Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum um helgina. Afsögn hennar kom í kjölfar mikils þrýstings sem meðal annars birtist í formi rætinna skrifa á netinu, fjölda símtala til samherja hennar í flokknum og mótmælum nokkur kvöld fyrir utan heimili hennar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mikið moldviðri geysar í kringum Þorgerði Katrínu. Í mörg ár hefur hún mátt þola að andstæðingar hennar hafi kynt undir tortryggni í hennar garð með ýmsum ráðum. Einkum hefur hún orðið fyrir barðinu á illskeyttum sögusögnum sem skáldaðar hafa verið upp til þess að draga úr trúverðugleika hennar en fyrst og fremst til þess að gera henni lífið erfiðara. Rætnar kjaftasögur virðast vera sérstakt uppáhaldsvopn margra sem tekið hafa þátt í stjórnmálum á umliðnum áratugum. Á þessu hefur Þorgerður Katrín fengið að kenna í mörg ár, enda ekki látið sér duga að vera sæt og prúð stúlka heldur staðið á sannfæringu sinni jafnvel þegar það hefur aflað henni óvinsælda. Það eru kannski svona hlutir sem Styrmir Gunnarsson átti við þegar hann sagði Rannsóknarnefnd Alþingis að þetta sé ógeðslegt samfélag sem við búum í.
Fram að þessu virðist Þorgerður Katrín hafa talið sig eiga nægilega marga og trausta stuðningsmenn til þess að halda ótrauð áfram. En dropinn holar steininn. Eftir margra ára álag virðist stuðningsnetið í kringum Þorgerði hafa brostið og hún sagði af sér embættinu, sem hún fékk yfirburðakosningu til fyrir tæpu ári. Hún tók sér tímabundið leyfi frá þingstörfum. Hvenær því leyfi lýkur er erfitt að segja til um. Ólíkt tímabundnum leyfum, Illuga Gunnarssonar og Björgvins G. Sigurðssonar, eru engin mál sem tengjast Þorgerði Katrínu óuppgerð. Ekkert nýtt mun koma fram sem mun sakfella hana eða hreinsa orðspor hennar. Hinir tveir þurfa einfaldlega að bíða eftir ákveðinni niðurstöðu og halda þá áfram eða hætta.
Afsögn Þorgerðar Katrínar kemur í kjölfar hysteríu. Sú reiðialda sem að henni beindist eftir útgáfu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hlýtur að hafa komið henni á óvart. Hún hafði sjálf gert grein fyrir fjármálum fjölskyldu sinnar í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins í fyrra og hlotið yfirburðakosningu. Mikið vatn hefur reyndar runnið til sjávar síðan og margt nýtt komið í ljós. En ekkert af því hefur nokkurn skapaðan hlut að gera með Þorgerði Katrínu. Allt sem hún hafði áður sagt var staðfest í skýrslunni.
Aðförin að Þorgerði Katrínu verður ennþá skrýtnari í þessu ljósi. Einhvern veginn tókst að beina kastljósinu svo mikið í áttina að henni að hún sá ekki annan kost en að láta undan. Þegar upphlaupið er skoðað er ekki hægt að komast hjá því að setja það í samhengi við þá staðreynd að hún hefur eignast bæði óvini og öfundarmenn á pólitískum ferli sínum. Enginn þarf að efast um að óvildarmenn hennar hafa glaðir kynt undir kröfuna um að af öllum þeim sem segðu af sér vegna skýrslunnar væri Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir efst á blaði.
En hversu rökrétt var sú krafa? Vera má að hún eigi ekki mikla framtíð í stjórnmálum í ljósi þess pólitíska andrúmslofts sem nú ríkir. Kannski átti hún lítinn möguleika á því að ná endurkjöri á næsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þess hefði ekki verið langt að bíða að skera úr því enda hafði formaður flokksins boðað að landsfundi yrði flýtt áður en Þorgerður tilkynnti um afsögn sína.
Það er hins vegar rétt að velta því fyrir sér hversu sanngjörn umræða um hana hefur í raun verið. Það er óumdeilt að eiginmaður hennar var stjórnandi hjá Kaupþingi. Það er einnig vitað að launakerfi þess banka byggðist á því að starfsmenn fengu rétt til þess að kaupa hlutabréf í bankanum sem þeir voru svo nánast skikkaðir að taka lán til þess að kaupa. Í ofanálag lá við að það væri brottrekstrarsök að selja bréfin og taka út þann pappírshagnað sem hafði myndast. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar tekur sérstaklega fram að öll veruleg lán sem tengdust þeim hjónum hafi verið vegna starfs eiginmanns hennar hjá Kaupþingi.
Það hefur verið gagnrýnt að Kristján stofnaði einkahlutafélag um hlutabréfaeignina í Kaupþingi (og skuldir sem tengjast henni) í stað þess að hafa þessa fjárfestingu inni í heimilisbókhaldinu. Með því tókst að verja fjölskylduna frá gjaldþroti þegar Kaupþing fór á hausinn. Ætli óvinum Þorgerðar Katrínar hefði reynst erfiðara að ala á vantrausti í hennar garð ef þetta hefði verið niðurstaðan?
Ef Kristján hefði starfað annars staðar en hjá Kaupþingi eru litlar eða engar líkur á því að lánamál fjölskyldunnar hefðu vakið sérstaka athygli. Þá má velta fyrir sér hvenær Þorgerður Katrín hefði átt að skikka eiginmann sinn til þess að láta af störfum hjá Kaupþingi. Er það sanngjörn krafa að fara fram á slíkt?
Svo má velta fyrir sér hvernig það hefði horft við ef Þorgerður Katrín hefði heitið Þorgeir Kári Gunnarsson og Kristján Arason hefði verið Kristjana. Hefði andstæðingum Þorgeirs Kára orðið eins ágengt við að grafa undan honum? Eða gildir það einvörðungu um konur að þær beri sérstaka ábyrgð á launamálum eiginmanna sinna?
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021