Munur á milli menningarheima er eitt það allra athyglisverðasta á jarðarkringlunni. Við könnum mismunandi menningarheima þegar við ferðumst, flytjumst búferlum á milli landa eða eignumst vini frá fjarlægum löndum sem hafa sest að í heimalandi okkar. Því ólíkari sem menningarheimarnir eru því meira lærum við, hversdagslegustu hlutir verða ótrúlega spennandi og okkur er sífellt komið á óvart. Maður lærir ekki aðeins um hið ókunna heldur sér maður einnig fósturjörðina á nýjan hátt.
Eitt af því sem gjarnan er öðruvísi á milli menningarheima, og jafnvel landa, er barnauppeldi og viðhorf samfélagsins til barna. Í sumum löndum er það sjálfsagður hluti barnauppeldis að slá börn, annars staðar er það bannað með lögum, sums staðar er það eðlilegasti hlutur í heimi að senda ungabörn til dagmömmu, í öðrum löndum er ókunnugum ekki treyst fyrir hvítvoðungum. Munurinn á Íslandi, sem tilheyrir hinum vestræna heimi, og þróunarlandinu Ekvador, hvað barnauppeldi varðar, er til dæmis talsverður.
Á Íslandi þykir fátt eðlilegra en að senda barn sem nálgast eins árs aldurinn til dagmömmu eða á ungbarnaleikskóla. Þaðan liggur leið þess svo á leikskólann, af leikskólanum í skólann og á frístundaheimilið og við 9 ára aldurinn ætti það að geta séð um sig sjálft eftir skóla þangað til foreldrarnir koma heim um fimmleytið. Í Ekvador er venjulegur dagur í lífi barnsins aðeins öðruvísi.
Í Ekvador þekkjast varla dagmömmur og leikskólar í borginni þar sem ég bý eru teljandi á fingrum annarrar handar. Hér er það fjölskyldan sem hugsar um barnið á fyrstu árunum í lífi þess. Móðirin er gjarnan heimavinnandi en ef hún er útivinnandi fær hún systur sína, mömmu eða frænku til að hugsa um barnið, því ókunnugum er helst ekki treystandi. Að auki er fjölskyldan mikilvægari en allt annað og fólk sýnir það svo sannarlega í verki, sérstaklega með viðhorfi sínu til barna sem eru ávallt velkomin og aldrei álitin standa í vegi fyrir starfsferli, námi eða tekjumöguleikum.
Stundum er sagt að íbúar í hinum vestræna heimi hafi misst tengsl sín við náttúruna. Þegar ég hugsa til þess hvernig flest íslensk börn eyða dögunum sínum (þau er með jafnlangan vinnudag og foreldrarnir) skýtur þessi frasi upp kollinum: Í kreppum öðlast gömul gildi nýtt líf. Á Íslandi ættum við ekki að hætta að treysta ókunnugum til að hugsa um börnin okkar heldur staldra aðeins við og gefa þeim meiri tíma með foreldrum og fjölskyldunni almennt. Það mætti líka bjóða börn meira velkomin í samfélag okkar fullorðna fólksins, eins og gert var hér áður fyrr í baðstofum landsins.
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021