Konungsfjölskyldur heimsins eru eftirlæti margra og eru oft mjög vinsælar í sínum heimalöndum. Almenningur fylgist með lífi og leik fjölskyldnanna í slúðurblöðunum og fyrir marga er gifting í konungsfjölskyldum stórhátíð, sem réttlætir það að taka sér frí úr vinnu til að fylgjast með athöfninni í sjónvarpi. En eru konungsfjölskyldurnar ekki að verða úreltar og hvað skyldu þessi eintómu herlegheit kosta fyrir skattgreiðendur?
Nú þegar flestar þjóðir heimsins þurfa að skera niður í opinberum útgjöldum minnast konungsríki heimsins ekki einu orði á að það þurfi að skera niður hjá hinum hábornu. Það getur líka verið stórhættulegt að minnast á slíkar aðgerðir við þá sem dýrka og dá þessar fjölskyldur. Meira að segja margir Íslendingar súpa hveljur ef maður tala illa um Margréti Þórhildi Danadrottningu og hvæsa á mann ef maður gagnrýnir krúttsprengjurnar Harry og William.
En hver er ástæðan fyrir því að konungsríki heimsins sjá sér ekki fært að skera niður í útgjöldum til konungsfjölskyldnanna? Er íhaldssemin virkilega svo mikil að ekki sé hægt að taka skrefið og leggja þessar skrautfjaðrir niður? Eina sem konungsfjölskyldur virðast gera í dag er að fara í heimsóknir til hvors annars, taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum og veita orður og verðlaun. Nánast öll völd virðast hafa verið tekin af þeim og eftir sitja þeir konungsbornu og sjúga pening frá skattgreiðendum.
Það kostar til dæmis breska skattgreiðendur 7,6 miljarða króna að reka bresku konungsfjölskylduna. Í þeim tölum er þó ekki gert ráð fyrir kostnaðinum við löggæslu, sem lögreglan eða herinn veitir í formlegum athöfnum á vegum konungsfjölskyldunnar. Danir eyða þó enn meiru í háborna fólkið sitt eða rúmlega 8,4 milljarða króna á hverju ári. Norðmenn eyða þó öllu minna en Bretar og Danir, en þeir láta sér nægja að blæða tæpum 2,8 milljörðum króna á ári til að sjá um rekstur konungsfjölskyldunnar.
Til samanburðar kostar það Ísland 217 milljónir á ári að reka forsetaembættið. Þrátt fyrir að það megi finna mjög marga galla á því að reka slíkt embætti er það þó skömminni skárra en að halda heilu fjölskyldunni uppi, sem sinnir sömu erindagjörðum. Því ef menn telja sig knúna til að hafa þjóðhöfðingja til að sinna kaffiboðum, fara í einkaþotur viðskiptajöfra og halda ræður á þjóðhátíðardögum þá mæli ég frekar með einu stykki Ólafi Ragnari en Margréti Þórhildi og fjölskyldu.
Því verður áhugavert að fylgjast með umræðunni í konungsríkjum heimsins á meðan kreppan skellur yfir og niðurskurður bíður ríkisstjórnanna. Verður fólkið með blá blóðið fyrir niðurskurðahnífnum eða verða þau undir sama verndarvæng og áður.
- Vanhugsuð friðun - 10. janúar 2012
- Obama náði Osama - 5. maí 2011
- Stjórnlagaþingsklúður - 29. nóvember 2010