Ímyndaðu þér í að einn dag myndi talsmaður ríkissins banka upp á heimili þínu. Hann væri með byssu í hægri hendinni og saklausan mann í þeirri vinnstri. Tilboðið væri svo einfalt ef þú værir tilbúinn að taka að þér aftöku á þeim saklausa myndi ríkið greiða þér eina milljón dollara (um 120 milljónir króna). Einu afleiðingarnar af þessu væru slæm samviska og stærri bankareikningur. Hvað myndir þú gera?
Fyrir sjálfan mig væri svarið einfalt nei. Ég myndi aldrei hafa það í mér að drepa nokkurn einasta mann einungis fyrir gróða. En hve marga þyrfti að spyrja þar til að einhver myndi segja já? Samkvæmt rannsóknum væru það líklegast um hundrað, kannski jafnvel færri. Því að það eru alltaf til þeir sem fara auðveldu leiðina i lífinu og eru tilbúnir að selja alla sína staðfestu, bara ef upphæðin er nægilega há.
Í kjölfar fjármálahrunsins hafa fjölmiðlar verið að tapa sér í umræðu um viðskiptasiðferði og þá siðlausu hegðun sem viðgekkst á vinnustöðum landsins. Kemur það nokkrum manni á óvart að menn eru tilbúnir að ganga ansi langt einungis til að græða nokkrar aukar krónur? Hélt einhver að allir væru afskaplega góðar og siðprúðar manneskjur þegar að viðskiptalífið er annars vegar?
Græðgi er nefnilega mjög merkilegur hlutur. Það er best að lýsa henni eins og vatni og laga ramminn er skálin utan um vökvan. Þegar það eru göt eða sprungur í ílátinu streymir græðgin út fyrir og heildar innihaldið minnkar, þetta virðist hafa gerst á Íslandi. Aftur á móti ef það eru nægilega góðar reglur til staðar er hægt að hafa hemil á vatninu.
Græðgi er nefnilega oft af hinu góða ef það er rétt farið að henni. Með ákveðnu frelsi getur hún styrkt atvinnulífið, þjónustu og almenna velmegun. Aftur á móti ef þjóðin er blind gagnvart því sem einstaklingar komast upp með getur farið illa.
Það er því afskaplega barnalegt að tala um viðskiptasiðferði þegar að margir eru tilbúnir að leggja næstum hvað sem er á sig til að hagnast. Eina alvöru viðskiptasiðferðið sem er til er lagaramminn, annað er bara barnaskapur, að mínu mati.
- Af veirum og vöðvabólgum - 19. nóvember 2020
- Minningahöll að molum orðin - 5. október 2015
- Steypum yfir miðbæinn! - 30. september 2015