Þann 30. maí nk. fer fram fyrsta umferð í forsetakosningunum í Kólumbíu og eru tíu manns í framboði, þar af ein kona. Ef enginn frambjóðandi fær meirihluta atkvæða í fyrstu umferð fer fram önnur umferð þann 20. júní, og samkvæmt skoðanakönnunum mun kólumbíska þjóðin þá velja á milli þeirra Juan Manuel Santos, fyrrum varnarmálaráðherra landsins, og Antanas Mockus, fyrrum borgarstjóra í Bogotá.
Kólumbía er í hugum margra illræmdasta land Rómönsku Ameríku enda ekki þekkt í Bandaríkjunum og Evrópu fyrir mikið annað en borgarastyrjöld og gríðarlegan fíkniefnaútflutning. Á síðasta áratug hefur ástandið í landinu þó batnað mikið og stjórnvöldum hefur meðal annars tekist að hemja skæruliða FARC að miklu leyti. Má það þakka núverandi forseta, Álvaro Uribe, en forgangsatriði í hans valdatíð hefur verið að berja niður skæruliðahernað í landinu.
Í þeirri baráttu hefur Uribe átt bandamann í Juan Manuel Santos en forsetaframbjóðandinn er mjög hernaðarsinnaður og harðsvíraður í baráttu sinni við skæruliðana. Hann vill setja öryggi Kólumbíubúa á oddinn með því að fjölga í her landsins en það er nágrönnum hans í Venesúela ekki að skapi. Hugo Chavez hefur nú um nokkurt skeið haft horn í síðu Kólumbíu vegna samstarfsins við Bandaríkjamenn í fíkniefnastríðinu svokallaða. Það þykir næsta víst að ef Santos nái kjöri mun Chavez ekki hugsa sig lengi um áður en hann fer í stríð við Kólumbíu, þar sem hann sér aukinn herstyrk landsins sem ógn við sig og sína þegna.
Santos er lítið vinsælli í Ekvador þar sem er í gildi handtökuskipun á hann, komi hann einhvern tímann inn í landið. Handtökuskipunin var gefin út fyrir tveimur árum að beiðni forseta Ekvador, Rafael Correa, en kólumbíski herinn hafði þá nýlega skotið til bana meðlimi FARC sem földu sig í frumskógi Ekvador. Auk þess létust í árásinni mexíkóskir stúdentar sem voru í fylgd skæruliðanna sem og einn ekvadorískur ríkisborgari. Santos, sem var varnarmálaráðherra Kólumbíu, hafði ekki leyfi frá ekvadorískum stjórnvöldum til að skipa fyrir um árás kólumbíska hersins í landi Ekvador. Correa brást ókvæða við en talið er líklegt að Bandaríkjamenn hafi að miklu leyti skipulagt umrædda árás frá herstöð sinni í Manta, borg á strönd Ekvador þar sem pistlahöfundur býr. Correa var heldur ekki lengi að losa sig við herstöðina; henni var lokað á síðasta ári.
Helsti keppinautur Santos, áðurnefndur Antanas Mockus, er að miklu leyti algjör andstæða hans. Mockus er ólíkt Santos enginn atvinnustjórnmálamaður; þegar hann bauð sig fram sem borgarstjóra í Bogotá hafði hann aldrei áður haft nein afskipti af stjórnmálum. Hann er kallaður „el loquito“, „hinn klikkaði“, þar sem hann beitti afar óvenjulegum aðferðum við að tryggja öryggi íbúanna í höfuðborg landsins. Mockus er menntamaður og hans stjórnmálaheimspeki snýst í stuttu máli um það að nota kennslu til að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd. Hann leit á Bogotá sem kennslustofu með sex og hálfri milljón nemenda og aðferðirnar sem hann beitti voru frumlegar og framandi. Sem dæmi má nefna að til að bæta umferðaröryggi réð Mockus mæm-leikara sem hermdu eftir gangandi vegfarandum sem fóru ekki eftir umferðarreglunum og gerðu óspart grín að bílstjórum sem brutu einnig reglurnar. Það er skemmst frá því að segja að látnum í umferðinni í Bogotá fækkaði úr 1300 manns á ári í 600 og náði Mockus ágætum árangri í borginni með öðrum svipuðum aðgerðum.
Samkvæmt skoðanakönnunum mun Mockus sigra Santos í síðari umferð kosninganna í júní. Kosningarnar snúast nefnilega um öryggi borgaranna og þeir vilja síst af öllu stríð við nágrannana í Chavez-ríki. Mockus virðist hafa sannað það fyrir meirihluta þjóðarinnar, sem borgarstjóri í Bogotá, að hann getur tryggt öryggi og bætt samfélagið án þess að beita herstyrk landsins, ofbeldi eða ógnunum. Hvernig „hinum klikkaða“ gengur svo með 46 milljón nemenda í skólastofunni, heila þjóð, nái hann kjöri sem forseti Kólumbíu, mun koma í ljós.
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021