Hugverkaréttur eða Intellectual Property Rights (IPR) er hugtak sem mikið hefur verið rætt í tengslum við alþjóðavæðingu fyrirtækja og aukið samstarf heimsveldanna þriggja; Ameríku, Asíu og Evrópu sem búa yfir mismunandi færni og áherslum í viðskiptum. Fjölþjóðafyrirtæki nýta sér gjarnan ýmsan hugverkarétt til að vernda starfsemi sína og þekkingu í þeim tilgangi að ná auknu samkeppnisforskoti yfir keppinauta sína. Kerfisbundinn hugverkaréttur felur meðal annars í sér einkaleyfi, höfundarétt, vörumerki og hönnunarvernd sem öll hafa mismunandi hlutverki að gegna. Slíkan rétt er hægt að öðlast á kerfisbundinn hátt hjá viðeigandi stofnunum.
En það eru ekki eingöngu samkeppnisaðilar sem fyrirtæki þurfa að hafa í huga þegar kemur að hugverkarétti. Það þarf líka að ganga úr skugga um að samstarfsaðilar hafi ekki of greiðan aðgang að hugverkum fyrirtækis. Það vill oft verða erfitt að stýra samskiptum samstarfsaðila þar sem samstarf byggir vissulega á trausti, gagnkvæmum lærdómi og miðlun þekkingar svo allir njóti góðs af samstarfinu. Það hefur þó ósjaldan gerst að fyrrum samstarfsaðilar enda í harðri samkeppni þegar annar aðilinn hefur lært að tileinka sér styrkleika hins, slitið samstarfinu og skilið mótherjann eftir með sárt ennið. Mikilvægi hugverkasverndar er því ekki síður mikilvægt í þessu samhengi.
Íslensk fyrirtæki eru engin undantekning í þessum efnum. Þó svo mörg íslensk fyrirtæki séu lítil í samanburði við erlendar samsteypur sem njóta góðs af fjölda hugverkaleyfa þá getur hugverkaréttur verið einn af grundvallarforsendum þess að fyrirtæki geti vaxið og haldið út fyrir landsteinana. En kerfisbundinn hugverkaréttur þarf ekki alltaf að vera besta lausnin.
Fólki hættir til að tengja hugverkarétt eingöngu við framleiðslufyrirtæki sem eiga ákveðna „uppskrift“ að áþreifanlegri vöru sem stýrir velgengi fyrirtækisins. Slík fyrirtæki sem oft byggja á nýsköpun og hugviti ættu vissulega að nýta sér allan þann hugverkarétt sem nýtist starfsemi þeirra. Það getur þó verið erfitt fyrir fyrirtæki sem veita óáþreifanlegri þjónustu að notfæra sér kerfisbundinn hugverkarétt í daglegri starfsemi. Það er ekki líklegt að fyrirtæki fái einkaleyfi á „góða þjónustu“, eitthvað sem keppinautar geta auðveldlega líkt eftir. Þessi fyrirtæki þurfa að nýta sér heldur óhefðbundnari aðferðir til að koma í veg fyrir að samkeppnisaðilar kóperi þekkingu þeirra á ódýran og auðveldan hátt.
Það þarf ekki alltaf kerfisbundinn hugverkarétt til að halda samkeppnisaðilum frá leyndarmálum að velgengni fyrirtækis. Í raun hefur það sýnt sig að ókerfisbundnar aðferðir þar sem fyrirtæki byggir upp ógagnsæar aðferðir og þekkingu til að vernda sitt eigið hugverk skili hvað bestum árangri. Ef fyrirtæki nær að „fela slóð sína“ þannig að samkeppnisaðilar geti ekki áttað sig á hvernig skila megi eins góðum árangri er sigurinn unninn. Þessu má ná fram með til dæmis sterkri fyrirtækjamenningu, sterkum leiðtogum, skipulagðri aðferðafræði og ferlastýringu. Í tímans rás verður til hugverk sem er ókerfisbundið og nánast ómögulegt fyrir samkeppnisaðila að líkja eftir.
Það eru fjölmörg dæmi um fyrirtæki sem hafa náð að skapa stemningu fyrir slíkum ókerfisbundnum hugverkarétt. Slíkt samkeppnisforskot eykur sjálfbærni fyrirtækis og veitir því aukinn styrk í gegnum erfiða tíma eins og mörg fyrirtæki hafa þurft að þola undanfarið. Hvort sem um kerfisbundinn eða ókerfisbundinn hugverkarétt er að ræða verður áhugavert að sjá hvernig gamalgróin íslensk fyrirtæki munu sýna styrk sinn og „fela” hugverk sitt frá nýjum og áköfum aðilum á markaðnum í kjölfar efnahagshrunsins.
- Hvað varð um þjóðarstoltið? - 27. maí 2010
- Hugverk til aukinnar sjálfbærni - 26. apríl 2010
- Tækifæri í gæðamálum - 26. mars 2010