Næstkomandi föstudag verður flautað til leiks á Soccer City-leikvanginum í Jóhannesarborg þegar gestgjafarnir, Suður-Afríka, taka á móti Mexíkó í opnunarleik HM í knattspyrnu. Keppnin er nú haldin í fyrsta skipti í Afríku og er öllu tjaldað til í syðsta hluta álfunnar svo enginn verði fyrir vonbrigðum með viðburðinn, hvort sem það eru keppendur, áhorfendur á pöllunum eða fólkið heima í stofum heimsins.
Heimsmeistaramótið í knattspyrnu er vinsælasti íþróttaviðburður í heimi og þar af leiðandi gríðarleg landkynning sem felst í því að halda keppnina. Jafnan er talað um að efnahagur gestgjafanna vænkist þó nokkuð á meðan á keppni stendur sem og í kjölfarið á henni en skiptar skoðanir eru um þau áhrif sem hún mun hafa í Suður-Afríku.
Það þarf enginn að efast um ágæti þess að í aðdraganda keppninnar voru endurgerðir fimm knattspyrnuleikvangar og byggðir fimm nýir vellir til viðbótar. Það þykir þó í raun aðeins sjálfsagður hlutur fyrir fótboltakeppni af þessari stærðargráðu og hefur kannski ekki svo mikið að segja fyrir hinn almenna Suður-Afríkubúa. Það sem þó kemur til með að gagnast suður-afrísku þjóðinni til lengri tíma er sú staðreynd að samgöngukerfi landsins var stórbætt vegna heimsmeistaramótsins. Þjóðvegir landsins hafa verið betrumbættir, almenningssamgönur einnig og fyrsta háhraðalest Suður-Afríku, Gautrain, verður tekin í gagnið.
Að öðru leyti efast suður-afríska þjóðin um það að keppnin hafi einhver langtímaáhrif á lífsgæði fátækustu íbúa landsins. Þeir óttast að um leið og knattspyrnustjörnurnar hverfa á braut, og glansmynd keppninnar dofnar, verði allt eins og áður og að þeir ríku verði aðeins ríkari; að yfirstétt landsins hirði allan „HM-gróðann“. Aðalmaðurinn á bak við það að fá HM til Suður-Afríku, Danny Jordaan, hefur að sjálfsögðu mótmælt þessari staðhæfingu harðlega.
Að mati Jordaans mun HM ekki aðeins skilja eftir sig glæsilega knattspyrnuleikvanga og ánægjulegar minningar. Hann hefur bent á að allar þær umbætur sem gerðar hafa verið vegna mótsins komi ferðamannaiðnaðinum sérstaklega til góða. Ekki aðeins hefur samgöngukerfi landsins verið stórbætt heldur einnig alþjóðaflugvellir. Auk þess hafa hótel og gistihús sprottið upp vegna keppninnar og er vonast til þess að tekjur af ferðamönnum aukist til muna til lengri tíma litið.
Burtséð frá öllum spám um hvaða áhrif HM mun hafa á efnahag gestgjafanna, hver verður heimsmeistari eða markakóngur er ljóst að allir vonast til þess að mótið gangi vel fyrir sig og að Suður-Afríka, og Afríka öll, fái eitthvað meira út úr því en bara þrjátíu daga langa auglýsingu sem verður svo gleymd og grafin um leið og bikarinn fer á loft þann 11. júlí.
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021