Búið er að telja upp úr kjörkössunum og úrslit borgarstjórnarkosninganna eru ljós. Besti flokkurinn er sigurvegari kosninganna, Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi en má vel við una, Samfylkingin tapar fylgi, Vinstri grænir tapa einnig frekar óvænt fylgi og Framsóknarflokkurinn þurrkast hreinlega út. Aðrir flokkar mælast vart.
Úrslitin í Reykjavík eru í raun söguleg. Besti flokkurinn, sem fór af stað sem grínframboð er nú orðinn stærsta stjórnmálaaflið í höfuðborginni. Það í sjálfu sér er áfall fyrir hina flokkana að kjósendur geti frekað hugsað sér að kjósa grínframboð en gömlu flokkana.
Öllu gríni fylgir hins vegar einhver alvara og daginn eftir kjördag er framboð Besta flokksins orðið fúlasta alvara. Besti flokkurinn er stærstur í Reykjavík með 6 borgarfulltrúa og mun hafa mikil áhrif á stjórn borgarinnar, sama hvernig meirihlutasamstarfi verður háttað. Endurnýjun í borgarstjórn kemur öll í gegnum Besta flokkinn og er ánægjulegt að sjá nýtt og ferskt fólk koma inn í borgarmálin.
Besti flokkurinn er samt ennþá algjörlega óskrifað blað. Kjósendur vita nákvæmlega ekkert hvernig fulltrúar Besta flokksins hyggjast stýra borginni. Jón Gnarr, oddviti listans, hefur talað um að gera sitt besta og leita til þeirra sem þekkja málin betur en hann. Þar á hann væntanlega við embættismenn borgarinnar, en fólk hlýtur að velta vöngum yfir því hversu góð hugmynd það er að láta embættismenn taka ákvarðanir um hag borgarbúa sem ekki hafa kosið þá til þeirra starfa.
Enginn þarf að efast um að Jón Gnarr vill Reykjavíkurborg vel og er heiðarlegur í því að hann vilji gera sitt allra besta. Það er þó vægast sagt óþægilegt að hafa ekki eina einustu hugmynd hvaða leiðir flokkurinn hans vill fara. Hvernig munu þeir hagræða í borginni? Munu skattar hækka? Hvað verður um flugvöllinn? Hvernig mun skipulagsmálum verða háttað? Öllum þessum spurningum ásamt öðrum er ósvarað en það skiptir stóran hluta kjósenda greinilega litlu máli. Það er kannski einmitt punkturinn að óánægjan er orðin slík með stjórnmálamenn og stjórnvöld yfir höfuð að fólki er sama hvernig borginni er stýrt svo lengi sem gömlu stjórnmálamönnunum er komið frá og nýtt og ferskt fólk kemst að.
Útkoma Sjálfstæðisflokksins er auðvitað ákveðin vonbrigði, flokkurinn tapar fylgi og missir tvo menn. En miðað við kannanir fyrir kosningar og allt það sem á undan er gengið í Sjálfstæðisflokknum getur hann verið sáttur við að ná þó þessu fylgi og er í raun góður varnarsigur. Mikið af fylginu er líklega komið til mikillar ánægju borgarbúa með Hönnu Birnu, borgarstjóra. Hún nær vel til fólks og nýtur fylgis langt út fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Niðurstöðurnar kosninganna eru þó ekki síst áhugaverðar þegar horft er til þess hversu miklu fylgi vinstri flokkarnir tapa. Samfylkingin tapar fylgi og missir einn mann. Sérstaklega eru þó Vinstri grænir að koma einstaklega illa út og náði oddviti þeirra rétt svo inn í borgarstjórn. Eftir Alþingiskosningarnar 2009 var mikið talað um að vinstri sveifla væri að ríða yfir landið og frjálshyggjunni hefði verið kastað á haugana. Þessi vinstri sveifla virðist því búin ef litið er til útkomu vinstri flokkana í borginni. Mikil óánægja er með störf ríkisstjórnarinnar og það virðist skína í gegn í fylgi þessara flokka í borginni. Vinstri grænir og Samfylkingin eru að gjalda fyrir verk, já eða skort á verkum ríkisstjórnarinnar.
Oft er talað um hið svokallaða óánægjufylgi en í hverjum kosningum er alltaf ákveðinn hópur sem er óánægður með ríkjandi stjórnvöld og heimtar breytingar. Oft hefur þetta fylgi einmitt ratað til Vinstri grænna og að einhverju leyti til Samfylkingarinnar. Nú er hins vegar kominn fram nýr valkostur, Besti flokkurinn, sem sogar allt þetta fylgi til sín. Eftir standa því Vinstri grænir og Samfylkingin með berstrípað kjarnafylgi sitt, sem er nú ekki meira en rúm 26% samanlagt. Þessir flokkar eru því hreinlega ekki stærri en þetta þegar óánægjufylgi bætist ekki ofan á.
Dagurinn í dag og næstu dagar verða athyglisverðir í höfuðborginni. Enginn flokkur er með hreinan meirihluta en Besti flokkurinn er í aðstöðu til að mynda meirihluta með Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum. Þessir tveir flokkar gætu svo myndað meirihluta saman, jafnvel kippt Vinstri grænum með og skilið Besta flokkinn eftir.
Oddvitar flokkana hafa þó talað um að bera virðingu fyrir úrslitum kosninganna og þeim vilja kjósenda um breytingar í borginni sem sést með sterku fylgi Besta flokksins. Það hlýtur því að teljast nokkuð líklegt að mynduð verði einhvers konar þjóðstjórn í borginni með aðkomu allra flokka. Hver yrði þá borgarstjóri í slíkri stjórn? Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin hafa báðir sýnt mikla hógværð og segjast ekki munu gera kröfu um borgarstjórastólinn. Vinstri grænir eru ekki aðstæðu til að gera kröfu um eitt né neitt. Jón Gnarr situr því eftir með pálmann í höndunum.
Hvaða leið hann velur verður spennandi að sjá á næstu dögum.
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021