Á tímum þar sem fólk hefur úr litlu að moða og ríkisstjórnin hefur verið að hækka skatta af miklum móð, skiptir meira máli en ella að fjármálastjórnin verði skynsamleg hjá öðrum stjórnvöldum. Að ríkissjóð Íslands undanskildum er borgarsjóður stærsta einstaka einingin innan stjórnkerfisins.
Venjulegt launafólk greiðir drjúgan hluta af sköttum til borgarinnar í formi útsvars. Verði ekki vel haldið á málum á vettvangi borgarinnar er hætt við því að leita þurfi í vasa skattgreiðenda í Reykjavík eða fara út í meiriháttar lántökur til þess að fjármagna reksturinn.
Einhverjum kann að finnast heldur óspennandi og leiðigjarnt að verja atkvæði sínu með þessum hætti. En atkvæðið í dag gildir til fjögurra ára. Í sveitarstjórnum er ekki unnt að boða til kosninga með öðrum hætti en á fjögurra ára fresti. Þeir sem fá umboð kjósenda í dag halda því í þennan tíma, sama hvað tautar og raular.
Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur sýnt það á þeim tveimur árum sem hún hefur verið borgarstjóri að hún veldur því verkefni vel. Samstarf flokkanna í borgarstjórn hefur verið annað og betra undir hennar stjórn heldur en dæmi eru um áður. Á næstu fjórum árum mun það skipta miklu máli fyrir borgarbúa að borginni verði stjórnað í góðri samvinnu og með skýra sýn að leiðarljósi. Þrátt fyrir að stjórnmálastéttin sé í mikilli krísu um þessar mundir og njóti lítils trausts eru sennilega fáir tilbúnir að fara svo langt að eftirláta embættismönnum alfarið að ráða ferðinni.
Stjórnmálamenn hafa þrátt fyrir allt mikilvægu hlutverki að gegna við að setja stefnu og fylgja henni eftir. Þó það geti vissulega verið spennandi tilhugusun að gera dálítið grín að kjörnu fulltrúunum þá er það ákallandi spurning hvort það sé skynsamlegasta valið til fjögurra ára.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021