Undanfarið hefur umræða verið í samfélaginu um fyrningarleið ríkisstjórnarinnar. Samþykkt var á Alþingi hið umdeilda skötuselsfrumvarp og nú á vorþingi er gert ráð fyrir að strandveiðifrumvarpið verði samþykkt. Sem þekktur landkrabbi tók undirritaður sig til við að reyna afla sér upplýsinga um hvað leiðin snýst og hverjar raunverulegar afleiðingar myndu verða ef fyrningarleiðinni yrði framfylgt af núverandi ríkisstjórn.
Til að fjalla málefnalega um sjávarútveg og íslenska aflamarkskerfið verðum við að líta á þær ástæður fyrir því að kerfið var sett á árið 1983. Kerfið var sett á með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir áframhaldandi samdrátt sem orðið hafði í aflaföngum árunum á undan. Aflafyrirkomulag fyrir 1983 hafði leitt til ofveiða og til offjárfestingar í sóknartækjum eins og t.d togurum. Einnig var staðreynd að fyrirkomulagið hafði leitt til samdráttar hrygningastofna enn það var þó ekki eina vandamálið sem þingmenn sammældust um að hið nýja kerfi ætti að leysa.
Eins og sjá má á sögulegum tölum var afkoma sjávarútvegsins léleg og hefði ekki staðið undir sér án styrkja frá ríkisjóði til lengri tíma, sérstaklega í ljósi þess samdráttar sem blasti við í aflaheimildum. Hvorki sjávarútvegsfyrirtækin né ríkisstjórn hafði mikinn áhuga á að þurfa að niðurgreiða einn mikilvægasta og stærsta útflutningsiðnað á landinu.
Íslenska kvótakerfið, þá sérstaklega þegar frjálsa framsalið var gert leyfilegt af vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar, átti að auka hagræðingu í greininni og afnema þurftina fyrir ríkisstyrkjum og koma í veg fyrir að útgerðir og fiskvinnslur þyrftu í neyð að sækja í hina mismunandi ríkisstyrktarsjóði sem þau gátu sótt í fyrir árið 1990.
Nýja kvótakerfið bar árangur. Afkoma sjávarútvegsins frá árinu 1991 hefur verið jákvæð og í raun var einungis neikvæð afkoma árin 1997 og 1999. Það er ekki einungis kvótakerfinu að þakka en kerfið skapaði þann sveigjanleika og arðsemi sem greinin þurfti á að halda til að takast á við þær erfiðu aðstæður og nauðsynlegu hagræðingu sem gera þurfti í sjávarútvegsiðnaðinum.
Útgerðir hafa á sama tíma þurft að þola skerðingu á aflaheimildum sínum undanfarin ár án þess að fá neinar bætur fyrir vegna þess að þær áttu að búa að því að þegar betur áraði þá gætu þær veitt meira. Landaður afli af þorski hefur farið úr því að vera um 293.890 tonn (samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands) árið 1983 í það að vera u.þ.b 150.000 tonn í ár sem er um 48% samdráttur. Hefur sá samdráttur haft þau áhrif að til þess að iðngreinin skili hagnaði varð að fækka í skipastól landsins.
Þrátt fyrir að þekkt sé innan ESB að sambandið greiði fyrir úreldingu skipa úr samnefndum sjóð á kostnað skattborgara sambandsins, þurfti atvinnugreinin á Íslandi sjálf að taka á sig þann kostnað við endurnýjun og úreldinu á veiðiflotanum án þess að íþyngja íslenskum skattgreiðendum. Íslenski flotinn í dag samanstendur af u.þ.b 1582 skipum, bátum, trillum og togurum og er í dag hæfilega stór til að það sé arðbært að stunda sjávarútveg. Auk þess hefur skipastóllinn dregist saman úr því að vera 1.976 talsins árið 1999. Þetta er 20% samdráttur á fjölda skipa á tæpum áratug.
Svo í stað þess að ríkið niðurgreiddi úreldingargjald hefur íslenskur sjávarútvegur endurnýjað og smækkað flota sinn á eigin kostnað og byggt upp sína langtímaafkomu án afskipta ríkisins. Hefur það kostað mikla fjármuni en það var nauðsynlegt því allur kvóti er bundinn við skip. Skipin eru síðan verðmetin eftir þeim aflaverðmætum sem þau geta sótt.
