er á móti Evrópusambandinu reynir að sannfæra landann um að það sé ekkert vit í að ganga í þetta bandalag, sem augljóslega er ekkert annað en hernaðarbandalag. Og hver vill eiginlega senda syni Íslands í her??? Meðan þeir sem eru fylgjandi sambandinu reyna að sannfæra landann um að bókstaflega allt verði betra með inngöngu í sambandið, heimilin, ríkisfjármálin, fólk verður jafnvel tanaðara, gáfaðra og örugglega fallegra. Þessi umræða hefur augljóslega ekkert upp á sig. Staðreyndin er sú að hversu fróðir sem menn eru um Evrópumálin, eru fæstir skyggnir og enginn veit raunverulega hverskonar samningur okkur býðst.
Það er kominn tími til þess að við Íslendingar, og ekki síður íslensk stjórnmál, hættum að sveiflast eftir nýjust Gallup könnun. Hvort heldur sem menn eru Evrópusinnar eða ekki, hljóta þeir að sjá að það er beinlínis nauðsynlegt að útkljá þetta mál sem hefur skipt Íslendingum í tvo hópa allt frá inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið, og jafnvel löngu fyrr. Íslendingar hafa þrætt um Evrópusambandið í áratugi og þrætan hefur orðið háværari og háværari undanfarin ár. Það er kominn tími til þess að lægja þessar öldur, sjá hvernig samning okkur Íslendingum býðst raunverulega í stað þess að þræta endalaust um hann á grundvelli getgátna. Leyfum síðan þjóðinni, ekki stjórnmálaflokkum, að ákveða hvað er henni fyrir bestu, hvort hún sjái hag sínum betur borgið innan Evrópusambandsins eða utan. Ef samningurinn er ekki viðunandi, þá hafnar þjóðin einfaldlega samningnum.
Ég spyr stuðningsmenn þess að aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu verði dregin tilbaka, hvað þeir óttist. Óttast þeir þjóðina?
- Hvað verður um Evrópusambandið? - 10. desember 2011
- 540 daga stjórnarkreppa á enda – bara efnahagskreppan eftir - 3. desember 2011
- Vald án ábyrgðar - 20. apríl 2011