Í gær fór fram útför Lech Kaczynski, forseta Póllands, sem lést í flugslysi þann 10. apríl sl. Útförin var gerð frá Wawel-dómkirkjunni í Kraká en forsetinn var einnig grafinn þar ásamt eiginkonu sinni, Mariu Kaczynska. Þau deila grafarstað með mörgum sögufrægum Pólverjum, þar á meðal ýmsum stjórnmálamönnum og listamönnum, og er grafarstaðurinn því heilagur í hugum margra í Póllandi. Var það þar af leiðandi afar umdeilt hvort grafa ætti Kaczynski þar eður ei.
Lech Kaczynski var mjög umdeildur stjórnmálamaður enda þekktur fyrir róttæka hægristefnu sína. Það voru því blendnar tilfinningar sem vöknuðu hjá pólsku þjóðinni í kjölfar dauða hans. Orðræðan í fjölmiðlum í Póllandi og á internetinu varð öfgakennd og hádramatísk, bæði af hálfu andstæðinga forsetans sem og stuðningsmanna hans. Staðreyndin er sú að þegar Kaczynski lést var meirihluti Pólverja búinn að snúast gegn honum og stjórnmálastefnu hans. Með dauða hans snerist sú andstæða upp í andhverfu sína og stuðningsmenn hans „sigruðu“ rökræðuna með útför sem sveipuð var hetjuljóma. Andstæðingar Kaczynski mótmæltu því hins vegar harðlega að forsetinn yrði grafinn í Wawel-dómkirkjunni því í hugum þeirra var forsetatíð hans ekki söguleg á neinn hátt, þvert á móti. Dauði hans var auðvitað hörmulegur, en langt því frá hetjudauði, heldur einfaldlega harmleikur þar sem fórust 95 aðrir.
Einn þessara annarra 95 var Ryszard Kaczorowski. Í valdatíð kommúnista áttu Pólverjar forseta í útlegð og gegndi Kaczorowski því embætti þegar múrinn féll. Embættið hafði reyndar engin völd en engu að síður áhrif á málefni Póllands innan Sovétríkjanna auk þess sem það studdi dyggilega við bakið á andspyrnuhreyfingu landsins sem og við verkalýðsfélögin. Að mati andstæðinga forsetans var Kaczorowski jafnmikilvægur, og ef ekki mikilvægari, í sögu Póllands og Kaczynski sjálfur og spurðu þeir því hvers vegna forsetinn og konan hans væru þau einu sem fengju þann heiður að leggjast til hinstu hvílu í Wawel-dómkirkjunni. Það liggja nefnilega engin haldbær rök að baki því að grafa forsetann á jafnheilögum stað og raun ber vitni. Nema að rökin séu þau að hann dó í flugslysi og hvað þá með mann eins og Kaczorowski sem dó á nákvæmlega sama hátt?
Að mati pólsks meðleigjanda greinarhöfundar (sem er aðalheimild þessarar greinar) fengu andstæðingar Kaczynski að einhverju leyti uppreisn æru þrátt fyrir að hafa „tapað“ rökræðunni um hvar væri best að grafa forsetann. Hetjuljóminn varð nefnilega ekki jafnskær og áætlað hafði verið þar sem ýmsir þjóðarleiðtogar, þar á meðal Barack Obama og Angela Merkel, komust ekki til útfararinnar. Hvers vegna? Jú, vegna eldgossins á Íslandi! Það má því spyrja hvort Eyjafjallajökull hafi með þessum hætti greitt atkvæði gegn Kazcynski eða einfaldlega sent hetjunni sína hinstu kveðju?
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021