Þrátt fyrir að iðnaðinum hafi tekist að hagræða til að takast á við breyttar aðstæður er verið að grafa undan iðnaðinum það kerfi sem er grundvöllur fyrir starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja í dag. Undanfarið hefur ríkisstjórnin ekki einungis rætt um fyrningarleið til að leggja núverandi kerfi af, heldur tekið fyrstu skrefin með Skötuselsfrumvarpinu og fyrirliggjandi Strandveiðifrumvarpi. Kvóti í skötusel var skertur við upphaf þessa fiskveiðiárs og voru þær ástæður gefnar af stjórnvöldum að vernda þyrfti fiskinn. Núna er verið að auka aflaheimildir en þeir sem þurftu að þola skerðinguna munu ekki uppskera eins og þeir sáðu. Þarna er verið að taka kvótann í gegnum óbeina endurúthlutun frá þeim sem þurftu að þola skerðingu og úthluta honum til annarra. Þarna er verið að taka langtímagrundvöll iðnaðarins frá þeim sem hafa byggt upp sín fyrirtæki eftir lögum sem Alþingi hefur sett með langtímarekstur í huga.
En fyrningarleiðin mun ekki einungis hafa áhrif á íslenskt þjóðfélag í gegnum sjávarútvegsfyrirtækin. Við fjármögnun reksturs og annarra fjárfestinga útgerðanna þurftu fyrirtækin að leggja fram veð til að öðlast lánveitingar sem ekki eru ríkistryggðar og nægilegar háar til að uppfylla kröfur um nútíma flota með hámarks nýtingu. Var það byggt á verðmæti skipa sem útgerðirnar eiga. Verðmæti skips eru mæld eftir því hvað mikill kvóti er skráður á skipið. Kvótinn er leyfi til þess að ná í verðmætin og þegar minna af honum er til skiptanna, hækkar fiskurinn sem veiðist í verði og þannig skapar kvótaeignin bein verðmæti fyrir fyrirtækið því það getur selt meira. Það gefur augaleið að um leið og eignin verður tekin af þeim og hún þar með verðlaus, verða útgerðirnar tæknilega gjaldþrota.
Því er það staðreynd að eina sem getur bjargað útgerðum landsins við innleiðingu fyrningarleiðarinnar er að ríkið taki til sín einnig nærri því allar skuldir sjávarútvegsins. Miðað við núverandi aðstæður, þar sem halli ríkissjóðs á árinu 2010 verður um 100 milljarðar er ekki líklegt að ríkissjóður geti tekið yfir allar skuldir sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þar með eru fyrirtækin dæmd til að leggja upp laupana.
Kostnaðurinn við gjaldþrot útgerða fellur á lánadrottna útgerðanna sem eru nýju íslensku bankarnir. Stærsti einstaki lánveitandinn er Landsbankinn og það liggur fyrir að ef fyrning er farin þá mun ríkið þurfa að endurfjármagna bankann því það er algjörlega óvíst hvort hann geti tekið á sig svo stórt tap. Hjá öðrum bönkum sem núna eru komnir í eigu kröfuhafa, þá munu þeir gera kröfu um endurgreiðslu frá gömlu bönkunum sem verður að teljast mjög ólíklegt að af verði.
Hætta er á að þeir stefni ríkinu til að bæta tjónið og endurfjármagna nýju bankana. Miðað við að skuldir útgerðanna nemi 500 til 600 milljörðum hjá nýju bönkunum og hjá sparisjóðunum þá þarf ríkið að lágmarki að endurfjármagna bankana með helmingi af þeirri upphæð. Miðað við greiðslugetu ríkisjóðs í dag er ekki þess að vænta að sá möguleiki sé fyrir hendi þ.e. að ríkið megi við öðru hruni fjármálakerfisins. Ekki má gleyma þeim hnekkjum sem okkar fjármálakerfi mun verða fyrir hjá alþjóðlegum lánastofnunum og fjármálafyrirtækjum.
Fyrningarleiðin mun því ekki einungis leggja sjávarútvegsiðnaðinn í rúst heldur einnig eyðileggja þann litla endurreisnarárangur sem byggður hefur verið upp síðan haustið 2008. Hugmyndin að leiðinni og tilgangurinn einkennast af skammtímahugsun. Ef óánægja ríkir um aflmarkskerfið er mun skynsamlegra að leitast við að betrumbæta kerfið í stað þess að taka einu sinni enn U-beygju til að friðþægja háværar raddir sem gera sér ekki grein fyrir langtímaafleiðinum umbreytingarinnar. Hættum að slátra gullgæsum okkar, einblínum frekar á að slökkva þá elda sem enn loga. Byrjum á endurreisninni á þeim grunni sem við höfum byggt á í áratugi.
– Allar heimildir fyrir utan ofangreindan tengil eru teknar af vefsíðu Hagstofu Íslands
- Blygðunarkennd þjóðarinnar - 30. október 2010
- Mikilvægi frelsisins - 30. ágúst 2010
- Fyrningarleiðin frá sjónarhóli landkrabba - 29. apríl 2010