Bastían bæjarfógeti í gallabuxum og skyrtu, spilling fyrir opnum tjöldum, ísbjörn í Húsdýragarðinn, frítt í strætó fyrir námsmenn og aumingja, blár rafmangshúsbíll fyrir borgarstjóra, hlusta meira á konur og gamalt fólk, fangelsi á Kjalarnesi fyrir hvítflibba-krimma, frítt í sund fyrir alla, ókeypis handklæði svo allir komist þurrir og lifandi heim til fjölskyldunnar sinnar og alls konar meira fyrir aumingja. Það er ljóst að Besti flokkurinn býður uppá spaugileg, brosleg en jafnframt undarleg stefnumál fyrir reykvíska kjósendur þetta árið.
Besti flokkurinn, sem býður nú fram í borgarstjórnarskosningum í fyrsta sinn, lítur út fyrir að vera ákveðin háðsádeila á þau stjórnmálaöfl sem fyrir eru og þann skrípaleik sem hluti almennings telur fara fram innan borgarstjórnar. Flokkurinn sópar að sér fylgi í borginni og er augljóst að borgarbúum þykir nóg komið af átökum milli flokka – fólkið kallar á samstöðu og árangur – og líka svolítið grín.
Ádeiluframboð hafa nokkrum sinnum skotið upp kollinum í íslenskri stjórnmálasögu en ljóst er að meðbyr Besta flokksins er sögulegur og gæti mögulega vakið heimsathygli ef niðurstöður nýlegra skoðanakannana verða að veruleika. Á dögunum birtist könnun sem MMR gerði fyrir Sjálfstæðisflokkinn á fylgi flokkanna í Reykjavík en ef marka má niðurstöðurnar er Besti flokkurinn nú stærsti flokkurinn í borginni og fengi flesta menn kjörna inn í borgarstjórn eða sex talsins. Blaut taska framan í núverandi stjórnmálaöfl og skýr skilaboð um breytingar. Grín á kostnað annarra stjórnmálaafla – fjölda borgarbúa til mikillar ánægju.
En hvenær endar grínið og hvar hefst alvaran? Manni er spurn hvernig grínararnir í Besta flokknum ætla að grína sig í gegnum borgarráðsfundi, borgarstjórnarfundi, ótal nefndarfundi og gífurlegan niðurskurð. Þetta er veruleikinn sem bíður þeirra einstaklinga sem starfa munu innan borgarstjórnar eftir kosningar – bláköld staðreynd sem blasir við öllu stjórnmálalandslagi á Íslandi í dag. Það skal þó áréttað og ekki dregið í efa að skemmtikraftar, rétt eins og allar aðrar starfsstéttir, geta verið fullkomlega vel til þess fallnir að starfa innan stjórnmála enda mikilvægt að stjórnmálamenn endurspegli ákveðinn þverskurð af samfélaginu öllu. En er ákjósanlegt að breyta borgaramálunum í grín?
Að borgarstjórnarkosningum afstöðnum á Besti flokkurinn tvo valmöguleika í hendi sér: flokkurinn getur ýmist haldið áfram með grínið eða ákveðið að taka stöðu sína innan borgarstjórnar alvarlega. Ákveði Besti flokkurinn að láta af spauginu og taka af alvöru þátt í starfsemi borgarstjórnar má spyrja hvort í því felist ekki ákveðin öfugmæli? Þegar Besti flokkurinn hefur fengið gífurlegt fylgi vegna háðsádeilu á kerfið, er þá ekki töluverð hræsni að láta svo af gríninu og taka þátt í kerfinu sem gagnrýnt var? Er Besti flokkurinn þá einhverju betri en ríkjandi stjórnmálaöfl í borginni? Ákveði flokkurinn hins vegar að halda áfram með grínið og berjast fyrir ísbirni í Húsdýragarðinn og ókeypis handklæðum í sundi er framboð flokksins ekki lengur á kostnað ríkjandi stjórnmálaafla í borginni. Nei. Framboðið er þá á kostnað okkar borgarbúa – og er það niðurstaðan sem við viljum? Er það best fyrir okkur?
- Hjólaborgin - 16. júní 2021
- Brúarsmíði í borginni - 18. maí 2021
- Eftir hverju erum við að bíða? - 14. apríl 2021