Farísei nokkur fór í helgidóminn til að biðjast fyrir. “Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn: ræningjar, ranglætismenn, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.” Lúk. 18. 11-12. Skemmst er frá því að segja að þessi maður fór ekki heim réttlættur.
Mér fannst það ágætt þegar bróðir minn auglýsti á fésbókinni, mánudaginn 11. apríl, að daginn eftir yrði útsala á flísum og bjálkum í BYKO og Húsasmiðjunni. Það kom á daginn að ekki virtist vanþörf á. Þann 12. apríl dreifðust flísar út um allt. Það var víst eitthvað minni eftirspurn eftir bjálkunum, enda kannski nóg af þeim fyrir án þess að fólk bara hafi gert sér grein fyrir því.
Allt frá því í bankahruninu haustið 2008 hefur þjóðin beðið óþreyjufull eftir afsökunarbeiðnum frá útrásarvíkingum og stjórmálamönnum. Hún hefur beðið eftir því að einhverjir lýstu sig ábyrga fyrir þeim hörmungum sem gengið hafa yfir þjóðina í kjölfar hrunsins. Hún hefur beðið eftir niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis. Hún hefur beðið eftir aðgerðum sérstaks saksóknara og kraftaverkum Evu Joly. Hún hefur beðið eftir því að fá að krossfesta einhvern. Það hlýtur að vera einhverjum að kenna að við þurfum að þola þetta allt saman? Það hlýtur einhver að þurfa að borga?
Frá því Rannsóknarskýrsla Alþingis kom út, og reyndar að hluta til fyrir það, hafa afsökunarbeiðnir komið fram. Þær hafa verið misskýrar, misgóðar, miseinlægar kannski og mismunandi vel til þess fallnar til að slá á reiði í garð viðkomandi aðila. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að hafa hlotið slæma útreið í umræðum þjóðfélagsins. Þeim aðilum sem stigið hafa fram, játað mistök og lýst því yfir að vera þó ekki væri nema samábyrg fyrir bankahruninu og gjaldþroti þjóðarinnar, hefur undantekningarlaust verið illa tekið. Ekki af öllum – en flestum finnst manni. Ekkert virðist vera nóg. Sölvi Tryggvason orðaði þetta ágætlega þegar hann spurði í pistli sínum á Pressunni: “Hvað vill fólk eiginlega? Harakiri í beinni?”
Það er rétt. Þetta er einhverjum að kenna og það þarf einhver að borga. Kröfur um afsökunarbeiðnir og ábyrgðaryfirlýsingar, um rannsókn, refsingu og umbætur, eru réttmætar. Ferli endurnýjunar, uppbyggingar og endurskoðunar gilda samfélagsins er nauðsynlegt. Það eru fáir sem neita því. Hins vegar eru aðferðirnar sem hægt er að nota til að ná fram rétti sínum ekki allar jafn góðar. Tilgangurinn helgar ekki meðalið. Háværar kröfur eru meðal fólks um mannréttindabrot. Um refsingu án dóms og laga, ítrekuð brot á friðhelgi einkalífsins, eignarréttarins og heimilins. Stundum virðist sem þjóðin, eða amk hluti hennar, sé gengin af göflunum í reiði sinni og oftar en ekki hrópa þeir hæst sem kannski síst ættu. Dæmin um það eru of mörg til að telja þau fram hér.
Mætum ekki siðleysinu með siðleysi heldur breytum eins og við boðum. Byrjum umbæturnar hjá sjálfum okkur. Við þurfum ekki endilega að horfa framhjá flísinni í auga náungans en gleymum ekki bjálkanum í okkar eigin. Aðeins þannig getur byggst hér upp hið réttláta samfélag sem okkur finnst við hafa farið á mis við en ekki það samfélag illsku, hefndar og reiði sem nú virðist vera að verða til. Þá vil ég heldur útrásarvíkingana.
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008