Nú eru liðnir liðlega 17 mánuðir frá því að hin svokallaða Búsáhaldarbylting hófst. Flestum eru þessir atburðir enn í fersku minni og mun viðfangefni þessarar greinar ekki vera um þá pólitísku eða samfélagslegu útkomu sem kom í kjölfar byltingarinnar heldur verður sjónum beint að þeim sem fóru hvað mestu offari í mótmælunum sjálfum og hafa nú verið dregnir fyrir dómstóla vegna þess.
Mál nímenninganna svokölluðu, sem höguðu sér hvað verst í mótmælunum við Alþingishúsið, komst í hámæli nú í vikunni þegar hópur fólks vildi fá að vera viðstaddur málsmeðferðina fyrir héraðsdómi en sökum plássleysis í réttarsalnum var slíkt ekki möguleiki að mati dómara og í framhaldinu brutust út átök milli lögreglu og mótmælendanna. Þeir sem mótmæltu halda því fram að það sé fáranlegt að dæma fólk fyrir að hafa tekið þátt í mótmælunum.
Einn þeirra sem er þessarar skoðunar er Bjarni Karlsson sóknarprestur en hann lét hafa eftir sér nokkur athyglisverð ummæli í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 12. maí síðastliðinn. Þar sagði Bjarni m.a. að ef nímenningarnir yrðu dæmdir í eins til tólf ára fangelsi fyrir það að verja lýðræðið í landinu þá væri verið að ráðast að siðvitund íslensku þjóðarinnar.
Þarna er presturinn á nokkrum villigötum. Það að halda því fram að ekki megi refsa fólki sem framdi bein og skýr lögbrot í þessum mótmælum er fásinna. Greinilegt er að presturinn hefur ekki hitt lögreglumanninn sem hlaut varanlega örorku þegar mótmælin stóðu sem hæst. Hvar er réttur hans í þessu máli, fær hann ekki að sækjast eftir réttlæti af því að það voru mótmæli á götum úti sem réttlæta þessa líkamsárás á hann? Þá eru ótaldir þeir lögreglumenn sem meiddust illa í mótmælunum og hafa þurft að fara í aðgerðir eða leita læknishjálpar og eru ekki ennþá búnir að ná fullum bata. Það er með hreinum ólíkindum að maður sem gengur á guðsvegum skuli láta hafa slíkt eftir sér. Í þessu samhengi er einnig gott að rifja upp orð Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta, hann sagði að fólk yrði að hafna þeirri fjarstæðu að í hvert sinn sem lög eru brotin þá sé samfélagið sökudólgurinn frekar en sjálfur lögbrjóturinn, fólk verður að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Nímenningarnir verða að bera ábyrgð á gjörðum sínum.
Það skal ítrekað að það er lýðræðislegur réttur fólks að mótmæla, enda er ekki nokkur maður að andmæla því, heldur er algerlega fáranlegt að andmæla því að fólk eigi ekki að vera dregið til saka fyrir að gera eitthvað sem flokkast undir gróf lögbrot eins og að ganga svo illa í skrokk á einstaklingi að hann hljóti varanlega örorku, líkt og kom fyrir einn lögreglumanninn sem einfaldlega var bara að vinna sína vinnu.
Það sem einnig stendur upp úr í þessu máli er hegðun VG þingmannsins Björns Vals Gíslasonar en hann lagði fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að skrifstofustjóra Alþingis verði falið að fara þess á leit við ríkissaksóknara að hann dragi til baka ákæruna á hendur nímenningunum! Það er hreinlega svo margt rangt við þessa tillögu þingmannsins að höfundi fallast hendur! Ef þessi tillaga myndi ná fram að ganga væri hún sennilega mesta spillingarplagg íslensku þingsögunar.
Er það greinilegt að þingflokkur Vinstri-grænna ætlar ekki að deyja ráðalaus við að reyna að bjarga vinum sínum úr Búsáhaldarbyltingunni frá dómi. Einnig er það hreinlega skandall að þingheimur skuli reyna að hafa bein áhrif á dómstóla landsins – það er greinilegt að Björn Valur hefur ekki heyrt um þrískiptingu ríkisvaldsins.
Að lokum tel ég nauðsynlegt að minnast á það sem vel fór í Búsáhaldarbyltingunni, mörgum er það ennþá minnistætt þegar nokkrir mótmælendur sem gengu um með appelsínugul bönd, gengu á milli og byrjuðu að verja lögreglumennina fyrir grjótkasti og öðrum aðskotahlutum – Þetta fólk er ekki verið að draga fyrir rétt. Fólkið sem mun þurfa að mæta örlögum sínum fyrir dómi eru þeir sem köstuðu grjótinu.
- Landsdómur í laumi - 18. mars 2012
- Tíu hlutir sem þú vissir ekki um Kim Jong-il - 5. janúar 2012
- Hvers vegna á ekki að lögleiða notkun fíkniefna? - 13. desember 2011